Agnete Johnsen mun flytja lagið Icebreaker á seinna undanúrslitakvöldinu
Hin 21 árs Agnete Johnsen, sem mun flytja framlag Norðmanna í Eurovision í ár, hefur hætt við að koma fram á opinberum viðburðum í aðdraganda keppninnar sem fer fram í Svíþjóð í næstu viku. Ástæðan er sú að andleg veikindi eru að hrjá hana og opnar Agnete sig um baráttuna í viðtali við NRK.
Johnsen, sem bar sigur úr bítum í undankeppninni í Noregi í febrúar með lagið Icebreaker, segir að hún voni að aðdáendur sýni því skilning að hún hafi ákveðið að beina orku sinni að sjálfri keppninni, en ekki á kynningarviðburðum í tengslum við keppnina. Mun hún til dæmis ekki veita viðtöl í aðdraganda keppninnar eða koma fram á blaðamannafundum.
Johnsen sagði í viðtalinu við NRK, sem The Local vitnar til, að hún hafi lengi barist við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. „Ég hef glímt við andleg veikindi í mörg ár og ég get ekki alltaf haft stjórn á hugsunum mínum. Þegar það gerist þá get ég ekki tamið mér jákvætt hugarfar og fer á mjög dimman stað,“ sagði Johnsen í samtali við VG. „Það verður allt neikvætt. Þetta er algjört helvíti.“
Sagði hún að með því að draga sig til hlés í aðdraganda keppninnar séu meiri líkur á að henni takist að beina huganum að undanúrslitakvöldinu, en Agnete mun flytja framlag sitt á seinna kvöldinu, þann 12. maí. Úrslitakvöldið fer fram 14. maí.
Þeir sem standa að baki framlagi Norðmanna í Eurovision segjast virða ákvörðun Agnete og sýna henni skilning.
„Það er mikil samheldni í hópnum og við munum veita henni allan þann stuðning sem hún þarf á að halda,“ sagði hópurinn í yfirlýsingu til norskra fjölmiðla. Hér að neðan má hlusta á flutning Agnete á laginu.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=mYnfLY0h8vY&w=560&h=315]