Sviðsreynslan kemur ekki í veg fyrir stress hjá Bryndísi Ásmundsdóttur, leik- og söngkonu
„Kannski má líkja þessu við að bjóða í afmæli og vera logandi hræddur um að enginn mæti.“
Þetta segir Bryndís Ásmundsdóttir, söng- og leikkona, um stressið sem fylgir því að setja upp tónleika. Þegar blaðakona nær af henni tali er hún á fullu að undirbúa minningartónleika um Amy Winehouse, sem haldnir verða í Gamla bíói á miðvikudaginn.
Það kemur kannski á óvart að þessi sviðsvana kona skuli verða andstutt, flökurt og svitna ótæpilega áður en hún kemur fram.
„Ég alltaf mjög kvíðin áður en ég stíg á svið, sama hvað ég er að gera. Ég fæ líkamleg einkenni og er oft alveg að drepast. Geng um gólf með hjartað í hálsinum. Þegar ég er hins vegar komin upp á svið og sé áhorfendur hverfur stressið eins og dögg fyrir sólu. Það er eins og áhorfendurnir gefi mér orku sem róar mig strax. Í aðdragandanum reyni ég að sjá þetta augnablik fyrir mér, þegar ég er komin upp á svið ásamt hljómsveitinni. Það hjálpar.“
Bryndís segist þó vera vel stemmd fyrir tónleika vikunnar, enda féll dagskráin vel í kramið hjá gestum sem sáu hana fyrr í vetur.
„Gamla bíó er stærri staður en Rósenberg og Græni hatturinn á Akureyri, þar sem við höfum flutt dagskrána áður. Allir staðirnir eru samt frekar litlir og henta prógramminu vel. Amy leið best á sviði í litlum klúbbum, þar sem nánd við áheyrendur var mikil og fyrir mér er það hluti af því að heiðra minningu hennar.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bryndís stígur á svið Gamla bíós. Hún tók þátt í rokksöngleiknum Janis 27, sem fjallaði um ævi Janis Joplin, og uppskar Grímutilnefningu sem besta söngkonan árið 2009. „En ég kom fyrst upp á þetta svið 12 ára gömul þegar ég lék í Litla sótaranum, sem Óperan setti upp. Mér þykir svo vænt um þetta hús og alla söguna á bak við það.“
Tónleikar Bryndísar og félaga hefjast kl. 21, miðvikudagskvöldi 4. maí. Miðasala fer fram á midi.is.