Umdeildur miðill heldur miðilsfund á Ísafirði og stefnir á útgáfu bókar
Miðillin Anna Birta Lionaraki hyggst gefa út bók í næsta mánuði um yfirskilvitslega hæfileika sína, að því er fram kemur á vestfirska vikublaðinu Bæjarins besta, eða bb.is.
Þar kemur ennfremur fram að Anna Birta hyggist halda miðilsfund á Ísafirði annað kvöld.
Anna vakti athygli þjóðarinnar í vetur eftir að útvarpsmaðurinn Frosti Logason gagnrýndi miðilsfund sem hún hélt í Tjarnarbíói.
Þau tókust svo harkalega á í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag á stöð 2 í nóvember á síðasta ári. Þar gagnrýndi Frosti Önnu Birtu fyrir að nýta sér trúgirni þeirra sem eiga um sárt að binda.
Anna Birta hafnaði þessu alfarið og sagði efasemdarmenn eins og Frosta varla neitt nýtt.
Sjálf sagði hún í Íslandi í dag:
„Þetta er ekki fyrir alla. Ég get ekki setið hér og sagt: Jú, ég sé víst dáið fólk! Þannig að ég segi að þetta er bara svolítið eins og gamall maður sem fer á rokktónleika og kvartar yfir hávaða.
Í umfjöllun bb.is segir Anna Birta að hún hafi fengið mikið af spurningum í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunarinnar og því að hún hafi á endanum brugðið á það ráð að skrifa bók, sem kemur út í næsta mánuði.
Hún segist vel skilja vantrú fólks, þar sem ekki sjái allir á þennan hátt.
Miðilsfundurinn verður haldinn í sal Menntaskólans á Ísafirði annað kvöld en einnig býðst hún til þess að taka áhugasama í einkatíma.