Söngkonan Beyoncé gaf út nýja plötu í nótt sem ber heitið Lemonade. Plata þessarar einu skærustu stjörnu tónlistarheimsins verður eingöngu fáanleg á Tidal, en Beyoncé á hlut í fyrirtækinu ásamt eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Jay Z.
Platan er sjötta breiðskífa Beyoncé frá árinu 2003 en hinar fimm, sem komu út á árunum 2003 til 2013, hafa allar náð efsta sæti bandaríska vinsældalistans. Síðasta plata hennar, Beyoncé, seldist í 365 þúsund eintökum fyrsta sólarhringinn og því talið nær fullvíst að áskrifendum Tidal-tónlistarveitunnar muni fjölga umtalsvert á næstu dögum.
Meðal þeirra sem koma fram á nýju plötunni eru Kendrick Lamar, The Weeknd, James Blake og Jack White. Tidal sendi frá sér tilkynningu um útgáfu plötunnar í nótt en í henni kom fram að um væri að ræða „hugmyndafræðilegt verkefni um ferðalag kvenna um heima sjálfsþekkingar“.
Platan var gefin út í kjölfar stuttmyndar sem sýnd var á HBO í gærkvöldi með sama nafni. Hér að neðan má sjá sýnishorn úr stuttmyndinni.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=BB5zLq1zcdo&w=560&h=315]