fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Fókus

„Engin að halda kjafti og vera sæt“

Rósa Björk og María Lilja vinna að bók með ástarsögum nútímakvenna

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 20. apríl 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Okkur fannst þetta góð hugmynd en þegar við byrjuðum að auglýsa eftir sögum á Facebook, í hópum eins og til dæmis Beauty tips, þá fóru okkur að berast sögur sem sýndu hvað þetta var raunverulega frábær hugmynd.“

Um þessar mundir vinna vinkonurnar Rósa Björk Bergþórsdóttir og María Lilja Þrastardóttir að bók með raunverulegum ástarsögum íslenskra nútímakvenna. Bókin er væntanleg í byrjun sumars og er ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á ástinni.

„Við erum ekki komnar með nafn á bókina en vinnuheitið er Ástarsögur íslenskra nútímakvenna. Ekki sögur af ástamálum langalangömmu þinnar heldur ástarsögur kvenna sem geta fundið út úr því að senda okkur „mail“. Þannig skilgreinum við nútímakonuna.“

Er mikilvægt að setja saman smásagnarit um ástamál nútímakvenna á Íslandi? Og hefur þetta verið ykkur hugleikið lengi?

„Þetta er hugmynd sem er búin að vera með okkur í svolítinn tíma. Við eigum sjálfar fyndnar ástarsögur og vinkonur okkar eiga fyndnar sögur en núna var staður og stund til þess að gera þetta. Ég er búin að vera í fæðingarorlofi og það var kominn tími til að vinna einhver verkefni utan heimilisins. Þessi bók er bara jákvæð og því ekkert nema jákvætt að vinna að henni. Bókin verður vonandi spennandi kostur fyrir fólk til þess að taka með sér í fríið og ég held að bæði karlar og konur gætu haft gaman af því að lesa hana,“ segir Rósa Björk en þær stöllur eru komnar vel á veg með vinnuna og stefna á að í bókinni verði í kringum 100 sögur.

Sjáum bara konfettí í sjónvarpi

Vinkonurnar segja sögurnar í bókinni ólíkar skálduðum ástarsögum því þessar eru raunverulegar og þar af leiðandi einlægari en margt af því sem við sjáum á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi dagsdaglega.

„Okkur fannst þetta góð hugmynd en þegar við byrjuðum að auglýsa eftir sögum á Facebook, í hópum eins og til dæmis Beauty tips, þá fóru okkur að berast sögur sem sýndu hvað þetta var raunverulega frábær hugmynd. Konur eru svo einlægar og þegar sagan er ekki skálduð þá verður hún svo sönn. Við sjáum svo mikið konfettí í sjónvarpinu, í myndböndum og kvikmyndum. Samskiptamiðlar eru ekki endilega að hjálpa til enda hægt að filtera góðar paramyndir. En sögurnar sem við höfum fengið hingað til sýna líka leiðinlegu dagana sem koma hjá öllum inni á milli. Við sjáum sérstaklega að nafnleyndin sem við bjóðum upp á gerir að verkum að höfundurinn er ekkert að skafa utan af því og segir líka frá pararáðgjöfinni og öðrum fylgifiskum sem oft tengjast ástinni. Ég held einmitt að af því að við bjóðum upp á nafnleynd þá séu konur oft reiðubúnari að vera einlægar og segja frá raunveruleikanum.“

Rósa Björk og María Lilja eru almennt hrifnar af reynslusagnaforminu og segja svo margt fallegt við það þegar konur segja frá sinni reynslu.

Stelpur gerendur í ástarsamböndum

Konur virðast fúsar til þess að miðla af reynslu sinni enda hefur sögunum rignt inn á netfang stelpnanna að undanförnu. Ritstýrurnar segja að sögurnar sýni mikinn fjölbreytileika en líka að í þeim endurspeglist ákveðinn þráður sem mögulega einkenni ástamál nútímakonunnar og nefna sem dæmi hve miklir og meðvitaðir gerendur konur eru í ástamálum sínum í dag.

„Við ákváðum að þetta yrðu bara sögur frá konum. Sú ákvörðun var tekin vegna þess að við erum miklir femínistar og okkur langaði að hafa þetta með fókus á konuna. Við vildum leyfa konum að segja sína hlið og upplifun af ástinni. Svo hefur það komið í ljós að stelpur eru miklir gerendur í ástarsamböndum sínum sem gleður okkur því arfleifð okkar hefur viljað kenna konum að sitja á ballinu og bíða eftir því að vera boðið upp. En sögurnar sem við erum að sjá eru ekki þannig. Þar er engin að halda kjafti og vera sæt heldur eru höfundarnir miklir þátttakendur. Þetta vonum við að til dæmis ungar stelpur sjái og bara konur yfirhöfuð og að þetta virki valdeflandi fyrir þær í ástamálunum þeirra.“

En hvernig hafa viðtökurnar verið? Eru nútímakonur á Íslandi til í að segja sögur sínar?

„Viðtökurnar hafa verið framar öllum vonum. Við erum komnar með mjög margar og mjög ólíkar sögur. Allt frá Tinder-sögum og æskuástum að vinkonuástarsögum og ástarsögum sem enda illa. En okkur langar í enn fleiri. Við kvíðum því mest að þegar bókin er komin út þá eigi margar eftir að koma til okkar og segjast eiga skondnar sögur sem hefðu verið fínar í bókinni. Við erum að taka við sögum þangað til í byrjun maí og það má í rauninni senda okkur sögur fram að því á astarsogur@gmail.com.“

Aðdáunin og áhuginn leynir sér svo sannarlega ekki í augum Maríu Lilju og Rósu Bjarkar en hefur þetta verkefni fengið þær til þess að skrifa sínar eigin sögur?

„Já, við verðum báðar með sögur. Það væri nú svolítið erfitt að biðja fólk að senda inn ástarsögur þegar við getum ekki gert það sjálfar!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox

Vikan á Instagram – Athyglissjúk stjörnuhjón og bótox
Fókus
Í gær

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“

Aþena Sól var frelsissvipt og pyntuð en vitnið þagði – „Ég elska að sjá þig þjást“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi

Nær óþekkjanleg Ellen DeGeneres á pöbb í Bretlandi