Bandaríska leikkonan Doris Roberts, sem í seinni tíð var einna best þekkt fyrir túlkun sína á Marie Barone í gamanþáttunum Everybody Loves Raymond, er látin. Doris var níræð þegar hún lést. Þetta tilkynnti talsmaður fjölskyldu hennar í gærkvöldi.
Doris hafði verið heilsuhraust og glímdi ekki við neinn alvarlegan sjúkdóm, eftir því sem best er vitað.
Roberts vann fern Emmy-verðlaun fyrir leik sinn í Everybody Loves Raymond. Ray Romano, sem lék aðalhlutverkið í þáttunum, minntist vinkonu sinnar þegar tilkynnt var um andlát hennar í gærkvöldi og sagði að hún hefði haft óþrjótandi orku og sífellt komið á óvart. Doris lék móður Ray í þáttunum.