Andri Már lét lífið í fallhlífarstökki í Flórída árið 2013 – „Erfitt að þurfa að bera sig eftir öllu sjálfur“
„Við gátum ekki fengið að sjá hann strax og það var hrikalegt að vita ekki neitt um framhaldið og hvað hlutirnir ættu eftir að taka langan tíma,“ segir Alda Kolbrún Haraldsdóttir sem missti son sinn, Andra Má Þórðarson í fallhlífastökksslysi fyrir þremur árum. Ofan á áfallið, óvissuna og sorgina bættust við mikil fjárútlát við að koma kistu Andra til landsins.
Vorið 2013 bárust fregnir af hörmulegu banaslysi tveggja íslenskra fallhlífarstökkvara í Bandaríkjunum. Þetta voru þeir Andri Már Þórðarson, 25 ára gamall nemandi í fallhlífarstökki og Örvar Arnarson, 41 árs, einn reyndasti fallhlífarstökkskennari landsins. Fregnirnar vöktu mikinn óhug og þá ekki síst innan alþjóðlega fallhlífarstökksheimsins, enda einsdæmi að tveir einstaklingar látist báðir í sama stökki.
Á meðan landsmenn snæddu páskasteikina beið Alda ásamt öðrum aðstandendum Andra eftir fregnum af rannsókn lögreglunnar í Flórída auk þess sem koma þurfti kistu Andra til landsins. Hún segir að ekki hafi verið um annað að ræða en setja sig á einhvers konar sjálfstýringu til að komast í gegnum þessa erfiðu tíma. Vinir og ættingjar hringdu, komu og fóru og allir voru í losti.
Alda talar af reynslu þegar hún segir að þegar að dauðsfall verður erlendis, fjarri aðstandendum, þá geri það skelfilega stöðu enn verri. Ofan á áfallið og sorgina bætist við nístandi óvissa. „Það var engin áfallahjálp í boði og það er erfitt að þurfa að bera sig eftir öllu sjálfur hvað það varðar, verandi í algjöru losti.“
Síðar meir endaði ég á því að leita til Félagsmálastofnunar því ég var orðin hrædd um að ég myndi hreinlega enda inni á geðdeild. Mér tókst loks að fá viðtöl hjá sálfræðingi, þar sem ég fékk að tala út í eitt,“ segir hún og bætir síðan við að ofan á allt saman hafi bæst við mikil fjárútlát við að koma kistu Andra til landsins.
„Til þess að fá kistuna heim þurftum við að borga útfararstofu úti í Bandaríkjunum sem sá um að undirbúa allt varðandi flutninginn. Sá kostnaður hljóp á hundruðum þúsunda. Með kostnaðinum sem bættist við útförina hér heima greiddum við rúmlega eina og hálfa milljón íslenskra króna,“ segir hún en í kjölfar harmleiksins setti fjölskylda Örvars Arnarsonar á fót minningarsjóð sem veitir aðstandendum sem missa ástvin í útlöndum fjárhagslegan stuðning hvað varðar flutning hingað til lands.