Stjörnurnar þurfa stundum að leika hetjur í vinnunni, en margar hafa gert það í alvörunni.
Hér er sagt frá frægu fólki sem hefur unnið mikil þrekvirki og sýnt af sér mikinn náungakærleik þegar eitthvað bjátar á.
Doug Stanhope Uppistandarinn Doug Stanhope hefur oft gantast með sjálfsmorð á sviði. Hann þekkir það þó af eigin raun að hitta fyrir manneskju sem ætlaði að frmja sjálfsmorð. Stanhope sá mann sem stóð á brú í Skotlandi og ætlaði að stökkva. Stanhope talaði manninn ofan af því að fremja sjálfsmorð og ku hafa sagt honum nokkra brandara í leiðinni til að reyna að létta lund mannsins, eða svo segir sagan.
Heidi Klum Fyrirsætan Heidi Klum var ásamt fjölskyldu sinni í fríi árið 2013 á strandstað þegar barnfóstra hennar og sonur Klum lentu í vandræðum í sjónum. Klum var fljót að bregðast við og dró þau að landi.
Matthew McConaughey Leikarinn Matthew McConaughey var á sýningu myndar á Toronto-kvikmyndahátíðinni þegar hann sá konu í flogakasti. Enginn nærri henni virtist vita hvernig væri hægt að aðstoða hana en leikarinn lét til skara skríða og hóf endurlífgun þegar konan missti meðvitund.
Mynd: Reuters
Arnold Schwarzenegger Leikarinn og stjórnmálamaðurinn Arnold Schwarzenegger var í fríi á Maui þegar hann sá mann í sjónum sem virtist vera í vandræðum. Maðurinn hékk á litlu brimbretti og var í hættu. Schwarzenegger áttaði sig á því að maðurinn var í mikilli hættu, hann var einn í sjónum og enginn nálægt honum. Hann synti því á eftir honum og dró hann að landi.
Jennifer Lawrence Leikkonan Jennifer Lawrence var í göngutúr með hundinn sinn í Santa Monica í Los Angeles þegar hún sá meðvitundarlausa konu á jörðinni. Lawrence hóf endurlífgun og sinnti konunni þar til sjúkraflutningamenn bar að.
Mynd: Reuters
Mark Harmon Sjónvarpsstjarnan Mark Harmon bjargaði lífi ungs drengs sem lent hafði í bílslysi fyrir utan heimili Harmons. Drengurinn var fastur inni í bíl sem var um það bil að verða alelda. Harmon hljóp af stað og bjargaði drengnum með því að brjóta rúðu á bílnum og draga drenginn út á ögurstundu.
Mynd: EPA
Kate Winslet Leikkonan Kate Winslet var gestur á eyju athafnamannsins Richards Branson þegar eldur braust út á heimili hans. Eldingu laust niður í húsið sem varð fljótlega alelda. Móðir Bransons svaf inni í húsinu. Winslet var ekki lengi að hugsa sig um og hljóp inn í húsið og bjargaði konunni sem var komin á tíræðisaldur. Winslet bar hana út úr húsinu.
Gerard Butler Áður en Gerald Butler öðlaðist frægð á hvíta tjaldinu bjargaði hann lífi ungs drengs. Butler hafði verið ásamt móður sinni í göngutúr við strönd þegar hann sá ungan dreng í vandræðum í sjónum. Butler hljóp á eftir drengnum, kom honum á þurrt land og veitti honum fyrstu hjálp.
Harrison Ford Leikarinn Harrison Ford hefur oft verið beðinn um að aðstoða við björgunaraðgerðir þar sem hann er þyrluflugmaður og með öll tilskilin leyfi til þess. Eitt frægasta dæmið var þegar konur í fjallgöngu festust á fjallstindi í Idaho í Bandaríkjunum. Það var engin leið að komast að konunum fótgangandi og því þurfti að sækja þær flugleiðis. Harrison Ford kom þeim auðvitað til bjargar með því að ræsa þyrluna og æða af stað.
Mynd: Reuters
T.I. Á tónlistarferli sínum hefur það tvisvar gerst að rapparinn T.I. var réttur maður á réttum tíma. Í bæði skiptin voru það einstaklingar sem ætluðu að stytta sér aldur með því að stökkva af þaki háhýsa. Í annað skiptið talaði hann örvinglaðan mann niður af syllu, en í hitt skiptið bjargaði hann söngvaranum Scott Stapp, árið 2012, þegar Stapp hafði reynt að fremja sjálfsmorð. T.I. kom að honum og veitti honum aðhlynningu þar til sjúkraflutningamenn komu.
Mynd: EPA