Hefur sjálf upplifað sorgarferli vegna fatlaðrar dóttur sinnar – „Þetta snýst um axla ábyrgð og njóta lífsins“
„Þegar þú gengur með barnið þitt, þá gerir þau auðvitað ekki ráð fyrir að verði fatlað. Auðvitað óskar þú þess af öllu hjarta og undirbýrð þig í huganum að barnið fæðist heilbrigt,“ segir Kolfinna Snæbjörg Magnúsdóttir. DV hefur áður fjallað um Kolfinnu og baráttu hennar við bæjaryfirvöld í Garði og í Reykjanesbæ vegna málefna dóttur hennar Öldu Karenar.
Alda Karen er fædd með Downsheilkenni og glímir við margþættar fatlanir, geðraskanir, einhverfu og þroskahömlun. Hefur Kolfinna ítrekað þurft að ganga eftir því að fá þjónustu fyrir Öldu. Greint var því í grein DV árið 2013að fjölskyldan hefði flúið heimabæ sinn í Garði en þá hafði Alda Karen meðal annars verið dregin gegn vilja sínum í bað þegar hún dvaldi í skammtímavistun fyrir fatlaða á Heiðarholti.
Þá var einnig greint frá því í grein DV árið 2014 að félagsþjónustan í Garði hefði ákveðið að synja Öldu um viðbótarakstursþjónustu svo hún gæti sótt íþróttaæfingar í Reykjanesbæ. Kolfinna var einnig í viðtali við Morgunblaðið seinna sama ár þar sem hún sagði tómlæti hafa mætt sér í þau skipti sem hún hefði gagnrýnt þjónustu sveitarfélagarfélaganna opinberlega.
Kolfinna ritaði á dögunum pistil á Facebook sem síðar birtist á Kvennablaðinu en pistillinn er bréf sem hún skrifaði til vinkonu sinnar sem glímir við þunglyndi eftir að hafa misst son sinn úr sjálfsvígi. Kolfinna hefur sjálft glímt við sorg vegna þeirrar baráttu sem Alda Karen hefur háð í lífinu og segist því skilja að miklu leyti þá sorg sem umrædd kona gengur í gegnum. Það sé ekki minni sorg sem fólk upplifi þegar að það eignast barn með fötlun.
„Það að eignast barn með fötlun er mikið áfall sem flestir komast þó yfir, og það hef ég líka gert,“ segir Kolfinna í samtali við blaðamann DV.is og bætir við: „Þetta er eins og hvert annað áfall í lífinu. Við göngum í gegnum alls kyns áföll og dauðinn út af fyrir sig er ekki alltaf það versta. Þetta snýst um axla ábyrgð og njóta lífsins og ég nýt lífsins með Öldu. Hún er yndisleg og það er það sem er svo sérstakt við þetta: hún gefur mér mikla meira heldur en ég gef henni.“
„Lífið er miskunnarlaust og það er enginn þess umkominn að segja þér hvernig þú átt að fara í gegnum sorgina.Ég held að þú sért hrædd við að sleppa takinu á sorginni því þá finnist þér að drengurinn þinn fari lengra frá þér, elskan. Sálin er svo flókið fyrirbæri, ekkert er dýpra en móðurástin,“ ritar Kolfinna í umræddum pistli og beinir orðum sínum til umræddrar konu sem missti son sinn.
„Það að eignast fatlað barn er mikil sorg og enn meiri sorg að upplifa enn alvarlegri veikindi barnsins síns. Að vita að hún getur ekki notið lífsins eins og aðrar ungar konur, eins og systur hennar gera, er stöðugt sorgarferli. Lífið er oft erfitt, elsku vinkona, og aldrei var okkur lofað að það yrði dans á rósum,“ bætir hún við.
Hún segir lífið ekki alltaf sanngjarnt: „Þó að mér líði þannig núna þá þýðir það ekki uppgjöf, síður en svo. Það er ekki í boði. Lífið er ekkert alltaf mjög sanngjarnt, það finnst mér ekki,“ segir Kolfinna jafnframt en pistil hennar má lesa í heild sinni hér