Hefur barist ofsakvíða á meðan bróðir hefur orðið fyrir grófu einelti – Lögðu saman krafta sína og kepptu í söngvakeppni með frumsamið lag
„Ég horfði upp á krakkana bæði lemja og brjóta hann niður á allan mögulegan hátt en ég gat ekkert gert vegna þess að engin í skólanum hlustaði á mig,“ segir Sjana Rut Jóhannsdóttir 17 ára en hún og bróðir hennar hafa gengið í gegnum talsverða erfiðleika undanfarin ár.
Hefur Sjana Rut þjáðst af ofsakvíða frá 9 ára aldri og þá hefur bróðir hennar einnig glímt við þunglyndi og verið fórnarlamb hrottalegs eineltis. Þau systkinin hafa þó komið sterk út úr baráttunni en í fyrra lögðu þau saman krafta sína og tóku þátt í undankeppni Tækniskólans fyrir Söngkeppni Framhaldsskólanna og fluttu þar sitt eigið lag.
Þetta kemur fram í grein Bleikt „Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri með kvíða, ég hélt alltaf að það væri eitthvað að mér. Ég skildi aldrei afhverju ég ‘miklaði’ alltaf hlutina fyrir mér og átti erfitt með að tjá mig við aðra og sagði þá aldrei neinum frá því,“ segir Sjana Rut en hún hefur nú horft í augu við kvíðann og tekst á við hann af fullum krafti. Hún segir bróður sinn hafa verið lagðan í hrottalegt einelti öll sín grunnskólaár.
„Honum var ekki bara strítt heldur var hann beittur alvarlegu andlegu og líkamlegu ofbeldi. Ég horfði upp á krakkana bæði lemja og brjóta hann niður á allan mögulegan hátt en ég gat ekkert gert vegna þess að enginn í skólanum hlustaði á mig. Það voru ekki bara nemendur skólans sem tóku þátt í eineltinu á honum heldur líka kennarar,“ segir Sjana Rut en þau systkinin skiptu síðar bæði um skóla og fóru í Tjarnarskóla. Reyndist það mikið gæfuspor fyrir þau bæði og segir Sjana Rut að þar hafi hún loksins fengið að blómstra.
Það var síðan á seinasta árið að þau systkini stigu á svið í undankeppni fyrir Söngkeppni Framhaldsskólanna og fluttu þar lag sitt „Bláið“ Að sögn Sjönu Rutar fjallar lagið um andleg veikindi þeirra beggja og að „þora að koma fram og spila og syngja og tjá tilfinningar og líðan okkar.“
Sjana Rut segir að tilgangurinn hafi verið að byggja sjálfa sig upp og jafnframt hvetja bróður sinn áfram. Það tókst svo sannarlega. „Ég vildi bæði hvetja bróður minn og sýna honum fram á það ef að ég, „kvíðasjúklingurinn“, gæti þetta, þá gæti hann það!“ segir hún en hér má lesa viðtalið á Bleikt í heild sinni.