Einar Áskelsson í einlægu helgarviðtali um króníska áfallastreituröskun, kulnun, og batann
Einar Áskelsson þjáist af krónískri áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder) og kulnun (burnout). Það sést ekki utan á honum, frekar en mörgum öðrum sem stríða við geðraskanir. Hann er snyrtilegur og hress og kemur vel fyrir sig orði. Ragnheiður Eiríksdóttir blaðamaður hitti Einar í einlægu spjalli um missi lífsgæða sem flestir telja sjálfsögð, ofsakvíða og ótta, og afleiðingar áfalla í æsku.
Svona lýsir Einar líðan sinni daginn sem honum varð ljóst að ofan í allt annað hafði hann misst vinnuna: „Höfuðverkurinn var byrjaður fyrir fundinn á vinnustaðnum en eftir á færðist hann í aukana og mér fór að líða eins og höfuðið væri að klofna. Mig svimaði þegar ég gekk út af fundinum. Á leiðinni heim kom ógleðin. Ég kom við á bensínstöð og reyndi að kasta upp – ekkert kom. Ég bjóst við að ná heim, en þurfti að stoppa bílinn rétt við Smáralind og kastaði upp. Næsta sólarhringinn lá ég í keng, maginn herptist saman og líkaminn allur, ég man varla eftir mér.“
Þarna náði ofsakvíðinn og óttinn hámarki, Einar var kominn í þrot og hann missti alla von. Hann var búinn að úthugsa og undirbúa hvernig hann myndi kveðja. Hann hlakkaði meira að segja til. Í dag er Einar dauðfeginn að hafa lifað þetta af. Hann er í bata og það er full vinna. Hann upplifir sig í meira jafnvægi en nokkru sinni áður. „Ég hef aldrei verið eins auðmjúkur, þakklátur og rólegur og í dag.“