fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Ofsakvíði, ótti og áfallastreita

„Að þola mikið og vera harður er alls ekki jákvætt“ – „Hef aldrei verið eins auðmjúkur, þakklátur og rólegur og í dag“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 1. apríl 2016 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Áskelsson þjáist af krónískri áfallastreituröskun (Complex Post Traumatic Stress Disorder) og kulnun (burnout). Það sést ekki utan á honum, frekar en mörgum öðrum sem stríða við geðraskanir. Hann er snyrtilegur og hress og kemur vel fyrir sig orði. Ragnheiður Eiríksdóttir blaðamaður hitti Einar í einlægu spjalli um missi lífsgæða sem flestir telja sjálfsögð, ofsakvíða og ótta, og afleiðingar áfalla í æsku.

Í ágúst í fyrra upplifði Einar versta tíma lífs síns. Hann fór að meðatali í gegnum 2–4 ofsakvíðaköst á dag. Eitt kast gat staðið yfir upp í þrjá klukkutíma. „Það sem gerist í þessum köstum er að undirmeðvitundin lætur mig endurupplifa sársauka áfalla úr barnæsku,“ segir Einar.

Hámark ofsakvíða og ótta

Svona lýsir Einar líðan sinni daginn sem honum varð ljóst að ofan í allt annað hafði hann misst vinnuna: „Höfuðverkurinn var byrjaður fyrir fundinn á vinnustaðnum en eftir á færðist hann í aukana og mér fór að líða eins og höfuðið væri að klofna. Mig svimaði þegar ég gekk út af fundinum. Á leiðinni heim kom ógleðin. Ég kom við á bensínstöð og reyndi að kasta upp – ekkert kom. Ég bjóst við að ná heim, en þurfti að stoppa bílinn rétt við Smáralind og kastaði upp. Næsta sólarhringinn lá ég í keng, maginn herptist saman og líkaminn allur, ég man varla eftir mér.“

Næsta sólarhringinn lá ég í keng, maginn herptist saman og líkaminn allur, ég man varla eftir mér.

Þarna náði ofsakvíðinn og óttinn hámarki, Einar var kominn í þrot og hann missti alla von. Hann var búinn að úthugsa og undirbúa hvernig hann myndi kveðja. Hann hlakkaði meira að segja til. Í dag er Einar dauðfeginn að hafa lifað þetta af. Hann er í bata og það er full vinna. Hann upplifir sig í meira jafnvægi en nokkru sinni áður. „Ég hef aldrei verið eins auðmjúkur, þakklátur og rólegur og í dag.“

Sómaheimili með myrkar hliðar

Einar ólst upp á Húsavík og Akureyri á fínu heimili. Allt var slétt og fellt utan frá séð, en Einari leið illa og sú vanlíðan tengdist drykkju náins ættingja á heimilinu. „Allt var svo fullkomið utan frá og enginn áttaði sig á að neitt væri að. Frá 8 eða 9 ára aldri var ég kominn í það hlutverk að sjá um alkóhólistann á heimilinu. Ég var vakinn og sofinn með áhyggjur og tók hlutverkið mjög alvarlega, jafnvel þó að enginn hafi beðið mig um það eða sett mér það fyrir. Ég er alltaf einn í minningunni, hræddur og kvíðinn.“

Á þessum árum var alkóhólismi ekki í umræðunni. „Ég þekkti engan sem bjó við svona aðstæður og fannst ég mjög einangraður.“ Þegar Einar nálgaðist unglingsárin breyttust kvíðinn og óttinn í reiði. „Ég sneri baki við alkóhólistanum, sem ég hafði séð um frá unga aldri, og varð í staðinn reiður. Á mínum neysluárum skiptum við um hlutverk.“

Ég man líka eftir barsmíðum og stöðugum hótunum um að hann myndi drepa mig ef ég segði frá. Í einu minningarbroti ligg ég í keng og hann er að sparka í mig.

En það var fleira en drykkja sem olli vanlíðan Einars á uppvaxtarárunum. Innan veggja þess sem utan frá leit út fyrir að vera hið mesta sómaheimili varð hann fyrir alvarlegu ofbeldi af hálfu annars ættingja. „Það eru miklar gloppur í minninu frá þessum árum, en ég man svo vel óttann og stanslausan kvíðann sem tengdist honum. Ég man líka eftir barsmíðum og stöðugum hótunum um að hann myndi drepa mig ef ég segði frá. Í einu minningarbroti ligg ég í keng og hann er að sparka í mig.“

Skömmin

Ég átti besta vin á þessum árum og man mjög sterkt eftir því þegar ég bauð honum heim til mín eftir skóla og viðkomandi sat í sófa með hníf í hendi. Ég stirðnaði upp, bað vin minn að fara og lokaði mig inni þar til foreldrar mínir komu heim. Þetta var mikil niðurlæging, ég skammaðist mín óendanlega fyrir að besti vinur minn skyldi fá að sjá þetta. Ég var á þessum tíma á kafi í íþróttum, sem björguðu mér eiginlega, og vildi alls ekki blanda þessum heimum saman. Mínar grunntilfinningar alla barnæskuna voru hræðsla, kvíði, meðvirkni og gríðarlegur ótti við höfnun. Ég hélt lengi vel að svona ætti manni að líða og vissi ekki hvernig ég ætti að vera öðruvísi. Þetta er það sem liggur að baki veikindunum sem ég hef átt við að stríða síðan 2013.“

Hann segist aldrei hafa verið þakklátari og einbeitir sér að batanum þessa dagana.
Þakklátur Hann segist aldrei hafa verið þakklátari og einbeitir sér að batanum þessa dagana.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þrátt fyrir þessar aðstæður segir Einar að æskan hafi líka átt sína góðu kafla og foreldrar hans hafi gert sitt besta til að ala hann vel upp. „Það var þó lítið eða ekkert rætt um tilfinningar. Ég vil taka fram að ég og alkóhólistinn minn urðum sátt og bestu vinir eftir að það rann af mér. Það skipti okkur bæði miklu máli. Fyrirgefningin er besta meðalið fyrir sálina. Pabbi var af gamla skólanum. Þótt hann nefndi það ekki tók hann minn alkóhólisma mjög nærri sér. Þetta ræddum við síðar. Það varð mér og honum ómetanlegt. Ég er mjög þakklátur að hafa getað kvatt foreldra mína sáttur í hjarta.“

Áfengi og andleg vakning

Einar lýsir fyrstu kynnum sínum af áfengi sem sinni fyrstu andlegu vakningu. „Ég var 14 ára og man þetta eins og gerst hefði í gær. Við vorum nokkrir félagar úr fótboltanum sem höfðum orðið okkur úti um flösku af íslensku brennivíni. Ég píndi það ofan í mig, blandað í kók, bragðbætt með tópasi. Ég gleymi áhrifunum og sælunni aldrei, því þarna fann ég kannski í fyrsta sinn að mér gat í raun liðið vel. Ég held að ég hafi verið fyrirfram dæmdur til að verða fíkill. Bæði koma til erfðaþættir og svo afleiðingar áfalla í æsku. Sú hugsun var þó fjarri mér þarna því ég fyrirleit alkóhólista og ætlaði svo sannarlega ekki að verða einn þeirra. Alkóhólistar voru göturónar, þannig var tíðarandinn.“

Ég var vakinn og sofinn með áhyggjur og tók hlutverkið mjög alvarlega, jafnvel þó að enginn hafi beðið mig um það eða sett mér það fyrir. Ég er alltaf einn í minningunni, hræddur og kvíðinn.

Á sama tíma og Einar byrjaði að þróa fíkn sína þótti hann mjög efnilegur í fótbolta. „Mig dreymdi um atvinnumennsku og stefndi þangað. Þessir draumar dugðu þó ekki til að spyrna á móti fíkninni.“ Sumarið sem hann varð 17 ára náði ferillinn hápunkti þegar hann spilaði með úrvalsdeildarliði frægan leik á móti Manchester United á Akureyri. „Þarna var ég kominn í unglingalandsliðið og í þessum leik spilaði George Best með okkur, og hetjan mín, Arnór Guðjohnsen. En þessu klúðraði ég með hjálp áfengisins og annarra vímuefna.“

Einar segir að alkóhólisminn hafi þróast hjá honum með ógnarhraða. „Ég óð áfram í stjórnlausri neyslu til 25 ára aldurs. Ég virkaði ekki í lífinu ódeyfður og á milli þess sem ég var í vímu var ég þunglyndur, „paranojd“ og félagslega einangraður. Ég klúðraði öllu og iðrast margs.“

Einar skammaðist sín fyrir alkóhólismann, það stóð honum fyrir þrifum. Hann telur sig þó heppinn að hafa lifað af, og óttinn við að deyja var drifkrafturinn sem varð til þess að hann kom sér á réttan kjöl í þeim efnum. „Ég hafði samt útilokað að ég myndi nokkurn tíma eignast eðlilegt líf. Svo vonlaus var ég.“ Eftir nokkrar áfengismeðferðir á fjögurra ára tímabili tókst Einari að hætta neyslu áfengis. Hann hefur verið edrú síðan.

Draumur um eðlilegt líf rættist

„Ég játaði mig sigraðan, fékk hjálp og fór eftir ráðleggingum. Ég kunni hvorki á samskipti né að skilgreina tilfinningar. Vissi ekki hvernig mér leið. Þurfti að læra allt frá grunni. Hafði byggt upp svo þykka varnargrímu með hroka. Hægt og rólega byrjaði ég að byggja mig og líf mitt upp og það kom að því að ég fór að lifa eðlilegu lífi. Fór í háskóla og kláraði erfitt nám með glans og fann að ég styrktist við hvert verkefni sem ég tók mér fyrir hendur.“ Einar eignaðist konu, börn, heimili og gekk vel í vinnu við sitt fag.

„Þetta var eins og draumur, því ég var lengi vel viss um að ég mundi aldrei öðlast þessar gjafir.“

Einar man ekki eftir að áföllin í æsku og erfiðar minningar hafi haft nokkur áhrif á hann á tímabilinu frá því hann varð edrú 1993 og þar til sumarið 2013. „Ég var virkur í 12 spora starfi og á þessum tíma náði ég bata með hjálp reynslusporanna og vann til dæmis töluvert í minni meðvirkni. Barnæskan var í þoku, ég gat ekki rifjað mikið upp og afskrifaði þetta sem búið og gert. Lífið gekk ágætan vanagang, skrölti áfram þrátt fyrir skin og skúrir. Ég var upptekinn af vinnunni og að vera til staðar fyrir fjölskylduna – svona eins og flest annað fólk.“

Alkóhólisti getur verið veikur án drykkju

Árið 2011 ákváðu þau hjónin að skilja. „Árin á undan hafði ég ekki sinnt sjálfsrækt sem skyldi. Ég vann hjá alþjóðlegum fyrirtækjum og var um töluvert skeið á ferð og flugi um allan heim. Stoppaði ekki. Þegar heim kom þá var ég farinn út með hundinn upp á næsta fjall. Var algjörlega stjórnlaus án áfengis og vímugjafa. Til dæmis hafði ég ekki mætt lengi á fundi 12 spora samtaka. Núna veit ég að alkóhólisti þarf ekki að drekka til að vera veikur, og að þetta hafði sitt að segja.“

Eftir skilnaðinn kom Einar sér upp nýju heimili og tók að sinna sjálfum sér betur. „Ég vandaði mig mikið og byrjaði þarna að fara til sálfræðings. Síðar átti eftir að koma sér vel að hafa þau tengsl. Alltaf leiðinlegt að það þurfi áföll eða erfiðleika til að maður nái áttum og geri eitthvað í sínum málum.“

Nýtt samband og sæluvíma

Haustið 2012 kynntist hann konu og heillaðist upp úr skónum á ógnarhraða. „Eftir fyrsta stefnumót leið ég um í sæluvímu, og þremur mánuðum síðar vorum við búin að kaupa okkur fasteign saman. Það er auðvitað flókið að blanda saman tveimur stórum fjölskyldum, en við vorum viss um að þetta myndi allt ganga vel. Þetta var nýtt líf og nýr draumur. Mér fannst ég eiga þetta skilið og það voru bjartir tímar fram undan.“

Þannig leið Einari fram á sumarið 2013 en þá fóru kvíðaköst að gera vart við sig. „Hræðslan og óttinn heltóku mig og ég áttaði mig á að fortíðin væri greinilega að banka upp á. Köstin voru verst þegar ég var að festa svefn, eða að ég hrökk upp úr svefni. Það var augljóst að ég þurfti að bregðast við og gera eitthvað. Ég hefði átt að leita mér aðstoðar hjá fagaðila – en ég brá á það ráð að skrifa um reynslu mína og tilfinningar. Þarna fór ég niður í minn dýpsta kjarna, og skrifaði um atburði sem enginn vissi af, um leið áttaði ég mig á hvað ég mundi í raun lítið eftir ofbeldinu og æskunni. Ég ákvað að leyfa sambýliskonu minni að lesa þetta til að opna mig og tengjast henni sterkari böndum. Ég vildi svo innilega að samband okkar yrði farsælt. Í sumarbústaðarferð í ágúst fór ég einn út í myrkrið og brenndi bréfin – þetta var táknrænt fyrir mig og þannig ætlaði ég að ljúka þessum málum.“ Því miður reyndist ekki svo einfalt fyrir Einar að vinna úr áföllum fortíðarinnar. „Þetta var rétt að byrja.“

Allt fer á hvolf

Sjúkdómurinn tók að herja á Einar, en hann er lúmskur og lævís, eins og hann orðar það sjálfur.

„Köstin hættu dálítinn tíma og það blekkti mig. Ég er líka með meistaragráðu í afneitun, sem heilinn minn setti strax í gang. Fannst ekkert að mér – hélt það og ákvað. Svo fóru kvíða og panikkköst að koma í skömmtum, og tengdust andlegu álagi á hverjum tíma. Gamla meðvirknin og höfnunaróttinn fóru líka í gang hægt og bítandi. Ég var alls ekki með á nótunum.“

Hluti af bata Einars felst í daglegri hugleiðslu við hafið.
Þakklátur við hafið Hluti af bata Einars felst í daglegri hugleiðslu við hafið.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Veikindi í baki, myglusveppur í húsi og fjárhagserfiðleikar í kjölfarið settu líka strik í reikninginn. „Ég get líklega nefnt tímapunkt þegar ég missti stjórnina, það var seint á árinu 2013 þegar ég ákvað að leyna ofsakvíðakasti fyrir sambýliskonu minni. Þarna var sjúkdómurinn farinn að taka yfir dómgreind, gjörðir mína og hegðun. Allt þetta bættist ofan á meðvirknina og höfnunaróttann. Ennþá var ég samt í afneitun og reyndi að gera mitt besta á hverjum degi. Það er auðveldara að sjá þetta eftir á. Ég tiplaði á tánum í kringum sambýliskonu mína og fannst ég stöðugt þurfa að passa upp á að valda henni ekki vonbrigðum. Mig langaði ekki að líða svona, og það var ekki henni að kenna. Frá haustinu 2013 og fram á vor 2015 fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis.“

Það sem gerði útslagið tengdist fjármálum Einars. „Ég hljóma kannski eins og rispuð plata, en afneitunin, meðvirknin og höfnunaróttinn voru þarna komin á það stig að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að impra á því við konuna að ég væri í vanda með afborganir.“ Þegar sambýliskona Einars komst að sannleikanum endaði hún sambandið með hvelli. „Hún kom heim, barði í borðið og sleit trúlofun okkar. Nánast daginn eftir var hún búin að setja húsið okkar á sölu. Þetta var súrrealísk upplifun, hvað þetta gat gerst hratt. Ég var orðið eitt flak og steinþagði með samviskubit og skömm.“

Martröðin 2015

Tímabilinu frá mars til ágúst í fyrra lýsir Einar sem algjörri martröð. „Fram að þessu hafði ég virkað sæmilega á flestum vígstöðvum í lífinu. Sem er mér óskiljanlegt, því núna sé ég hversu veikur ég var orðinn. Ég er alls ekki að hæla mér fyrir þetta, þvert á móti. Að þola mikið og vera harður er alls ekki jákvætt í þessum aðstæðum.“

Eftir sambúðarslitin versnaði ástand Einars hratt. Ofsakvíðinn og óttaköstin urðu tíðari. Bakmeiðslin tóku sig upp, hann var þjáður af verkjum, vonleysi og sorg. „Það var líkt og lögmál Murphys færi í gang. Hvert nýtt áfallið eða mótlætið tók við af öðru þetta tímabil sem brutu mig enn meira niður. Mér fannst komin álög á mér. Samt þjösnaðist ég áfram í villu og svíma allt sumarið. Vissi ekki hvað eða hvort eitthvað væri að mér. Var um leið auðvelt skotmark því eftir kulnunina var varnarkerfi líkamans hrunið.“

Í lok ágúst 2015 hafði Einar misst vinnuna, sambýliskonan hafði slitið sambúð og trúlofun, hann var húsnæðislaus, bíllaus og peningalaus. „Ég var fárveikur og sjálfsvirðingin var horfin. Ég var vonleysið uppmálað. Áður en einkenni veikindana hófust var ég búinn að vinna vel í mér andlega og líkamlega. Í toppformi. Fjármálin mín voru stöðug, ég stóð vel í skilum, með eigin íbúð og bíl, tók glaður á móti börnunum og gat veitt þeim ást, öryggi og skjól. Leið vel og sjálfsvirðing og traust í meðallagi gott. Lífið gat varla verið mikið betra. Ég velti oft fyrir mér hvað í andskotanum gerðist?“

Dagurinn sem Einar ætlaði að deyja

Daginn örlagaríka í ágúst, þegar Einar ákvað að kveðja, var hann staddur í lánsíbúð á Völlunum í Hafnarfirði. „Ég hafði misst leiguherbergi með nánast engum fyrirvara og var svo ljónheppinn að gömul skólasystir mín lánaði mér þessa íbúð. Í nokkra daga á undan hafði ég alveg lokað á umheiminn, og það er svo undarlegt að ég fann einhvers konar nautn í þessari miklu vanlíðan.“

Ofsakvíða- og óttaköstin voru svo tíð að ég treysti mér ekki lengur á meðal fólks af ótta við að ég fengi kast í margmenni. Ég hafði ekki einu sinni farið á Facebook í rúmlega viku og svaraði engum skilaboðum, sem var mjög ólíkt mér. Af einhverri rælni ákvað ég að skoða skilaboð sem bárust mér á símanum, þau voru frá vinkonu minni sem átti íbúðina. Þessi skilaboð, og að ég skyldi ákveða að skoða þau, björguðu lífi mínu. Ég mun aldrei geta útskýrt þetta, en eitthvað eða einhver greip óvænt inn í atburðarásina. Í skilaboðunum talaði vinkona mín tæpitungulaust, hún hafði greinilega fengið einhvers konar hugboð. Ég brotnaði saman við lesturinn en náði einhvers konar áttum. Hafði vit á að senda sálfræðingnum mínum sms og bað um tíma. Hann sá strax að ástandið var alvarlegt og ég fékk strax tíma.“

Fótbrotinn á báðum

Einar fór til sálfræðingsins næsta dag. „Ég var hjá honum í tvo klukkutíma, titrandi og óðamála. Hann var fljótur að greina stöðuna sem ég var kominn í. Hann sagði mér að ímynda mér að ég væri fótbrotinn á báðum fótum, nú þyrfti ég algjöra ró til að geta hafið batann. Hann sagði líklegt að ástand mitt væri krónískt og það kom honum á óvart að ég hefði þraukað þetta lengi. Það mátti eiginlega ekki tæpara standa að fá hjálp. Mér varð aðeins létt, eygði þarna von um að það væri hægt að endurheimta heilsuna að einhverju leyti. Loksins fékk ég skýringu á því sem hafði verið að hrjá mig, af hverju ég var eins og ég var. Þetta var ekki aumingjaskapur heldur krónísk áfallastreituröskun, kulnun, meðvirkni og höfnunarótti. Allt afleiðingar barnæskunnar.“

Eftir fyrsta tímann spurði Einar sálfræðinginn „hvað gerði ég af mér?“ „Ekkert“ svaraði hann. „Hvað í andskotanum gerðist þá? Er ég svona mikill skíthæll?“ hélt Einar áfram. „Ég hafði því miður fengið of oft að heyra að ég væri óheiðarlegur, lyginn og ýmislegt fleira.“ Sálfræðingurinn svaraði: „Þú veiktist og ert fárveikur.“ Einar spurði hver myndi eiginlega trúa því, þar sem það sæist ekkert á honum. „Aukaatriði“ sagði sálfræðingurinn, „þú ert lífshættulega veikur og verður að sætta þig við það, ef ég á að geta hjálpað þér.“

Batinn byrjar

Í samvinnu við sálfræðinginn setti Einar upp bataplan sem hófst í september í fyrra. Síðan þá hefur ofsakvíða- og óttaköstum farið fækkandi jafnt og þétt. Hann fékk síðast kast í október.

Frá því þá hefur Einar eingöngu einbeitt sér að batanum. Varnar- og orkukerfi líkamans var hrunið og hann þoldi ekkert álag né streitu. „Fyrstu tvo mánuðina átti ég ekkert að gera nema að ná ró. Forðast alla spennu og samskipti við fólk sem gæti valdið mér spennu. Þetta varð mér meiri háttar erfitt enda er ég kraftmikill, ör og drífandi að eðlisfari. Ég ætlaði fyrst að taka einn dag í einu, eins og kennt er í 12 spora kerfinu, en sá fljótlega að það hentaði mér betur að skipta deginum í þrennt, morgun, eftirmiðdegi og kvöld. Daglega fer ég í gönguferðir og hugleiði, og hvern dag byrja ég á að spila á gítar. Ég er líka duglegur að skrifa og hef birt nokkra pistla um reynslu mína. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að vera opinn um mín veikindi.

Við að opna mig fékk ég ómældan stuðning frá vinum og vandamönnum sem ég hafði ekki heyrt í í mörg ár. Guð blessi þetta fólk. Æskuvinur minn hringdi sérstaklega í mig og hann nefndi setningu sem ég gleymi aldrei. „Það vill svo til, Einar, að þú hefur sáð góðum fræjum hér og þar í gegnum tíðina og núna ertu að uppskera í formi stuðnings.

Ég skrifa bæði texta og ljóð og er virkur á stuðningssíðum á Facebook, eins og Geðsjúk og #égerekkitabú. Þar var ég skyndilega kominn inn í heim fólks með ýmiss konar geðræn vandamál. Þakklátara og elskulegra fólki hef ég ekki kynnst fyrr. Ég er mjög þakklátur fyrir jákvæð viðbrögð sem skrifin mín hafa fengið. Þau hafa mjög góð áhrif á sjálfsmynd mína og gefa mér mikið. Ef mín reynsla getur hjálpað öðrum er ég mjög sáttur. Það var samt átak að stíga inn í óttann og opna mig á þennan hátt. En ég er hægt og rólega að byggja ofan á grunninn. Bataferlið er langhlaup og krefst mikillar þolinmæði. Ástæðan fyrir að mér hefur gengið ágætlega er að ég hef farið algjörlega eftir leiðsögn.“

Næstu skref

Einari finnst vanta íslenskar reynslusögur og ætlar að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að opna umræðuna. „Ég skil vel að fólk sé hikandi við að opna sig, enda eru þetta viðkvæm mál. Ég ætla að nota tímann fram á sumarið til að rita mína lífsreynslusögu og kafa dýpra. Mér finnst mikilvægt að koma þessu frá mér til þess að geta sett endanlegan punkt aftan við fortíðina.“

Einar vonast líka til að með vorinu verði starfsorkan komin í lag, svo að hann geti tekist á við fleiri verkefni. „Ég hef aldrei gefist upp þó að ég bogni illa. Ég lít alls ekki svo á að leikurinn sé búinn, seinni hálfleikur lífsins er eftir, en áður en hann hefst mun ég leikgreina fyrri hálfleik.

Það er ekki tabú að biðja um hjálp. Það er ekki merki um veikleika heldur styrkleika manneskjunnar.

Ég hef aldrei verið eins þakklátur í lífinu og nú. Ég er ekki bitur eða reiður. Ég hef í 6 mánuði unnið markvisst í að fyrirgefa öðrum en ekki síst sjálfum mér. Ég lít á að ég eigi bara einn möguleika. Að nýta þessa reynslu til að verða betri manneskja. Löngunin til að verða betri manneskja er svo mikil, það er sársaukans virði. Þegar maður er búinn að missa allt og nærri sjálfan sig fyllist maður auðmýkt og gildismatið verður annað í kjölfarið. Þess vegna þakka ég fyrir á hverjum morgni og kvöldi. Það er ekki sjálfsagt að vera til og geta þó gert það sem ég get gert í dag.“

Að lokum spyr ég Einar hvort hann eigi einhver ráð handa þeim sem ef til vill finna sig í frásögn hans. Það stendur ekki á svarinu: „Gefast upp og hafa auðmýkt til að biðja um hjálp. Það er ekki tabú að biðja um hjálp. Það er ekki merki um veikleika heldur styrkleika manneskjunnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir