Ragna Fossberg veit ekki hver faðir hennar er og hefur aldrei haft löngun til að komast að því – Fossberg-nafnið deyr út með henni – Hvarflaði aldrei að henni að hún fengi heiðursverðlaun
Ragna Fossberg hefur verið förðunarmeistari hjá Sjónvarpinu í næstum hálfa öld og fékk heiðursverðlaun Eddunnar fyrir ævistarf sitt nú fyrir skömmu. Þrátt fyrir að vera nýorðin 67 ára er hún hvergi nærri hætt að vinna enda er hún enn að læra nýja hluti í starfi og hefur ánægju af því sem hún gerir. Ragna fer í skíða- og hestaferðir og vílar ekki fyrir sér að sinna viðhaldi einbýlishússins sem hún býr í. Hún á það til að fara fram úr sjálfri sér og fyrir nokkrum árum gekk hún mjaðmakúlubrotin um San Francisco í tvo daga áður en hún fór til læknis. Hún er alin upp af ömmu sinni sem ættleiddi hana, en föður sinn þekkti hún aldrei.
Blaðamaður settist niður með konunni með rauða varalitinn sem hefur farðað flesta leikara og sjónvarpsmenn landsins og gert marga óþekkjanlega með ótrúlegum hæfileikum sínum. Hér beinist sviðsljósið hins vegar að henni.
Ragna tekur á móti blaðamanni á heimili sínu á sunnudagsmorgni. Hún er ein af frumbyggjunum í Hólahverfinu í Breiðholti, og hefur Elliðaárdalinn í bakgarðinum. Ragna hefur búið í þessu sama húsi frá því hún var 28 ára, fyrir utan árið sem hún var í Los Angeles, og er ekki á leiðinni neitt annað. Heimilið er bjart og stílhreint. Hver hlutur á sínum stað. Eitt það fyrsta sem blaðamaður kemur auga er Edduverðlaunastytta. Þetta er sú nýjasta – heiðursverðlaunin – sem Ragna fékk afhent á síðustu hátíð. Fyrir átti hún fimm aðrar verðlaunastyttur og er vel að þeim öllum komin.
Þeir sem hafa orðið á vegi Rögnu í gegnum tíðina hafa eflaust tekið eftir því að hún er alltaf með rauðan varalit. Og að sjálfsögðu er hann á sínum stað þennan sunnudagsmorgun. Hún hlær þegar blaðamaður spyr hvort hún hafi meðvitað ákveðið að gera hann að einkennismerki sínu. „Ég er búin að vera með þennan lit í um tuttugu ár, án þess að muna af hverju ég byrjaði á því. En ég fer ekki út í garð eða búð án þess að hafa varalit. Ég er líka með hann á skíðum og hestbaki. Alltaf með einn í vasanum. Ef ég er ekki með varalit þá er ég bara litlaus.“
Vinkona Rögnu sem var flugfreyja var dugleg að færa henni nýjustu litina frá útlöndum og það var hún sem gaf henni fyrsta eintakið af rauða litnum. „Einu sinni kom hún með þennan lit, Revlon Red, en það merki var fáanlegt hér á landi á þeim tíma og það endaði með því að ég keypti upp allan lagerinn. Síðan var hætt að flytja inn merkið þannig að vinkona mín hélt áfram að kaupa varalit handa mér. Svo hættu þeir að framleiða Red og í staðinn kom Ice and Fire sem er bókstaflega alveg eins. Þannig að það slapp. Og ég á alltaf tíu eða tólf stykki af honum í einu. Það hvarflar ekki að mér að breyta litnum. Einu áhyggjurnar sem ég hef er hvernig ég muni fara að því að vera með þennan rauða varalit þegar ég verð áttræð,“ segir Ragna og skellir upp úr. Aðspurð segist Ragna hafa prófað aðra liti eftir að hún kynntist þessum eina sanna, en enginn hefur náð rétta blænum. Þessi fer henni best. „Maður þarf ekki alltaf að vera að finna upp hjólið,“ segir hún og við fáum okkur sæti í eldrauðu sófasetti – sem tónar vel við varalitinn – í einni stofu hússins. Og byrjum á byrjuninni.
„Ég fékk uppeldi mitt frá tveimur konum og þekki ekki föður minn.“
„Ég byrjaði að læra hárgreiðslu þegar ég var 18 ára, vann svo aðeins á stofu, en byrjaði hjá Sjónvarpinu árið 1972 og er búin að vera þar síðan, fyrir utan eitt ár sem ég bjó í Los Angeles. Mér bauðst að vinna við þrjár bíómyndir þar. Myndir sem Jakob Frímann Magnússon og Sigurjón Sighvatsson voru að gera. Þar fyrir utan hef ég fengið frí hjá Sjónvarpinu til að vinna í yfir þrjátíu bíómyndum,“ segir Ragna sem á því næstum fimmtíu ára feril að baki, en hún varð 67 ára í febrúar síðastliðnum. Hún fór aldrei í förðunarnám, en slíkt nám var ekki í boði hér á landi þegar hún var að stíga sín fyrstu skref í bransanum. „Mín mesta þekking og kunnátta er frá danska sjónvarpinu. Grunnur minn kemur þaðan. Ég fékk að fara þangað nokkrum sinnum, tvo til þrjá mánuði í senn. Lærði til að mynda hárkollugerð þar á tveimur mánuðum. Svo hef ég auðvitað farið á ýmis námskeið.“ Ragna segist þó hafa lært mest af því að vinna við fagið og hún er enn að læra eitthvað nýtt eftir öll þessi ár. „Ég hef alltaf sagt að á meðan ég læri eitthvað í starfi þá held ég áfram.“
Ragna er fædd og uppalin í Reykjavík, nánar tiltekið í Hlíðunum, þar sem hún bjó þar til hún stofnaði sjálf heimili í Breiðholtinu. „Nítján ára gömul var ég búin að byggja sumarbústað og 21 árs íbúð. Svo byggðum við hér árið 1977,“ segir Ragna.
Fjölskyldumynstur Rögnu er svolítið flókið, að eigin sögn. Allavega þegar kemur að því að útskýra hlutina fyrir öðrum. Sjálf þekkir hún auðvitað ekkert annað og kunni vel að meta það sem hún hafði. „Amma mín ættleiddi mig en blóðmóðir mín bjó með okkur, hún var heilsuveil. Ég fékk uppeldi mitt frá tveimur konum og þekki ekki föður minn. Ég veit ekki hver hann er. En það undarlegasta er kannski að ég hef aldrei haft einhverja löngun til að komast að því. Það hefur aldrei skipt mig neinu máli, sem fæstir kannski skilja. Ég fékk fínt uppeldi og það dugði mér,“ segir Ragna auðmjúk, en afi hennar lést þegar hún var tveggja ára og hún kynntist honum því lítið sem ekkert.
Hún man þó alveg eftir að hafa velt uppruna sínum fyrir sér þegar hún var barn og unglingur, en það var aldrei rætt heima hjá henni. Aldrei var henni sagt að konan sem hún ólst upp við að væri móðir hennar væri í raun veru amma hennar. „Ég man alltaf eftir því þegar ég þurfti að fá fæðingarvottorð fyrir ferminguna, þá hreinlega las ég það þar að ég væri ættleidd af ömmu minni. Auðvitað vissi ég þetta en það var aldrei rætt. Þetta var fyrsta staðfestingin sem ég fékk svart á hvítu á blaði. Mömmu hef ég alltaf kallað systur mína þó að hún hafi verið 28 ára þegar hún átti mig.“
Þá átti Ragna einn uppeldisbróður. Um var að ræða nokkurra mánaða dreng sem skilinn var eftir heima hjá móður hennar fyrir stríð. Sá átti breskan föður og þýska móður. „Hann er í rauninni bróðir minn þó að hann sé ekki blóðskyldur mér,“ segir hún og brosir.
Sjálf á Ragna einn son af fyrra hjónabandi, Ívar Örn Helgason, og tvö barnabörn. En núverandi maður hennar, Björn Emilsson, á tvær dætur og tvö barnabörn. Ragna og Björn hafa verið saman frá árinu 1984 en hann starfar sem upptökustjóri hjá Sjónvarpinu, þar sem leiðir þeirra lágu saman.
Þrátt fyrir að vera fædd og uppalin í Reykjavík fékk Ragna líka nasaþefinn af því að búa sveit.
„Afi minn keypti jörð sem heitir Gljúfurá og er í Borgarfirði. Aðallega út af laxveiði. En á jörðinni var bóndabær og við bjuggum þar á efri hæðinni öll sumur. Á neðri hæðinni bjó bóndi sem nýtti jörðina. Þannig að alveg fram á unglingsár þá bjó ég í Reykjavík á veturna og á Gljúfurá á sumrin. Ég fékk því að kynnast búskap á þeim tíma. Það var meðal annars slegið með orfi og ljá, kamarinn var úti á túni, það var engin sturta og við þurftum að ná í vatn í brunn. Þetta var eins og á fornöld,“ segir Ragna og skellir upp úr. „En mér finnst voðalega gott að hafa fengið að kynnast þessu.“
„Einu áhyggjurnar sem ég hef er hvernig ég muni fara að því að vera með þennan rauða varalit þegar ég verð áttræð.“
Og fyrst við erum að ræða um fjölskylduna er ekki úr vegi að spyrja hvaðan nafnið Fossberg kemur. Ragna er með svarið á reiðum hönum: „Afi minn, sem hét upphaflega Gunnlaugur Jónsson, lærði vélstjórn úti í Kaupmannahöfn þar sem þótti ekki mjög fínt að vera Jónsson, þannig að hann keypti nafnið Fossberg. Kjörmóðir mín varð þá Jóhanna Fossberg og blóðmóðir mín Helga Fossberg. Ég var skírð í höfuðið á blóðmóðursystir minni sem dó árið 1952 í fellibyl úti á Jamaíku, ásamt breskum eiginmanni og dóttur. Þau voru eina hvíta fólkið sem dó í þessum mikla fellibyl. Ég fæddist að vísu áður en hún dó en ég er alnafna hennar.“ Afi Rögnu stofnaði svo vélaverslun sem fékk nafnið G.J. Fossberg, en heitir Fossberg í dag, en fjölskyldan seldi fyrirtækið fyrir nokkrum árum. „Fossberg-nafnið mun því deyja út með mér, því miður. Sem er hálfgerð synd.“
Þrátt fyrir að Ragna hafi ung byrjað í hárgreiðslunni hafði hana aldrei dreymt um að verða hárgreiðslukona. Það var ekki ástæðan fyrir því að hún fór í námið. Það var eiginlega tilviljun sem réð því að hún fór í þetta nám frekar en eitthvert annað nám. „Ég var send í Húsmæðraskólann í Reykjavík þegar ég var búin með gagnfræðaprófið, en ég segi alltaf að ástæðan fyrir því hafi verið sú að ég kunni ekki að sjóða kartöflur. Ég þyki samt ágætur kokkur í dag,“ skýtur hún inn í sposk á svip. „Eftir að hafa verið lokuð inni á heimavist þar í níu mánuði byrjaði ég í hárgreiðslunni, á stofu hjá vinkonu minni, Rut Ragnarsdóttur. En ástæðan fyrir því að ég valdi hárgreiðsluna var kannski sú að mig langaði ekki í háskólanám. Það var líka svo lítið í boði. Ég kaus frekar iðnmenntun og það var algjör tilviljun að það var hárgreiðslan. Kannski af því vinkona mín var með stofu, það var auðvelt að komast á samning og þetta gekk allt fljótt fyrir sig,“ útskýrir hún.
„Eftir nám fór ég til Kaupmannahafnar að vinna á hárgreiðslustofu. Á meðan ég var úti var svo hringt í mig frá Sjónvarpinu og mér boðin vinna. Þeir þekktu mig því ég hafði verið að vinna í ýmsum verkefnum. En ég sé ekki eftir því að hafa farið þessa leið,“ segir hún. Það hvarflaði hins vegar aldrei að henni á þessum tíma að þetta yrði ævistarfið hennar. „Það hvarflaði heldur aldrei að mér að ég ætti eftir að starfa við bíómyndir, enda var varla verið að framleiða bíómyndir hér á landi.“
Ragna segir að þegar hún hugsi til baka þá sé hálf öld ekki svo langur tími. En hún hefur engu að síður upplifað mjög miklar breytingar á landslaginu í starfi sínu, bæði í sjónvarpi og í kvikmyndagerð. Sjónvarpið var til að mynda enn í svarthvítu þegar hún hóf störf. Nú er farið að senda út efni í háskerpu. Það hefur ansi mikið vatn runnið til sjávar.
Á ferlinum hefur Ragna farðað fjölda erlendra leikara og nokkur stór nöfn eru í þeim hópi. Aðspurð segir hún stærstu verkefnin hingað til líklega hafa verið í kvikmyndunum Noah og No such thing en báðar voru þær að hluta til teknar upp hér á landi. „Helen Mirren og Julie Christie voru í þeirri síðarnefndu. Það var mjög gaman fyrir mig að fá að umgangast Helen Mirren, en hún er líklega stærsta stjarnan sem ég hef farðað. Við byrjuðum tökur á myndinni með Helen hérna heima en vorum svo tvær sem fórum frá Íslandi í þetta verkefni, ég og Helga Stefánsdóttir búningahönnuður. Það þurfti að fá sérstakt leyfi fyrir okkur því vorum ekki í amerísku stéttarfélagi en út á það fékk ég tveggja ára vegabréfsáritun.“
Ragna segir það bæði vera mjög spennandi og stressandi að starfa við stórar Hollywood-myndir, en henni þykir alltaf skemmtilegast að starfa við íslenskar myndir. „Fólk þekkist betur og allir eru afslappaðri. Það er stundum svolítið „show“ í kringum hitt. Amerísku leikararnir þurfa alltaf sitt pláss, en þessir íslensku eru bara með okkur. Þegar við vorum í Noah þá voru leikararnir með sín hjólhýsi og stærð þeirra fór eftir umfangi leikarans. Ekki þvermáli heldur vinsældum og launum. Íslensku leikararnir borða hins vegar í sama bíl og við. Það er allt miklu persónulegra,“ segir Ragna til að draga upp mynd af ólíkri stemningu. Hún tekur samt fram að þegar hún farðaði leikarana Juliu Stiles, Forest Whitaker og Jeremy Renner fyrir myndina Little trip to heaven þá hafi þau dottið í sömu stemningu og Íslendingarnir og verið alveg dásamleg. En hún telur það hafa haft áhrif að um íslenska mynd var að ræða.
„Fossberg-nafnið mun því deyja út með mér, því miður. Sem er hálfgerð synd.“
Ragna hóstar aðeins og ræskir sig og afsakar sig í kjölfarið. Segir hóstann hafa verið að angra sig í nokkrar vikur, en líklega sé um einhverjar flensuleifar að ræða sem aldrei hafi náð flugi. „Ég verð nefnilega aldrei veik. Sjö, níu, þrettán,“ segir hún og bankar þrisvar í gluggakistuna til að forða því að hún leggist í flensu strax eftir viðtalið. „Ég er auðvitað alltaf ofan í fólki svo ég er örugglega búin að mynda ónæmi fyrir öllum þessum helstu pestum,“ bætir hún kímin við. En talandi um það. Verður hún aldrei þreytt á því að vera með nefið ofan í andlitinu á öðru fólki? „Í rauninni ekki því ég er alltaf með nýtt andlit. Alltaf með nýjar persónur og heyri nýjar sögur. En það fer auðvitað allt eftir því hver er í stólnum hjá mér og hvernig fólk er stemmt, hve mikið það talar.“
Ragna hefur gaman af því að spjalla við fólk í stólnum en stundum þarf hún að setja sig í hlutverk sálfræðings. Til dæmis ef fólk er stressað fyrir því að fara í beina útsendingu. „Það er fjöldi fólks sem er stressaður fyrir útsendingu og ég skil það ofboðslega vel. Ég myndi ekki vilja skipta. Ég reyni að láta fólki að líða vel þannig að það nái að slaka á. Oft segir fólk við mig að það skemmtilegasta við að koma í viðtal sé að setjast í stólinn hjá mér og fá smá dekur.“ Ragna brosir. Hún kann augljóslega sitt fag. „Svo verður maður líka að passa að gera fólk ekki stressað með of miklu tali, ef það vill bara slaka á. Það besta við öll þessi ár mín í starfi er reynslan. Maður kaupir ekki reynslu með peningum og maður lærir hana heldur ekki í skóla. Og öll framkoma við fólk byggist á reynslu. Maður lærir að hafa tilfinningu fyrir því hvað fólk vill.“
Það er einmitt faglegt ævistarf Rögnu, byggt á uppsafnaðri reynslu, sem hún var heiðruð fyrir á Edduverðlaunahátíðinni. En hvaða þýðingu hafa svona verðlaun fyrir hana? „Það hvarflaði aldrei að mér að ég fengi þessi verðlaun. Mér finnst heiðursverðlaun hafa verið veitt þeim sem eru sýnilegir, ekki þeim sem eru á bak við. En það er einmitt það sem fólki fannst svo gott við verðlaunin í ár, að það var baksviðsmanneskja sem fékk þau. Það skiptir miklu máli fyrir aðra sem vinna við þetta að starfið sé metið að verðleikum. Þetta sýnir að baksviðsstörfin skipta líka máli, ekki bara að vera framleiðandi eða aðalleikari.“
Ragna viðurkennir að hún hafi tengt heiðursverðlaun við starfslok eða einhvern vendipunkt, en það er svo sannarlega ekki raunin í hennar tilfelli, enda er hún í fullu fjöri. Eins og hún sagði í þakkarræðunni sinni á Edduhátíðinni þá er hún bara rétt að byrja. „Það er svo skrýtið að þegar maður hefur gaman af starfinu sínu þá er aldur bara einhver tala sem skiptir ekki máli ef maður hefur heilsu og vinnugleði. Ég hef vinnugleðina ennþá og hef gaman af þessu. Ég er til dæmis að klára eina bíómynd núna, Eiðinn með Baltasar Kormáki, þannig að það bætist ein bíómynd við.“
„Oft segir fólk við mig að það skemmtilegasta við að koma í viðtal sé að setjast í stólinn hjá mér og fá smá dekur.“
Og Ragna lætur sér ekki nægja að vera á kafi í vinnu heldur sinnir hún líka áhugamálum sínum af miklum móð, sem og viðhaldi hússins og garðvinnu. Hún viðurkennir að hún sé mjög virk. Eiginlega svo virk að stundum fari hún fram úr sjálfri sér.
Að fara á skíði er eitt af áhugamálum Rögnu, en samt eingöngu í útlöndum. Henni þykir lítið spennandi að skíða í sléttlendinu á Íslandi og á ekki einu sinni skíði. Leigir sér bara búnað í útlöndum. Hún var einmitt að koma úr skíðaferð í Saalbach, með syni sínum og sjö ára barnabarni, daginn áður en við hittumst.
„Svo er ég líka í hestunum. Ég er með einn hest uppi í Mosfellsbæ. Þar er yndislegur vinahópur sem mér þykir mjög gaman að ríða út með. Ég segi stundum að það sem haldi mér á tánum sé að vinahópurinn minn sé frá aldrinum 45 ára upp í 62 ára. Ég er elst. Ég þarf að halda í við þau og geri það á meðan ég hef heilsu til,“ segir Ragna einlæg. „Ég hef alltaf haft ánægju af því að gera hitt og þetta.“
Ragna hefur einmitt verið dugleg við það í gegnum tíðina að gera hlutina sjálf. Ekki bara þegar kemur að því að finna gleðina í lífinu heldur líka hvað framkvæmdir varðar.
„Ég er nýhætt að fara sjálf upp á þak að mála, en af því að ég er svona heilsuhraust þá gleymi ég því stundum hvað ég er gömul. Þegar maður er orðinn svona gamall þá á maður kannski ekki að liggja svona mikið á hnjánum. Ég hef alltaf málað húsið sjálf en nú er ég að spá í að fá einhvern í stóru veggina. Ég sleppi því að fara upp í stigann núna.“
Ástæðan fyrir því er líka sú að Ragna braut mjaðmakúluna fyrir sjö árum. Það voru reyndar hvorki íþróttir né viðhald sem orsökuðu það slys. Hún datt einfaldlega á flugvelli þegar hún var á leiðinni í draumaferðina sína eftir langa vinnutörn. „Við Bjössi vorum að fara til San Francisco, upp í Yosemite. Ætluðum að keyra niður þjóðveg 1 til Las Vegas og fara á þær slóðir sem við bjuggum á í Los Angeles. En í millilendingunni í Minneapolis skall ég í gólfið og fann að það gerðist eitthvað. Mig svimaði svolítið þegar ég stóð upp. Ég fór samt út í vél en fann að ég var eitthvað skrýtin eftir þriggja tíma flug. Þegar við komum hótelið í San Francisco náði ég mér í kælikrem og bólgueyðandi, batt teygjubindi um lærið á mér og fór út að ganga. Ég gekk í tvo daga í San Francisco, upp og niður brekkurnar, en á þriðja degi þegar við tékkuðum okkur út af hótelinu þá spurði ég hvort það væri ekki sjúkrahús í grenndinni. Þá gat ég ekki stigið í fótinn lengur.“
„Það hvarflaði aldrei að mér að ég fengi þessi verðlaun.“
Sjúkrahús reyndist vera handan við hornið og sem betur fer fór Ragna beint þangað því í myndatöku. Þar kom í ljós að hún var brotin og var drifin beint í aðgerð. „Ég var bara skorin úti og ferðin náði ekki nema til Carmel þar sem við vorum í tíu daga – ég á hækjum. Við fórum í bíltúra og þetta var í raun mjög skemmtileg ferð þegar upp var staðið. Spítalinn var líka alveg æðislega flottur, eins og fjögurra stjörnu hótel, og Bjössi fékk að gista hjá mér því hann var skráður heimilislaus. Við hlæjum að þessu enn þann dag í dag enda er þetta örugglega dýrasta hótelið sem við höfum gist á.“
Að brotna svona hefur þó ekki háð Rögnu neitt að ráði og hún segist alltaf vera að verða betri og betri. Hún finnur aðeins fyrir þessu og stígur til dæmis ekki upp á hestinn þeim megin sem hún brotnaði. „Það fyrsta sem ég spurði lækninn eftir aðgerðina var hvort ég gæti ekki örugglega farið á hestbak og skíði. Hann sagði að ég gæti það alveg ef ég hefði stundað þessar íþróttir áður. Ég ætti hins vegar ekki að byrja á því núna,“ segir Ragna sem var að sjálfsögðu alsæl með þessar fréttir. Og hefur haldið sínu striki. „Þetta stoppar mig ekki neitt.“