„Ég vil bara minna þig á að það eru miklu meiri líkur á þú látist vegna krabbameins, offitu, bílslyss eða drukknunar heldur en að þú verðir fyrir hryðjuverkaárás. Engu að síður eru hryðjuverk ógn sem ber að taka alvarlega og það þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til að reyna að hindra slíkt. Annað væri barnalegt,“ þetta skrifar Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, í stuttri hugvekju.
Biggi segir að óttinn við hryðjuverk eigi aldrei að fá að stjórna lífi okkar.
„Ekki frekar en að þú farir aldrei út fyrir hússins dyr vegna ótta við að fá sortuæxli, borðir aldrei góðan mat vegna ótta við offitu, farir aldrei í bíl vegna ótta við bílslys eða sleppir sundferðum svo þú drukknir ekki. Ef það er í raun eitthvað sem þú ættir að óttast þá er það óttinn sjálfur. Óttinn skerðir nefnilega lífsgæði þín og hann elur af sér hatur.“
Þá segir Biggi að meiri líkur séu á að falla fyrir eigin hendi en að deyja í hryðjuverkaárás. Biggi lögga segir að lokum:
„Veistu, að það eru meira að segja meiri líkur á að þú fallir fyrir eigin hendi heldur en að þú fallir í hryðjuverkaárás.
Notaðu því orkuna frekar í að hlúa að sjálfum þér og þeim sem skipta þig mestu máli. Ekki sólunda orkunni í ótta. Það er ekki þess virði.“