Snertir hug og hjörtu netverja – Eldaði hamborgara og bjó til eftirlætis ísinn þeirra
Óhætt er að segja viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa eftir að ung stúlka að nafni Kelsey Harmon birti meðfylgjandi mynd af afa sínum á Twitter á dögunum. Myndina tók hún af gamla manninum þegar þau tvö snæddu kvöldmáltíð saman í síðustu viku en það er fyrst og fremst sagan á bak við myndina sem hefur snert við fólki.
Í færslu sem fylgir myndinni segir Kelsey að afi hennar hafi útbúið hamborgara handa öllum barnabörnum sínum sex. Hún hafi hins vegar verið sú eina sem kom til hans í mat. Í samtali við BuzzFeed News segir hún jafnframt að hin barnabörnin séu flest öll flutt úr heimabænum og sæki háskólanám vítt og breitt um Bandaríkin. Þegar vorfrí brast á í bandarískum háskólum og allir sneru til baka í heimabæinn ákvað afi hennar að nota tækifærið og bauð því öllum barnabörnunum í mat til sín.
„Honum er afskaplega annt um að vera í góðu sambandi við okkur og að við séum í góðu sambandi við hvort annað,“ segir hún. „Þegar ég kom til hans þá sá ég að hann var afskaplega spenntur, hann var meira að segja búin að búa til ísinn sem við héldum öll svo mikið upp á sem börn.“
dinner with papaw tonight…❤️ he made 12 burgers for all 6 grandkids and I'm the only one who showed. ? love him pic.twitter.com/0z0DkPtUiR
— kelsey (@kelssseyharmon) March 17, 2016
//platform.twitter.com/widgets.js
Hún segir að þau hafi því næst beðið og beðið. Enginn kom. Hún vildi byrja á matnum en alltaf vildi afi hennar bíða því hann vildi vera viss um að allir fengu nóg. „Ég sá að hann var afskaplega vonsvikinn en ég var áfram hjá honum og við gerðum gott úr kvöldinu.“
Kelsey ákvað því næst að birta myndina á Twitter síðunni sinni en hún segir að hún hafi þó alls ekki búist við að fá svo svakaleg viðbrögð. Á aðeins sólarhring höfðu 70 þúsund notendur endurbirt myndina á Twitter síðum sínum. Sú tala er nú komin upp í 124 þúsund. Þá hafa fleiri en 200 þúsund manns líkað við myndina auk þess sem fleiri þúsund manns hafa skrifað við hana athugasemdir. Ljóst er því að sagan hefur snert ótalmarga. Sjálf segir Kelsey að tilgangurinn hafi ekki verið sá að hryggja fólk- heldur fá það til að kunna að meta fólkið í kringum sig.