fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

„Ég var álkulegur en ágætur“

Vinsældir Ævars vísindamanns komu á óvart – Þakklátur fyrir að hafa fengið að vera nörd

Ritstjórn DV
Föstudaginn 11. mars 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ævar Þór Benediktsson hefur heldur betur slegið í gegn á síðustu misserum sem Ævar vísindamaður. Hann fór heim af síðustu Edduhátíð með tvær Eddur í farteskinu og átti fyrir eina heima frá því árið áður. Það hvarflaði ekki að honum að karakterinn ætti eftir að skapa viðlíka vinsældir og raun ber vitni þegar hann byrjaði með þetta hugarfóstur sitt í útvarpi á sínum tíma.
Ævar ætlaði sér alltaf að verða leikari og það var nánast heimsendir í hans huga þegar hann komst ekki inn í leiklistarnámið í fyrstu tilraun. Sem barn og unglingur var hann algjör grúskari og nörd, en er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera hann sjálfur.
Blaðamaður settist niður með Ævari og fékk að kynnast manninum á bak við vísindamanninn.

„Ég er kominn með þrjár Eddur í heildina sem er mjög gaman. Ég er upp með mér og stoltur,“ segir leikarinn, rithöfundurinn og þáttagerðarmaðurinn Ævar Þór Benediktsson, sem flest börn þekkja eflaust betur undir nafninu Ævar vísindamaður, sem er karakter sem hann hefur leikið um árabil. Í ár fékk Ævar bæði Edduverðlaun fyrir besta barna- og unglingaefnið, líkt og í fyrra, og besta lífsstílsþáttinn.

Hann bjóst ekki alveg við svona mikilli velgengni og viðurkenningu þegar Ævar vísindamaður var að fæðast á sínum tíma. „Ævar vísindamaður varð fyrst til í útvarpi en fyrir tilviljun var honum boðið í heimsókn í Stundina okkar. Í kjölfarið bauð Björgvin Franz Gíslason, þáverandi umsjónarmaður Stundarinnar, mér að vera með regluleg innskot í þáttinn, sem urðu á endanum um þrjátíu talsins. Þegar nýir aðilar tóku við Stundinni þá þurfti svolítið að taka ákvörðun: „go big or go home“.

Mikilvægt að fjalla um konur og karla

Ævar, ásamt leikstjóra þáttanna, Eggerti Gunnarssyni, viðraði þá hugmynd við dagskrárstjóra RÚV hvort það væri áhugi fyrir því að þessi karakter yrði notaður til að gera þætti í anda Nýjasta tækni og vísindi fyrir börn og unglinga. Og sem betur fer var vilji fyrir því. Nú er þriðja þáttaröðin í sýningu á RÚV og nýtur Ævar mikilla vinsælda meðal barna og unglinga.

„Ég er mikill grúskari og hef alltaf verið, en ég er ekki menntaður sem vísindamaður. En ég er með ákveðna grunnþekkingu á ýmsum sviðum og er duglegur að lesa mér til um hlutina ef eitthvað vantar upp á. Svo þegar kemur að þáttunum þá er ég með fólk í kringum mig sem veit sínu viti og ég get leitað til. Ég er alls ekki feiminn að viðurkenna ef ég veit ekki eitthvað. Ef maður spyr ekki þá lærir maður ekki neitt,“ bendir Ævar réttilega á. En hann hefur einmitt sjálfur lært ansi margt af því að fræða æsku þessa lands um tækni og vísindi.

„Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt á margan hátt. Ég hef auðvitað lært hvernig á að gera sjónvarp, skrifa handrit og allt það, en svo læri ég líka af því sem ég fjalla um í þáttunum. Eitt af þemum þáttanna frá byrjun var að skoða íslenskt hugvit. Hvað við á Íslandi erum klár og búin að gera margt þrátt fyrir að vera svona fá. Það er sérstaklega gaman að heimsækja minni fyrirtæki sem maður hefur jafnvel aldrei heyrt um en eru að gera frábæra hluti. Jafnvel selja vörur út um allan heim. Það er mjög gaman að kynnast þeim heimi og ég hefði örugglega aldrei kynnst honum ef ég hefði ekki verið að gera nákvæmlega það sem ég er að gera. Annað sem mig langaði að gera í þáttunum var að rannsaka vísindamenn úr mannkynssögunni í hverri viku, og þá skipti öllu máli að fjalla um karla og konur jafnt.“

„Þegar ég var fimm ára og horfði á Strumpana og fattaði að það var einn maður sem talsetti þá alla, að hann fengi borgað fyrir það og að þetta væri vinnan hans, þá vissi ég nákvæmlega hvað mig langaði að gera“

Hafði engan áhuga á hestum

Ævar er elstur fjögurra systkina, fæddur 9. desember árið 1984. Hann ólst upp á sveitabæ í Borgarfirðinum fyrir utan eitt ár þegar hann bjó á Hólum í Hjaltadal þar sem pabbi hans sinnti kennslu. Bærinn þar sem Ævar sleit barnsskónum heitir Staður og er mitt á milli Borgarness og Baulu-sjoppunnar, en foreldrar hans voru með hesta og ráku tamningastöð. Sjálfur hafði hann lítinn áhuga á hestamennsku og það kom fljótt í ljós. En foreldrar hans virtu það og leyfðu honum bara að sinna sínum áhugamálum, lestri og hvers kyns grúski. „Mamma og pabbi gerðu sér snemma grein fyrir því að ég var ekki að fara að taka við býlinu og það var bara allt í lagi. Þau hvöttu mig áfram í því sem mig langaði að gera, sem var að verða leikari,“ segir Ævar en leiklistin heillaði mjög snemma. „Þegar ég var fimm ára og horfði á Strumpana og fattaði að það var einn maður sem talsetti þá alla, að hann fengi borgað fyrir það og að þetta væri vinnan hans, þá vissi ég nákvæmlega hvað mig langaði að gera. Þetta breyttist auðvitað og þróaðist eftir því sem ég eltist, en ég er mjög heppinn að vinna við það sem ég hef áhuga á og hef menntað mig í. Það eru algjör forréttindi.“

Fékk að vera hann sjálfur

Ævari leið vel í sveitinni í Borgarfirðinum sem barn en Reykjavík í fjarska var vissulega heillandi, með alla sína afþreyingu og spennandi tækifæri. „Ég held að það sé oft þannig að þegar maður býr í sveit þá vill maður búa í borg og öfugt. Ég sá alltaf Reykjavík í rósrauðum bjarma, en eftir á að hyggja er ég mjög ánægður með að hafa bara fengið að vera í litlum skóla með fámennum bekkjum,“ segir Ævar, sem gekk í Varmalandsskóla í Borgarfirðinum. „Kennararnir voru æðislegir og ég fékk pláss til að vera ég sjálfur. Ég hef ekki yfir neinu að kvarta þaðan.“

Þrátt fyrir að Ævar gengi í skóla með jafnöldrum sínum á Varmalandi þá var ekki alltaf auðvelt að hitta vinina utan skólatíma, enda töluverð vegalengd á milli bæja. Og ekki var hægt að eiga samskipti í gegnum samfélagsmiðla eða spjallforrit, enda slíkt ekki komið á þeim tíma. „Það þurfti að skipuleggja heimsóknir með fyrirvara og þá þurfti einhver að ná í mig, enda alveg hálftíma keyrsla aðra leiðina. En þegar við fluttum á Hóla þá fannst mér svo magnað að eiga nágranna sem bjuggu í næstu íbúð eða næsta húsi. Það var hressandi tilbreyting að þurfa ekki að leggja í langferð til að heimsækja vini sína.“

En hann er þakklátur fyrir að hafa ekki haft ótakmarkað aðgengi að hinni ýmsu afþreyingu, eins og til dæmis kvikmyndahúsum. Fyrir honum var það að fara í bíó til einstakra hátíðarbrigða. „Ég var fyrir vikið bara mikið að lesa og það hefur haft mikil áhrif á allt það sem ég hef verið að gera. Allt það sem ég las þegar ég var yngri er enn að veltast um í hausnum á mér. Svo átti ég auðvitað bróður sem var bara rétt á eftir mér í aldri og svo bættust tvær systur í hópinn. Og foreldrar mínir eru líka mjög skemmtilegir, þannig að ég var alls ekki einn þótt ég væri ekki að fá vini í heimsókn á hverjum degi.“

„Það var hressandi tilbreyting að þurfa ekki að leggja í langferð til að heimsækja vini sína“

Glaður að fá gleraugu

Eftir grunnskólann lá leið Ævars í Menntaskólann á Akureyri þar sem hann bjó á heimavist í fjögur ár og fannst það „alveg geggjað“, eins og hann orðar það sjálfur. „Félagslífið var alveg brilljant. Það var svo mikið í gangi, mörg félög og góð stemning. Ef maður vildi þá gat maður troðið sér í allt. Það var líka mjög gaman að vera á vistinni og mér þykir mjög vænt um þennan tíma þarna fyrir norðan. Ég á góðar minningar þaðan.“

Ævar viðurkennir að hann hafi verið ansi virkur í félagslífinu – að sjálfsögðu í leikfélaginu – en líka í ræðuliðinu og fleiri félögum. Hann segist samt hafa verið frekar mikið nörd á unglingsárunum og nefnir gott dæmi blaðamanni til glöggvunar. „Ég var mjög ánægður þegar ég var í sjötta bekk og fékk að vita að ég þyrfti að fá gleraugu, því þá yrði ég alveg eins og Bert,“ segir Ævar hlæjandi og vísar þar til sögupersónu úr vinsælum bókum frá tíunda áratugnum. En Bert sá var mikill grallari og grúskari, örlítið nördalegur með gleraugu. Það var ekki leiðum að líkjast, að Ævari fannst. „Þetta segir kannski eitthvað um það hvernig unglingur ég var. Ég var álkulegur en ágætur. Það var bara allt í lagi. Svo var það líka þannig bæði í Varmalandsskóla og MA að ég fékk bara að vera ég sjálfur. Ég átti góðan vinahóp sem samanstóð af alls konar fólki. Allir voru einhvern veginn og fengu að vera þannig. Það er mjög mikilvægt að hafa gott net af fólki í kringum sig sem tekur manni eins og maður er. Ég spáði aldrei í það hvort ég væri þessi týpa eða hin týpan, var bara alltaf ég sjálfur. En svona í seinni tíð, þegar ég skoða gamlar myndir, þá hugsa ég kannski með mér: „ókei, hvaða peysa er þetta? hvað var ég að spá?“ en þannig var ég bara,“ segir hann einlægur.

Ætlaði að taka viðtal við hest

Hugur Ævars stefndi enn á leiklistarnám eftir stúdentspróf, en það vildi akkúrat þannig til að ekki var tekið inn í leiklistardeild Listaháskólans árið sem hann kláraði MA. Þá var tekið inn í skólann þrjú ár í röð, en ekki fjórða árið. Hann vildi samt ekki ekki láta þetta ár fara til spillis og var ákveðinn í því að fá vinnu tengda leiklistinni á einhvern hátt á meðan hann beið eftir því að komast í inntökuprófin. „Í staðinn fyrir að sækja um störf sem verið var að auglýsa þá hugsaði ég með mér hvernig ég gæti náð mér í reynslu fyrir leikarastarfið. Ég sendi því bréf í allar áttir, í leikhúsin, á RÚV, á tímarit og fleiri staði. Og ég fékk vinnu sem leikmunavörður í Borgarleikhúsinu. En að vinna bak við tjöldin er eitthvað sem ég held að allir leikarar ættu að prófa allavega einu sinni á starfsferlinum. Það er svo mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ef það væri ekki fyrir fólkið bak við tjöldin, þá væru flestar sýningar helst til lítilfjörlegar. Það var líka svo gaman fyrir mig sem leikhúsáhugamann að fá vinnu í alvöru leikhúsi. Ég vissi auðvitað hvað allir hétu og kunni leikskrár utan að. En á sama tíma vildi ég líka passa mig að vera ekki fyrir, fór með veggjum og reyndi eins og ég gat að vera samviskusamasti „propsari“ í heimi.“

En það var ekki eina starfið sem Ævar fékk. Hann komst líka inn í barnaþátt á Rás 1 sem hét Vitinn og var í umsjón Sigríðar Pétursdóttur. „Atli Rafn Sigurðarson leikari hafði verið með henni, en hann var að hætta og þau voru ekki búin að auglýsa stöðuna þegar ég sendi bréfið. Þau settu mig í smá próf. Létu mig hafa upptökutæki í viku og ég mátti gera hvað sem er.“ Ævar tók þessu tækifæri að sjálfsögðu fagnandi og ákvað að brjóta blað í íslenskri útvarpssögu og taka viðtal við hest. „Ég tók tækið með mér út á tún, labbaði yfir skurði og girðingar og var alltaf á leið í áttina að einhverju stóði til að taka viðtal við hestinn. Á meðan laumaði ég inn fræðslu um íslenska hestinn, en loksins þegar ég komst að stóðinu þá hljóp það í burtu og upptökunni lauk. Og ég fékk starfið út á þetta.“

„Ég var mjög ánægður þegar ég var í sjötta bekk og fékk að vita að ég þyrfti að fá gleraugu, því þá yrði ég alveg eins og Bert“

Áfall að komast ekki inn

Ævar starfaði við þáttinn í á þriðja ár, en varð að hætta þegar hann komst loksins inn í leiklistarnámið. Það reyndist honum aðeins erfiðara en hann hafði gert ráð fyrir en hafðist á endanum. „Ég komst ekki inn í fyrstu tilraun og það var mikið áfall fyrir tvítugan áhugaleikarann. Mér hafði gengið svo vel í leikfélaginu í MA, setti upp einleik sem ég túraði með um landið þegar ég var 17 ára og tók þessu bara sem gefnu. Auðvitað kæmist ég inn. Inntökuprófin voru í þremur hollum. Ég komst í lokahópinn. Við vorum 18 eftir minnir mig og átta komust inn. Ég var einn af hinum tíu. Ég fékk bréfið í pósti, mjög dramatískt, og ég varð auðvitað miður mín. En eftir á að hyggja var þetta eiginlega það besta sem gat komið fyrir mig. Það er rosa hollt að fá nei. Að taka þessu ekki sem gefnum hlut. Það er ekkert sjálfsagt að komast inn í námið og alls ekki sjálfsagt að fá vinnu eftir útskrift.“

Þegar Ævar komst inn árið eftir lenti hann í frábærum bekk, og hann hefði alls ekki viljað missa af samfylgdinni við þá félaga sína sem hann kynntist þar. Þótt bekkurinn á undan hafi líka verið frábær.
Eftir útskrift komst Ævar svo fljótlega á samning hjá Þjóðleikhúsinu þar sem hann meðal annars gerðist svo frægur að leika Lilla klifurmús í Dýrunum í Hálsaskógi. En á sama tíma var hann byrjaður með Ævar vísindamann í útvarpinu út frá verkefninu í Vitanum.

Afi fyrirmyndin

En hvaða kemur hugmyndin að Ævari vísindamanni? „Ég held að það blundi í undirmeðvitundinni að afi minn, Ævar Jóhannesson, sem ég er skírður í höfuðið á, var á árum áður uppfinningamaður. Hann fann upp alls kyns tæki og tól sem enn eru notuð í dag auk lúpínuseyðis sem hann gaf og það má því eiginlega segja að hann sé hinn upphaflegi Ævar vísindamaður. Hann er líklega leynt og ljóst fyrirmyndin mín í þessu öllu saman þótt ég hafi ekki endilega verið að spá í það á þeim tíma. Vísindamenn eru líka bara spennandi og skemmtilegir. Það að alast upp sem grúskari og nörd litar auðvitað líka. En ég sá þetta aldrei fyrir mér á þeirri stærðargráðu sem það er núna. Þá hefði ég líklega ekki notað mitt eigið nafn til dæmis. Og ekki fötin mín og gleraugun mín. Ég hefði líklega reynt að dulbúa mig eitthvað,“ segir hann kíminn. „Ástæðan fyrir því að við höfum haldið áfram með þættina, þróað þá og stækkað, er auðvitað bara af því viðbrögðin hafa verið svo góð.“

Eitt af því sem Ævar hefur komið á fót í tengslum við þættina er sérstakt lestrarátak þar sem börn eru hvött áfram til að lesa meira. „Krakkarnir vita hver ég er og það er gaman að nýta þá forgjöf í að gera eitthvað sem skiptir máli. Það er líka bara gaman að koma með eitthvað nýtt og þróa karakterinn. Mig langar ekki alltaf að vera að gera það sama. Okkur sem komum að þáttunum má ekki leiðast og áhorfendum má ekki leiðast.“

Ævar ólst upp í sveit og það krafðist skipulagningar að hitta vinina utan skólatíma. Hann las því mikið og grúskaði sjálfur heima við.
Las og grúskaði Ævar ólst upp í sveit og það krafðist skipulagningar að hitta vinina utan skólatíma. Hann las því mikið og grúskaði sjálfur heima við.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Stoppaður úti á götu

Aðspurður hvort það sé erfiðara að leika fyrir börn heldur en fullorðna segir Ævar svo alls ekki vera. En börnin séu vissulega hreinskilnari áhorfendur. „Þegar þú ert að sýna leikhús fyrir börn þá heyrirðu um leið ef þeim er farið að leiðast. Það er erfiðara að heyra það á fullorðnum hvort þeim leiðist eða ekki. Þegar þú ert að búa til efni fyrir börn verðurðu auðvitað líka að passa sérstaklega vel hvað þú segir og hvernig orð þú ert að nota, en það þýðir samt ekki að þú þurfir að tala niður til þeirra. Krakkar eru miklu klárari heldur en við viljum að þau séu. Þegar þættirnir urðu lengri ákváðum við að leyfa okkur að vera svolítið flókin. Svara ekki öllu, heldur skilja líka eftir spurningar og leyfa krökkunum að leita sjálf að svörunum.“

En það eru ekki bara börn sem fylgjast með Ævari vísindamanni – fullorðnir horfa líka. Sérstaklega eftir að sýningartíma þáttanna var breytt og hann færður eftir fréttir. Ævar fær því stundum líka tölvupósta frá fullorðnum sem fylgjast með þáttunum, og eru þá annaðhvort að benda honum á rangfærslur eða hrósa fyrir góða frammistöðu. Honum þykir það einkar skemmtilegt.

Auknum vinsældum fylgir að sjálfsögðu aukin athygli og Ævar hefur fundið fyrir henni. Síðastliðið sumar fór hann að finna fyrir því af einhverri alvöru að fólk, og þá aðallega börn, væru að stoppa hann úti á götu og til að spjalla. Honum þykir það hins vegar í góðu lagi á meðan fólk er kurteist og þannig hefur það verið hingað til. „Það er líka bara gaman ef einhver þekkir mann úti í búð fyrir eitthvað sem maður er montinn af og er tilbúinn að standa með. Krakkarnir vilja bara spjalla og mér finnst það skemmtilegt. Ég er þá greinilega að ná því að vera nógu aðgengilegur, sem er jákvætt. Ég man alveg sjálfur hvað það var spennandi að sjá einhvern úr sjónvarpinu úti í búð þegar maður var yngri.“

„Ég komst ekki inn í fyrstu tilraun og það var mikið áfall fyrir tvítugan áhugaleikarann“

Notaður í margt

Ævar hefur verið mikið í því að leika fyrir börn en það var ekkert endilega það sem hann stefndi að, þrátt fyrir að hafa sjálfur alltaf haft mikinn áhuga á barnaefni. Líka á fullorðinsaldri. Svona hefur þetta bara þróast. Hann hefur þó engar áhyggjur af því að festast í barnaefninu. Hann bendir á að hann hafi lengi vel verið þekktur fyrir hlutverk sitt í Dagvaktinni, þar sem hann lék frekar einfaldan og barnalegan náunga sem þótti fátt betra en að fá hrós frá Georg Bjarnfreðarsyni. „Íslenskir leikarar eru að vissu leyti heppnir með hvað við erum lítið land. Fyrir vikið erum við notuð í svo margt. Maður er ekki bara leikhúsleikari eða bara kvikmyndaleikari. Það er hægt að gera allt og maður getur öðlast reynslu á ýmsum sviðum.“

En er ekki erfitt að vera í tveimur mjög ólíkum hlutverkum á sama tíma, sem bæði vekja mikla athygli? Sérstaklega ef annað hlutverkið er leikið fyrir börn en hitt alls ekki? „Nei, ég held að það sé allt í lagi. Það er líka bara gaman ef einhverjir átta sig á því að ég er í raun leikari en ekki vísindamaður. Ég er líka rithöfundur, ég er líka að talsetja teiknimyndir. Það má alveg halda nokkrum boltum á lofti í einu.“

Ætlað að hætta í fimm ár

Ævar hefur ekki staðið á sviði að neinu ráði í eitt og hálft ár, fyrir utan barnaleikrit á síðasta ári með Gunna og Felix. Hann segist þó ekki sakna þess um of, það sé einfaldlega of mikið að gera, en meðfram dagskrárgerðinni skrifar hann líka bækur. „Það er bara þessi törn núna og gaman þegar fólk kann að meta það sem maður er að gera. Sérstaklega þegar maður er að gera það á réttum forsendum og með hjartanu. En ég verð ekki í þessu endalaust, alls ekki. Maður þarf að hafa tilfinninguna fyrir því hvenær er komið nóg og hvenær maður á að hætta. Það gerist ekki alveg strax en ég er alveg farinn að hugsa hvernig ég myndi vilja enda þetta.“

Ævar er í raun búinn að ætla að hætta með karakterinn reglulega í fimm ár, en þá hefur alltaf komið eitthvað nýtt sem hvetur hann áfram. Hann viðurkennir til dæmis fúslega að það sé ágætis hvatning að fá Edduverðlaun. „Ég var mjög upp mér að vera tilnefndur í fyrra. Mér fannst það alveg æðislegt og töff og hefði bara verið mjög sáttur við það. Svo unnum við og það var draumur í dós. Svo vorum við aftur tilnefnd í ár, bæði í flokknum barna- og unglingaefni og lífsstílsþáttur og þar að auki var ég tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins. Ég hugsaði með mér að ef það væri eitthvað sem færi aldrei af ferilskránni minni, þá væri það að hafa verið tilnefndur sem sjónvarpsmaður ársins. Það var líka svolítið gaman að vera tilnefndur í öðrum flokki en barna- og unglingaefni, en það var eitthvað sem ég átti alls ekki von á og þaðan af síður að vinna þann flokk. En það er bara klapp á bakið að við séum að standa okkur vel. Og ég segi „okkur“, því ég er auðvitað ekki einn með þættina. Alveg eins og með leikhúsið er heil herdeild bak við tjöldin.“

„Ég sá þetta aldrei fyrir mér á þeirri stærðargráðu sem það er núna. Þá hefði ég líklega ekki notað mitt eigið nafn til dæmis. Og ekki fötin mín og gleraugun mín“

Kynntist ástinni í leikhúsinu

Aðspurður segist Ævar vera frekar niðursokkinn í vinnuna sína og því eigi hann fá áhugamál sem tengjast henni ekki. Hann sé í raun bara mjög heppinn að vinna við áhugamálið sitt og sé líklega vinnualki. Einhverjum tíma ver hann þó með kærustunni sinni, Védísi Kjartansdóttur dansara. Hann fer örlítið hjá sér þegar blaðamaður spyr út í ástina. „Hún er bara svakalega góður dansari og ótrúlega skemmtileg,“ segir hann feimnislega. En þau kynntust að sjálfsögðu í gegnum leikhúsið. Ævar var fenginn til að vera söngvari í sýningu sem Védís og vinkonur hennar voru að setja upp. Hann þekkti vinkonurnar sem voru í Listaháskólanum á sama tíma og hann og eitt leiddi af öðru. Þau fóru þó ekki á formleg stefnumót. „Við kynntumst bara í gegnum sýninguna eins og fólk kynnist á vinnustað. Þetta gerðist mjög náttúrulega.“
Ævar telur það frekar jákvætt fyrir tvo listamenn að vera í sambandi enda sé þá skilningurinn á starfi hins aðilans meiri en ella. „Ég held að það geti verið erfitt að vera með leikara ef viðkomandi hefur ekki farið í gegnum það sjálfur eða þekkir ekki til. En við erum til staðar þegar á þarf að halda í æfingaferlinu og öllu öðru sem tengist starfinu.“

Ný bók og talsmaður UNICEF

Á döfinni hjá Ævari á næstu vikum er ný bók sem heitir Bernskubrek Ævars vísindamanns: Árás vélmennakennaranna og kemur hún út í tengslum við lestrarátakið sem staðið hefur yfir. Um er að ræða sjálfstætt framhald bókarinnar Risaeðlur í Reykjavík sem kom út í tengslum við átakið í fyrra. En Ævar ætlar að draga út fimm heppna krakka sem tóku þátt í lestrarátakinu og fá þau að vera persónur í bókinni. Sérstaða bókanna er sú að þær eru prentaðar með sérstöku lesblinduletri sem gerir lesblindum auðveldara um vik að lesa textann. „Við sem ekki erum lesblind sjáum engan mun en heilinn í lesblindum nemur þetta letur á einhvern annan hátt. Það var lesblindur hönnuður í Bandaríkjunum sem bjó þetta til. Risaeðlur í Reykjavík var fyrsta bókin hjá Forlaginu sem var prentuð með þessu letri og Vélmennabókin verður alveg eins,“ útskýrir Ævar, sem er að vonum stoltur af nýjasta verkinu sínu.
Þá var það tilkynnt í vikunni að Ævar verði talsmaður UNICEF-hreyfingarinnar í ár. Hann mun aðstoða UNICEF á Íslandi við að fræða börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og auka skilning á því hvernig réttindi barna hafa tengingu við daglegt líf þeirra. Í ár verður sérstök áhersla lögð á Sýrland og Ævar mun miðla til barnanna ýmsum staðreyndum um Sýrland, stríðið og áhrif þess á börn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir