Setti sorgina á bið í mörg ár – Missti föður sinn á jóladag 1986
„Maður vill ekki eiga fleiri svona jól,“ segir Sigurður Hlöðversson, betur þekktur undir nafninu Siggi Hlö, um jólin 1986 þegar faðir hans fórst með Suðurlandinu. Sigurður ræddi um slysið og erfiðu árin sem fylgdu í kjölfarið í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson í þættinum Mannamál á Hringbraut.
Faðir Sigurðar, Hlöðver Einarsson, var yfirvélstjóri á flutningaskipinu þegar það fórst í norðurhöfum. Skipið var að sigla með síld til Múrmansk og var statt miðja vegu milli Íslands og Noregs þegar það fórst. Sex fórust í slysinu en fimm skipverjum var bjargað.
„Þetta var snemma á jóladagsmorgunn. Þá berast fregnir af því að Suðurlandið hafi sokkið,“ sagði Sigurður sem rifjaði upp að samkvæmt fyrstu upplýsingum virtist allt vera í lagi. Mennirnir um borð væru komnir í björgunarbáta það væri verið að sækja þá.
Svo kom reiðarslagið, símtalið um að hann væri látinn
„Svo fara símtölin aðeins að breytast þegar líður á daginn,“ segir Sigurður sem var átján ára á þessum tíma. Þennan dag, jóladag, var fjölskyldan hjá móðurömmu Sigurðar. „Svo kom reiðarslagið, símtalið um að hann væri látinn. Það var mikið kjaftshögg fyrir alla fjölskylduna, að sjálfsögðu,“ sagði Sigurður. Faðir hans hafði króknað.
„Já, hann var náttúrulega að reyna að ausa bátinn svo menn gætu haft sæmilegar vistarverur meðan þeir voru að bíða eftir hjálp. Þeir voru í haugasjó og mér skilst að það hafi komið eitthvað brot yfir bátinn þannig að hann sekkur aftur í sjóinn og þar með var orkan farin og hann bara fjarar út,“ segir Sigurður um föður sinn heitinn sem var 41 árs þegar hann lést.
Sigurður ræddi slysið meðal annars í einlægu viðtali við DV árið 2010. „Þeir fóru út á Þorláksmessu, frá Grindavík. Við vorum svo heppin að við fórum og gistum í skipinu áður en hann fór því það voru jólin. Við náðum að kveðja hann. Svo heyrðum við í honum á aðfangadagskvöld þegar við vorum búin að opna pakkana. Síðan bara um nóttina fer skipið niður,“ sagði Sigurður meðal annars í viðtalinu.
Í viðtalinu við Sigmund Erni á Hringbraut segir Sigurður að hann hafi ekki leyft sorginni að ná tökum á sér. Áfallið kom í raun ekki fyrr en mörgum árum síðar.
„Ég varð að taka að mér ábyrgðarhlutverk með móður mína og systur mína, tíu árum yngri. Þannig að ég varð að bretta upp ermar, varð að vera maðurinn á heimilinu og tók það bara mjög alvarlega og ýtti frá mér öllu sem heitir sorg og svoleiðis. Meðan hinir voru grátandi fannst mér ég þurfa að vera einhver klettur. Ég þurfti að díla við það mörgum árum seinna,“ sagði Sigurður í viðtalinu. Það var ekki fyrr en hann kynntist eiginkonu sinni að hann fór að vinna í sorginni. Hún hafði bent honum á að það væri ekki allt í lagi með hann, eins og Sigurður orðar það. Hann var átakafælinn, forðaðist öll rifrildi og þagði í stað þess að taka þátt í rökræðum. „Henni fannst það ekki eðlilegt. Við fórum að vinna í því og laga það,“ sagði Sigurður og bætti við að sú vinna hefði skilað tilætluðum árangri.
Aðspurður hvort hann hafi fundið fyrir reiði eftir slysið segir Sigurður að hann hafi aldrei verið reiður, ekki út í einn né neinn.
„Ef ég er reiður út í einhvern þá er ég reiður út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki dílað við þetta strax. Ég hafði bara ekki þroska eða vit í að standa í því,“ sagði Sigurður. Hann segist hafa fullorðnast hratt og mörg ár hafi liðið þar til hann hafi getað grátið. Það er eiginleiki sem Sigurður er þakklátur fyrir í dag.
Þess vegna er voða gott að vera bara sprellikall og hlæja sig í gegnum þetta
„Já, já. Ég á alveg mín móment enn þann dag í dag, þegar ég hugsa um þessa hluti, þá brotnar maður aðeins. Það er bara gott.“
Sigurður er þekktur skemmtikraftur og að öðrum ólöstuðum í hópi líflegustu og vinsælustu útvarpsmanna landsins. Þegar Sigmundur Ernir spurði hann hvort hláturinn og gleðin hefði hjálpað honum að vinna sig út úr sorginni, sagðist Sigurður ekki velkjast í neinn vafa um það.
„Já, það fer óskaplega í taugarnar á mér […] fólk sem vaknar á morgnana og ákveður að það ætli að vera leiðinlegt þann daginn. Það er fullt af svoleiðis fólki. Ég vorkenni því fólki vegna þess að það er alveg hægt að vakna á morgnana og hugsa: „Vá, takk fyrir að leyfa mér að vera hérna.“ Það er ekki sjálfgefið. Þess vegna er voða gott að vera bara sprellikall og hlæja sig í gegnum þetta.“