fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

„Við vorum flóttamenn í eigin landi“

Fjölskylda Doniku Kolica upplifði miklar hörmungar í Kosovo-stríðinu – Kom til Íslands 2007 og lærði íslensku á 7 mánuðum

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 6. mars 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donika Kolica er 19 ára nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. Bakgrunnur hennar er ólíkari en allra annarra nemenda því fyrir sjö árum talaði hún ekki stakt orð í íslensku. Hún er múslimi og á ættir sínar að rekja til Kosovo en þar gekk fjölskylda hennar í gegnum miklar raunir í Kosovo-stríðinu þar til að þau ákváðu að koma til Íslands í leit að betra lífi. Hún settist niður með blaðamanni á kaffihúsi í Efra-Breiðholti og fór yfir sögu fjölskyldunnar og hvernig það var að aðlagast hérlendis.

Heimilið brennt til kaldra kola

„Ég flutti til Íslands með mömmu og systkinum mínum árið 2007 en þá hafði pabbi unnið hér á landi í tvö ár,“ segir Donika á lýtalausri íslensku. Það er aðdáunarvert að eftir þennan stutta tíma heyrist ekki einu sinni hreimur í máli hennar. Fjölskylda Doniku hafði upplifað miklar hörmungar í stríðsátökunum í heimalandi sínu árið 1999 þar sem fjölskyldumeðlimir hurfu sporlaust, heimili þeirra var brennt til kaldra kola og foreldrar Doniku, Ferhad og Lejla, þurftu að vera á vergangi í eigin landi í marga mánuði ásamt þá tveggja ára gamalli dóttur sinni. Hver dagur gat orðið þeirra síðasti en fyrir mildi lifðu þau stríðið af. Þegar því lauk stóðu þau uppi heimilis- og allslaus og Kosovo, fósturjörðin, var í rúst, allir innviðir laskaðir og framtíð fjölskyldunnar í uppnámi.

„Ég vildi óska að við ættum myndir af því en allt slíkt, sem rúmaðist ekki í ferðatöskunni og veskinu, fuðraði upp í brunanum.“

Hertar reglur

Meirihluti þeirra sem sækir um hæli hérlendis er frá Albaníu eða Kosovo en líta má svo á að um sé að ræða eina þjóð í tveimur löndum. Enginn umsækjandi frá þessum löndum hefur fengið dvalarleyfi hérlendis undanfarin ár, að undanskildum albönsku fjölskyldunum tveimur með langveiku drengina sem fengu ríkisborgararétt rétt fyrir síðustu jól. Reglurnar hafa ekki alltaf verið svo stífar. Árið 2005 kom Ferhard Kolica hingað til lands frá Kosovo til þess að vinna í byggingarvinnu og sjá fjölskyldu sinni, sem hann þurfti að skilja eftir í heimalandinu, farborða. Tveimur árum síðar átti hann þess kost að sækja um að fjölskylda hans, eiginkona og þrjú börn, fengju einnig að flytjast til landsins. Það gekk eftir rétt áður en lögum var breytt sem gerði að verkum að Albanir og Kosovobúar áttu litla sem enga von að hljóta hér dvalarleyfi.

Urðu eftir þegar allir flúðu

Donika og fjölskylda hennar eru frá borginni Peja sem er um 60 þúsund manna borg í vesturhluta Kosovo. Borgin varð illa úti í stríðinu sem geisaði árið 1999 en um 80 prósent húsa í borginni urðu fyrir miklum skemmdum eða voru gjöreyðilögð. Fjölmargir létu lífið í árásum Serba á borgina, þar á meðal ættingjar Doniku. „Flestir flúðu áður en serbneski herinn náði til borgarinnar, þar á meðal systkini pabba. Eldri systir hans fékk stöðu flóttamanns á Íslandi en bróðir pabba flúði til Ítalíu. Við urðum hins vegar eftir, ekki síst til þess að annast ömmu mína og langömmu,“ segir Donika. Hún var aðeins tveggja ára þegar stríðið geisaði og byggir því aðeins á frásögnum foreldra sinna. „Ég held að þau hafi hlíft mér við mörgum sögum af þessum tíma, sérstaklega pabbi,“ segir hún alvarleg á svip.

Fjölskylda hennar gekk í gegnum miklar hörmungar í Kosovo-stríðinu 1998–1999. Þau fluttust til Íslands 2007 í leit að betra lífi sem þau hafa svo sannarlega fundið.
Donika Kolica Fjölskylda hennar gekk í gegnum miklar hörmungar í Kosovo-stríðinu 1998–1999. Þau fluttust til Íslands 2007 í leit að betra lífi sem þau hafa svo sannarlega fundið.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Ævintýralegur flótti

Stríðið í Júgóslavíu hófst árið 1991 en allt svæðið sprakk í kjölfarið í loft upp eins og púðurtunna. Átökin náðu af alvöru til Kosovo á fyrri hluta ársins 1998 og stóð stríðið þar í 16 mánuði með gríðarlegum hörmungum fyrir almenna borgara. „Fjölskyldan mín heyrði sprengingarnar í fjarska og fregnir af ferðum serbneska herliðsins voru á allra vörum sem enn voru eftir í borginni. Við vorum tilbúin að flýja, vorum búin að pakka því nauðsynlegasta auk þess sem mamma hafði sett öll verðmæti, skartgripi og peninga, í veski sem hún geymdi á vísum stað,“ segir Donika. Fjölskyldan var stöðugt á varðbergi en loks kom að ögurstund. Fyrirvarinn var enginn og allt í einu voru serbnesku hermennirnir komnir inn í borgina. Fjölskylda Doniku, foreldrar, amma og langamma, flúðu í skyndi úr húsinu enda dauðinn vís ef þau næðust. Þau földu sig undir brú í nágrenninu en þá áttuðu sig á því að mikilvægur hlutur hafði gleymst, veskið. „Án peninga gátum við ekkert gert,“ segir Donika.

Faðir hennar lagði því í mikla hættuför og hélt til baka í hús þeirra. Hann komst óséður að því og þegar hann hafði fundið veskið þá heyrði hann í hermönnunum fyrir utan húsið. „Það var lítið óuppgert háaloft á húsinu og hann gat híft sig þangað upp, rétt í tæka tíð því á sömu andrá ruddust hermennirnir inn í húsið. Það stungust naglar upp úr gólfinu sem hann þurfti að leggjast á og ekki gefa frá sér eitt einasta hljóð,“ segir Donika.

Hermennirnir fínkembdu húsið en áttuðu sig ekki á tilvist háaloftsins. Þeir héldu síðan í næsta hús og skömmu síðar gat Ferhad flúið húsið og haldið til fjölskyldu sinnar sem enn var í felum undir brúnni.

Minningarnar fuðruðu upp

„Pabbi var sá síðasti í fjölskyldunni sá húsið okkar. Það var byggt árið 1920 og mér skilst að það hafi verið eitt flottasta húsið í borginni, hannað af þekktum rússneskum arkitekt,“ segir Donika. Kolica-fjölskyldan hafði verið vel efnum búin á árum áður en langafi Doniku var stórbóndi sem átti fjölmargar jarðir. Auður fjölskyldunnar hafði aftur á móti verið tekin úr höndum hennar í valdatíð júgóslavneska einræðisherrans Titos en eftir stóð ættaróðalið. „Í þessu húsi höfðu nánast allir í fjölskyldu minni alist upp. Ég vildi óska að við ættum myndir af því en allt slíkt, sem rúmaðist ekki í ferðatöskunni og veskinu, fuðraði upp í brunanum,“ segir Donika. Serbneskir hermenn lögðu eld að öllum húsum í götunni og ættaróðal fjölskyldunnar brann til kaldra kola.

Faðir hennar talinn af

Þegar faðir Doniku komst heilu og höldnu til fjölskyldu sinnar sem enn var í felum undir brúnni þá tók hann þá ákvörðun að senda Lejlu, eiginkonu sína, með Doniku fótgangandi til Svartfjallalands en þaðan er móðir Doniku ættuð. „Hún gat komist hraðar yfir ein með mig en með ömmu og langömmu. Pabbi varð til dæmis að halda á langömmu okkar á háhesti,“ segir Donika. Langamma Doniku lést árið 2006 en þá var hún 106 ára gömul. „Við kvörtum yfir einu stríði en hún gekk í gegnum báðar heimsstyrjaldirnar og svo Kosovo-stríðið undir lok ævinnar. Hún var algjör nagli,“ segir Donika og brosir.

Mæðgurnar ferðuðust yfir fjöll og firnindi og reglulega komu upp aðstæður þar sem þær mæðgur þurftu að fela sig í fyrir serbneskum hermönnum. Þær sluppu blessunarlega með skrekkinn og komust heilu og höldnu til Svartfjallalands þar sem foreldrar Lejlu bjuggu. Þar var þeim ekki vært og því héldu þau öll fjögur til Skopje, höfuðborgar Makedóníu, þar sem þau biðu frétta af örlögum Ferhads. Faðir Doniku var hvergi sjáanlegur og fjölskyldan var aðskilin í marga mánuði. „Flestir töldu að pabbi hlyti að vera dáinn. Að hann hefði verið gripinn á flóttanum og þá þyrfti ekki að spyrja að leikslokum,“ segir Donika. Serbneski herinn var miskunnarlaus og almennir borgarar í Kosovo voru hiklaust skotnir og komið fyrir í ómerktum gröfum.

Flóttamenn í eigin landi

Það reyndust þó blessunarlega ekki örlög Ferhads. Hann hafði vissulega lent í miklum raunum á flóttanum en komst lífs af ásamt móður sinni og ömmu. Það var svo loks við landamæri Makedóníu sem móðir Doniku sá eiginmann sinn hinum megin við landamæragirðinguna og öskraði til hans. Stundin var tilfinningaþrungin og Donika verður klökk þegar hún lýsir atburðarásinni fyrir blaðamanni. Fjölskyldan var sameinuð a ný en þau þurftu samt sem áður að vera stöðugt á ferðinni milli Makedóníu, Kosovo og Albaníu allt til loka stríðsins.

„Við vorum flóttamenn í eigin landi og áttum engan öruggan samastað. Ég man auðvitað ekkert eftir þessum tíma en reynslan var foreldrum mínum eðlilega þungbær. Matur var af skornum skammti og fólk neyddist til þess að vera skítugt í sömu tötrunum mánuðum saman. Ég fæ sting í hjartað þegar ég sé myndir af flóttamönnunum sem nú streyma frá Sýrlandi. Sérstaklega þegar ég sé lítil börn sem ríghalda dauðhrædd í foreldra sína, vitandi að ég var í þessum sporum,“ segir Donika.

Fjölskylda hennar gekk í gegnum miklar hörmungar í Kosovo-stríðinu 1998–1999. Þau fluttust til Íslands 2007 í leit að betra lífi sem þau hafa svo sannarlega fundið.
Donika Kolica Fjölskylda hennar gekk í gegnum miklar hörmungar í Kosovo-stríðinu 1998–1999. Þau fluttust til Íslands 2007 í leit að betra lífi sem þau hafa svo sannarlega fundið.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Til Íslands að vinna

Með ótrúlegum dugnaði, viljastyrk og í raun heppni lifði fjölskyldan stríðið af en því lauk um mitt ár 1999. Þegar ljóst var að öllu var óhætt þá sneru þau aftur til heimahaganna en þar mætti þeim fullkomin eyðilegging. „Borgin var í rúst og meðal annars höfðu öll húsin í götunni okkar verið brennd til grunna,“ segir Donika. Faðir Doniku hófst þegar handa við að byggja annað hús og þegar því var lokið þá tók við erfið lífsbarátta enda allt þjóðfélagið í lamasessi og enga vinnu að hafa. Hjónin eignuðust tvö börn eftir stríðið, Dritero árið 2000 og Dinu árið 2003. Rúmum fimm árum síðar ákvað Ferhad að fara til systur sinna til Íslands sem gat útvegað honum vinnu á margfalt hærri launum en buðust í Kosovo. Tveimur árum síðar gat hann síðan sent eftir eiginkonu sinni og börnum en þá var Donika orðin 10 ára gömul.

Ömmusystirin hringir oft á dag

„Ég fékk vægt sjokk þegar við komum hingað. Allt var öðruvísi en heima, sérstaklega veðrið,“ segir Donika og hlær. Hún átti erfitt með að flytja sig um sess og kveðja ættingja og vini heima fyrir. „Fjölskyldan skiptir gríðarlegu máli í Kosovo, til dæmis hringir ömmusystir mín, sem enn býr í Peja, oft á dag í mig á Viper,“ segir Donika brosandi. Það að föðursystir hennar og fjölskylda hennar skildu vera hér skipti miklu máli og auðveldaði þeim að aðlagast fljótt og vel. „Það hjálpaði eflaust líka að ég hef alltaf verið félagslynd og tala mjög mikið [hlær]. Það hjálpaði mér að eignast vini og koma mér fyrir. Ég byrjaði einnig að tefla og áður en ég vissi af var ég kominn á fullt í skáksamfélagið hérlendis. Þar var mér tekið opnum örmum og margt af því fólki er mér eins og fjölskylda í dag,“ segir Donika hlýlega.

Lærði íslensku á sjö mánuðum

Donika gekk tvo mánuði í Hjallaskóla í Kópavogi en síðan fluttist fjölskyldan í Hólahverfið í Breiðholti og þaðan lá leið hennar í Hólabrekkuskóla. Á innan við sjö mánuðum frá komu Doniku til Íslands var hún orðin altalandi á þessu erfiða tungumáli. „Íslenska málfræðin er ekkert mál, hún er mjög svipuð og albanska málfræðin. Skortur á orðaforða hrjáir mig eitthvað en hann hefur aukist mikið eftir að ég byrjaði í MR og þurfti að komast í gegnum allt námsefnið þar,“ segir Donika og ranghvolfir augunum. Hún segir að skólayfirvöld hafi sýnt sér mikinn skilning varðandi þá staðreynd að íslenska sé ekki móðurmál hennar. „Íslenskukennarinn minn, Guðjón Ragnar Jónasson, er ótrúlegur og hefur hjálpað mér gríðarlega. Hann hefur endalausa trú á mér og hvetur mig áfram þegar ég er alveg að gefast upp,“ segir hún.

Í ljós kemur að Donika er hálfgert séní í tungumálum en hún talar sex tungumál og er sæmileg í því sjöunda „Fyrir utan albönsku og íslensku þá tala ég serbnesku, ensku, og spænsku. Ég slepp til í dönskunni en ég er ekki viss um að ég myndi treysta mér til þess að tala hana,“ segir Donika og brosir feimnislega. Sömu sögu er að segja um tyrknesku en hana skilur Donika vel þó að hún veigri sér við að tala málið.

Langar til að hjálpa Kosovo

Það vekur því furðu blaðamanns að heyra að Donika er á náttúrufræðibraut í MR í stað þess að hafa valið að nema við máladeild skólans. „Ég var alveg harðákveðin í að vera læknir þegar ég byrjaði í skólanum en hef aðeins dregið í land með það,“ segir hún og viðurkennir að hún sé tvístígandi varðandi framtíðina. „Ég hef velt fyrir mér að fara í lögfræði með áherslu á mannréttindamál en þar sem ég vil halda því opnu hvort ég starfi hérlendis eða í Kosovo þá er það ef til vill ekki praktískt,“ segir hún.

Talið berst að framtíðinni og eins og sakir standa þá finnst henni líklegt að hún fari aftur til heimalandsins. „Mig langar til þess að leggja hönd á plóginn við að laga hlutina í Kosovo og gera samfélagið betra og réttlátara. Ég held að Íslendingar gleymi því oft hvað þeir eru heppnir. Ísland er ótrúlegt land og vandamálin sem glímt er við hérna eru smávægileg miðað við það sem gengur á í Kosovo,“ segir Donika. Kosovo varð sjálfstætt ríki árið 2008 og margt er þar æði frumstætt. „Það er mikil spilling hjá hinu opinbera, sérstaklega í heilbrigðis- og menntakerfinu. Efnameiri fjölskyldur fá bestu þjónustuna og börn þeirra eftirsóttustu sætin í háskólum. Það er líka litla vinnu að hafa, margir sem ljúka háskólanámi fara að vinna hefðbundin verslunarstörf enda ekkert annað í boði,“ segir Donika.

Blóðhefndin raunveruleg ógn fyrir hluta landsmanna

Hælisleitendur frá Albaníu og Kosovo bera oftar en ekki fyrir sig svokallaða blóðhefnd eða lög Kanun. Það er aldagömul löggjöf sem í stórum dráttum gengur út á að ef einhver gerir eitthvað á hlut fjölskyldunnar þá beri að hefna fyrir það. Löggjöfin er skýr um að halda eigi konum og börnum fyrir utan deilurnar. Donika segir að ógnin sé raunveruleg meðal þeirra sem fara eftir lögum Kanun en að yfirleitt séu það þeir sem búa ekki í borgum landsins og iðkun laganna virðist haldast í hendur við lágt menntunarstig. „Um jólin fór ég í heimsókn til Kosovo til þess að hitta fjölskyldu mína. Á meðan ég var úti hvarf ung stúlka rétt fyrir utan borgina og hafði ekki fundist þegar ég fór heim,“ segir Donika.

Við heimkomuna frétti hún að lík stúlkunnar hefði fundist og reyndist ástæða morðsins vera hefnd fyrir atburði sem áttu sér stað þrjátíu árum áður. „Þetta var grundvallarbrot á lögum Kanun en án efa verður hefnt fyrir þetta. Krafan um hefndina hverfur aldrei og þar af leiðandi getur þetta gengið endalaust,“ segir Donika. Hún segir þó að æ færri fari eftir þessum reglum í takt við aukið menntunarstig og meðal þeirra sem hún umgengst þyki þetta vera fullkomin villimennska.

Tvö störf samhliða skóla

Blaðamaður kemst fljótt að því í spjalli við Doniku að Kosovo skipar stóran sess í hjarta hennar og hún notar hvert tækifæri sem gefst til þess að ferðast heim. „Ég ólst upp í Kosovo til tíu ára aldurs og á margar minningar þaðan. Systkini mín sem eru yngri eru orðin mun meiri Íslendingar en ég,“ segir Donika. Samhliða skóla er hún í tveimur störfum og leggur fyrir peninga til þess að heimsækja Kosovo reglulega. „Það er alltaf alveg æðisleg tilfinning að koma heim,“ segir hún og bendir á að vinir hennar stríði henni stundum á því að hún sé alltaf að tala um Kosovo. „Mörg húsin þar eru kynt með því að brenna eldivið og því fylgir einkennandi lykt. Stundum þegar ég finn lykt af brennandi eldivið hérna á Íslandi þá stoppa ég, dreg andann djúpt og hugurinn reikar heim. Ég fer eiginlega í trans,“ segir hún og skellihlær.

Skelfilegt pepperóníát

Eins og 95 prósent þeirra sem búa í Kosovo þá eru Donika og fjölskylda hennar múslimar. Trúin skiptir fjölskylduna miklu máli enda var hún haldreipi þeirra þegar þau voru á flótta í stríðinu. „Við förum aldrei í bænahúsin hérlendis eða neitt slíkt en við höldum ramadan og borðum ekki svínakjöt,“ segir Donika. Hún segir blaðamanni frá þeirri skelfilegu stund þegar að hún fékk sneið af pepperónípítsu í skólanum, fljótlega eftir komuna til landsins og komst svo að því síðar að um svínakjöt væri að ræða. „Ég kúgaðist eiginlega, mér leið mjög illa yfir því,“ segir hún og brosir. Umræðan um múslima í þjóðfélaginu fer ekki fram hjá henni og henni sárnar hún oft. „Það er fráleitt að setja alla múslima undir einn hatt. Það er öfgatrúarfólk í öllum trúarbrögðum og yfirgnæfandi meirihluti múslima er hófsamur og vill lifa í sátt og samlyndi við aðra,“ segir Donika.

Íslenskir ríkisborgarar.

Donika og fjölskylda hennar hlutu ríkisborgararétt árið 2013 og það var stór stund í lífi fjölskyldunnar, óöryggið sem landflótta einstaklingar geta líklega einir skilið var á enda. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir allt sem fyrir okkur hefur verið gert og að við höfum fengið þetta tækifæri til þess að koma lífi okkar í réttan farveg aftur,“ segir Donika.

Hún á erfitt með að skilja hvað hennar fjölskylda hafi gert til þess að verðskulda þetta tækifæri á meðan fjölmargar aðrar fjölskyldur frá heimalandi hennar fá ekki sama tækifæri og eru sendar til síns heima. „Ég á bágt með að skilja það. Hingað eru að koma fjölskyldur sem eru komnar til þess að vinna og leggja sitt af mörkum. Foreldrar mínir hafa unnið baki brotnu frá því að þeir komu til Íslands og það hef ég líka gert,“ segir Donika og vill meina að umræðan um að flóttamenn séu afætur af samfélaginu sé ósanngjörn.

„Ég þekki engin dæmi þess að fólk sem flyst hingað í leit að betra lífi vilji ekki leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þegar fólk hefur gengið í gegnum hörmungar stríðs þar sem það óttast um líf sitt á hverjum degi þá er það ekki að fara að leggjast upp í sófa og slaka á. Það leggur mikið á sig í vinnu eða skóla til þess að skapa fjölskyldum sínum betra líf,“ segir Donika að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Í gær

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna