Mikilvægt að þolendum sé ekki kennt um eineltið
„Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að lækna siðblindu en það er partur af mér sem pælir í því hvernig hefði farið ef þeir hefðu verið séðir sem vandamálið allt frá byrjun og fengið hjálp,“ segir Bylgja Babýlons leikkona og uppistandari en hún vill vekja fólk til umhugsunar um það mismunandi viðhorf sem gerendur og þolendur í eineltismálum mæta í íslensku skólakerfi. Algengt sé að þolendur séu látnir axla ábyrgð og rót vandans talin liggja hjá þeim. Á meðan sé lítið gert til að rétta af hegðun gerendanna sem leiði síðan til þess að þeir halda áfram ofbeldisfullri hegðun þegar þeir komast á fullorðinsár. Því sé mikilvægt að grípa í taumana í tæka tíð.
Margir kannast við Bylgju úr sjónvarpsþáttunum um Tinnu og Tótu og þá hefur hún getið sér gott orð sem uppistandari undanfarin misseri. Hún hefur áður tjáð sig opinberlega um einelti sem hún varð fyrir í grunnskóla en í samtali við DV.is segir hún mikilvægt að skólakerfið beini sjónum sínum að gerendunum í eineltismálum í stað þess að varpa sökinni yfir á þolendurna. „Ég lenti í því þegar ég var í grunnskóla að vera tekin á fundi og send til sálfræðings vegna þess að skólinn leit svo á að það hlyti hreinlega að vera eitthvað að mér fyrst ég var lögð í einelti. Það var aldrei horft á gerendur og spurt hvað væri að þeim. Þeir fóru ekki til sálfræðings og ég vildi benda aðeins á hvar þeir eru í lífinu í dag.“
Bylgja ritar pistil um málið á fésbókarsíðu sína þar sem hún bendir á að umræðan um einelti komi oft í hollum. „Það gerist eitthvað hræðilegt, foreldrar stíga fram með reynslusögur eða barn sviptir sig lífi og við tölum um þessi mál í mánuð, þá segir einhver Framsóknarmaður eitthvað heimskulegt og við förum að tala um það í staðinn.“
„Þegar ég var í 8 til 10 bekk þróaðist eineltið úr stríðni yfir í þöggun. Nema hjá litlum hópi stráka sem hóf barsmíðar. Ég mætti þessum strákum á götum úti og þeir hrintu og spörkuðu og ég var með áverka sem ég myndi hiklaust kæra til lögreglu ef einhver myndi veita mér í dag,“ segir Bylgja og rifjar upp atvik: „Ég sat einu sinni fund hjá skólastjóra ásamt tveimur bekkjarbræðrum mínum eftir að þeir réðust á mig á skólalóðinni. Það voru kölluð „slagsmál” okkar á milli, þó ég væri höfðinu lægri en þeir og rétt slefaði upp í 40 kíló.“
Bylgja segir tvær ástæður vera fyrir því að hún sá sig knúna til að tjá sig um málið. „Önnur er mynd sem gengur um Facebook þar sem foreldrar eru hvattir til þess að segja dætrum sínum ekki að strákar sem meiði þær eða stríði séu skotnir í þeim. Hin er sú að einn þessara manna sem beittu mig ofbeldi á unglingsárunum er í dag þekktur sem “Hríseyjarnauðgarinn” en hann var að fá dóm fyrir hrottalega árás og nauðgun.“
„Annar þeirra fékk dóm fyrir nokkrum árum en hann dró kærustuna sína á hárinu út af heimili þeirra út í bílskúr, eftir að hafa gengið í skrokk á henni. Þá er ekki allt upptalið en nokkrir hinna strákanna hafa fengið dóma fyrir líkamsárásir og allskyns brot.“
Bylgja segist velta fyrir sér hvort öðruvísi hefði farið ef að umræddir piltar hefðu verið séðir sem vandamálið allt frá byrjun og fengið viðeigandi hjálp.
„Það væri frábært ef skólakerfin hættu að spyrja: „Hvað gerir þetta barn til að verða fyrir einelti, hvað er að því?” og færu að spyrja „Hvers vegna er þetta barn að leggja í einelti, hvað er að því?“
„Það myndi, þegar upp er staðið spara samfélaginu kostnað og sársauka,“ segir Bylgja jafnframt og kemur á framfæri áminningu til þingmanna þjóðarinnar: „Hættiði síðan að segja að þið verðið fyrir einelti þarna alþingismenn þegar einhver er ósammála ykkur, það er fkn óþolandi gjaldfelling orðs!“