Komst í kast við lögin 11 ára gamall
Stjarna Ólafs Arnalds tónskálds hefur risið hátt undanfarin misseri. Leiðin á toppinn hefur þó ekki alltaf verið greið og segist Ólafur svo sannarlega hafa fengið sinn skerf af höfnun.
Í viðtali við Ske segir Ólafur að eftir að hann útskrifaðist 18 ára gamall úr menntaskóla hafi hann sótt um í fjölda tónlistarskóla erlendis. „Meðal annars Guild Hall í London, Royal Northern College í Manchester og Berkeley í Bandaríkjunum.“
„Ég komst ekki inn neins staðar nema í Listaháskólanum hérna heima – en hætti á fyrsta ári,“ segir Ólafur og kemur þá að kaldhæðni örlaganna: „Síðan, fimm árum seinna, var ég ráðinn til þess að semja fyrir sinfóníuna í Royal Northern College; beðinn um að vera gesta prófessor í Guild Hall; og fenginn til þess að kenna „master class“ í Berkeley. „Ég hef áréttað þessa höfnun í hvert skipti sem ég heimsæki þessa skóla,“
Hann segir fleira jákvætt hafa fæðst af því að takast við höfnun. Til að mynda var lag hans Ljósið upprunalega samið sem auglýsingastef fyrir baðkar.
„Þetta var fyrir erlent fyrirtæki að nafni Kohler. Ég geri ávallt mikið úr þessari sögu, þó svo að þesskonar verkefni rati reglulega upp á borðið hjá mér. Þetta var reyndar fyrsta höfnunin. En mér finnst alltaf gaman að segja frá því að lagið sem varð kveikjan að mínum ferli hafi verið hafnað af bandarískum baðkarsframleiðanda.“
Þá rifjar Ólafur einnig upp í viðtalinu þegar hann komst í kast við lögin 11 ára gamall:
„Einu sinni þegar ég var undir lögaldri rauf ég opinbert útivistarbann sem var í gildi fyrir unglinga. Ég var á tónleikum og laug því að móður minni að þeir væru búnir klukkan 11, þegar þeir voru, í raun, búnir klukkan 10. Mamma var á leiðinni að sækja mig þegar lögreglan stingur mér inn í hið svokallaða Foreldrahús.
„Þetta var fyrir tíð farsímans, þannig að við náðum engu sambandi hvort við annað. Þetta var mjög fyndið í ljósi þessi hversu góðir foreldrar, foreldar mínir eru; þau hafa alið af sér afar vel heppnuð börn. Öll systkynin hafa lokið mastersnámi og vegnar vel. Nokkrum vikum seinna fær móðir mín bréf frá Barnaverndarstofu. Hún opnar bréfið og hlær. Síðar hringdi hún í Barnaverndarstofu og spurði: „Er ykkur alvara?,“ rifjar Ólafur upp en hér má lesa viðtalið í heild sinni