fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Giftingin var „meiriháttar grín“

Allsherjargoðinn gefur „par“ saman á Austurvelli – Voru gestir á hádegisbarnum á Óðali

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 24. febrúar 2016 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta atvik, sem aldrei átti að verða annað en grín, hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir mig. Fjölskylda mín varð að vonum felmtri slegin þegar hún heyrði um þessa ótímabæru og óvenjulegu giftingu mína. Sjálf varð ég alveg miður mín þegar ég áttaði mig á að grínið var orðið að löglegri giftingu.“ Svo mælti ung kona í samtali við DV árið 1984, en líklega eru fá dæmi um að fólk hafi endað í hjúskap – nánast að því sjálfu forspurðu. Hér segir þó frá einu slíku atviki.

Hitta fyrir allsherjargoðann

Kona nokkur og maður voru stödd ásamt fleiri kunningjum sínum á hádegisbarnum á Óðali við Austurvöll sunnudag nokkurn í nóvembermánuði 1982, en þau munu aðeins hafa þekkst lítils háttar. Grípum niður í frásögn konunnar: „Þá kemur til mín kunningi minn, sem var nokkuð við skál, bendir mér á Sveinbjörn allsherjargoða, sem einnig var á hádegisbarnum, og segir: „Eigum við ekki að láta hann gifta okkur?“ Þar átti maðurinn við Sveinbjörn Beinteinsson, allsherjargoða ásatrúarsafnaðarins.

Sveinbjörn var þjóðkunnur maður á sinni tíð. Hann var fæddur í Grafardal í Skorradalshreppi árið 1924, en var frá árinu 1944 bóndi að Draghálsi, auk þess að fást við kveðskap og skemmta landsmönnum með rímnasöng. Hann hafði aðdáunarvert lag á fornum bragarháttum. Sveinbjörn var afar forn í útliti og þótti fara vel á því að hann væri talsmaður hins gamla átrúnaðar, sem kenndur er við æsi.

Hjónavígslur í sið ásatrúarmanna voru afar fátíðar á þessum árum, en söfnuðurinn var stofnaður árið 1972 að frumkvæði Sveinbjarnar. Hann fékk þá leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til að framkvæma athafnir eins og hjónavígslur, nafngjafir og útfarir. Að auki framkvæmdi Sveinbjörn ýmsar helgiathafnir, þar sem goðin voru blótuð. Ásatrúarfélagið var fyrsta löggilta heiðna trúfélagið í heiminum.

„Meiriháttar grín“

Hverfum aftur niður á Óðal í nóvembermánuði 1982. Konan kvaðst ekki hafa tekið manninn alvarlega þegar hann lagði til að allsherjargoðinn gæfi þau saman og sagði svo frá: „Ég tók þessu vitaskuld sem algjöru gríni og spurði kunningjann hvort hann væri nú alveg að spila út. Enda var hugmyndin fáránleg og hlægileg í senn.“ Konan sagði sprellið hafa tekið allan hug kunningja síns, sem hefði gengið til allsherjargoðans og gefið sig á tal við hann. Segist henni síðan frá svo: „Kom svo máli þeirra að kunningi minn spurði Sveinbjörn hvort hann vildi ekki gifta okkur. Sveinbjörn taldi ekkert því til fyrirstöðu og kvaðst vera tilbúinn til þess þá þegar. En hann sagðist vilja fá okkur út fyrir því hann vildi ekki fremja athöfnina inni á barnum. Við mikil hlátrasköll og ærsl fórum við svo út og okkur fannst þetta afskaplega sniðugt, enn sem komið var, og raunar meiriháttar grín.“

Vinkona brúðarinnar var með í för og piltur sem þau þekktu. Til stóð að gefa þau líka saman en ekki varð þó af því. Konan segir svo frá: „Ég og vinkona mín rauluðum brúðarmarsinn á leiðinni út og höfðum stórlega gaman af öllu saman.“

Undir minnismerki Jóns Sigurðssonar spurði allsherjargoðinn þau að nafni og hvort þau hefðu verið gift áður. Að auki fékk hann nafnnúmer þeirra og nöfn svaramanna. Þessar upplýsingar skráði hann allar hjá sér í litla minnisbók. Því næst spurði hann brúðina og brúðgumann hvort þau vildu játast hvort öðru og gekk það greiðlega. Það með var athöfninni lokið.

Rétt er að taka fram að hjónavígsla er afar einföld athöfn. Til að hún teljist lögleg þarf ekki annað en löggiltan vígslumann, það að hjónin játist hvort öðru og svo þarf vígslumaðurinn að vígja viðkomandi. Öllum formskilyrðum var hér fullnægt. Ekki skipti máli þótt brúðhjónin væru ekki félagar í ásatrúarsöfnuðinum.

Hann hafði leyfi til að framkvæma hjónavígslur.
Sveinbjörn allsherjargoði Hann hafði leyfi til að framkvæma hjónavígslur.

Pappírar undirritaðir

Brúðhjónin héldu áfram að skemmta sér og vissu ekkert frekar af ráðahagnum fyrr en allsherjargoðinn hélt heim til brúðgumans sex dögum síðar og hafði þar meðferðis svokallað könnunarvottorð, sem þau skyldu bæði skrifa undir, og þar að auki afhenti hann honum yfirlýsingu þess efnis að brúðguminn hygðist ganga í ásatrúarsöfnuðinn.

Um kvöldið hófst skemmtanalífið að nýju með partíi hjá brúðgumanum og þangað var brúðinni boðið ásamt fleiri góðum gestum. Þar dró hann fram pappírana sem allsherjargoðinn hafði komið með fyrr um daginn. Bað hann brúðina að undirrita könnunarvottorðið sem hann vildi geyma „til minningar“ um athöfnina á Austurvelli. Brúðurin segir svo frá: „Ég var treg til í fyrstu en lét svo til leiðast gegn því loforði að pappírarnir færu aldrei úr hans höndum.“

Daginn eftir kom allsherjargoðinn aftur í heimsókn til brúðgumans til að sækja pappírana og gekk hart eftir að fá þá. Brúðguminn mun hafa verið orðinn „illa slæptur“ eftir langar vökur og gleðskap og lét á endanum pappírana af hendi „til þess eins að losna við kallinn og komast aftur í rúmið“, eins og hann sagði sjálfur frá.

Gifting meira en fíflalæti á Austurvelli

Þegar bráði af brúðgumanum daginn eftir hringdi hann í eiginkonu sína og tjáði henni að hann hefði látið Sveinbjörn allsherjargoða hafa pappírana. „Mig fór þá að gruna margt,“ segir brúðurin, sem hringdi í Hagstofuna nokkru síðar og spurði hvort allsherjargoðinn hefði skilað inn einhverjum pappírum. Starfsmaður Hagstofunnar svaraði þá að bragði: „Er það giftingin á Austurvelli?“ Brúðinni var því næst tilkynnt að hún væri nú löglega gift og gengin í hjónaband. Þá hefði allsherjargoðinn einnig skilað inn vottorði þess efnis að brúðguminn væri genginn í ásatrúarsöfnuðinn.

Brúðurin varð dauðskelkuð við þessar fregnir og fékk viðtal hjá Jóni Helgasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra, og fulltrúa í ráðuneytinu. Hún fór fram á að hjónabandið yrði ógilt „því í mínum huga er gifting annað og meira en fíflalæti á Austurvelli,“ eins og henni fórust orð. Ráðuneytið vísaði málinu til Rannsóknarlögreglu ríkisins og í kjölfar rannsóknar var konunni útvegaður lögfræðingur.

Máli til ógildingar á hjúskapnum var stefnt fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur, en vísað frá á þeirri forsendu að stefnt hefði verið of seint. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð. Hjúskapurinn var því löglegur að áliti dómstóla og því sá eini kostur að slíta honum með skilnaði. Hjónakornin voru því löglega gift um nokkra hríð.

Lærdómurinn af þessari frásögn er væntanlega sá að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Líflegar umræður á Matartips eftir að ostaunnandi bað um ráð

Líflegar umræður á Matartips eftir að ostaunnandi bað um ráð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Cher afhjúpar skuggahliðar hjónabandsins – Íhugaði að kasta sér fram af svölum

Cher afhjúpar skuggahliðar hjónabandsins – Íhugaði að kasta sér fram af svölum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom