fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Alheimsfegurðardrottning úr Ytri-Njarðvík

Ævintýraljómi hefur leikið um nafn Guðrúnar Bjarnadóttur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 23. febrúar 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fegursta stúlka í heimi, að mati dómnefndarinnar er Norðurlandastúlka með rauðbrúnt hár, sem á sér ást í leynum og ber nafn, sem enginn betur borið fram.“ Þetta mátti lesa í einu fréttaskeytanna sem barst íslensku blöðunum í ágústmánuði 1963 þegar Guðrún Bjarnadóttir, tvítug stúlka úr Ytri-Njarðvík, var kjörin Ungfrú alheimur við hátíðlega athöfn á Municipal Auditorium á Langasandi í Kaliforníu.

Æ síðan hefur ævintýraljómi leikið um nafn Guðrúnar. Hún hefur löngum verið talin í hópi ríkustu Íslendinga og hvarvetna vakið aðdáun. Hún hefur þó staðið vörð um sitt einkalíf og sjaldan gefið kost á viðtölum. En hver er hún þessi kona sem eitt sinn var útnefnd fegursta kona heims?

Jarphærð og hörundsbjört

Guðrún er fædd í Innri-Njarðvík árið 1942 en síðar fluttist fjölskylda hennar til Ytri-Njarðvíkur. Hún er dóttir hjónanna Sigríðar Stefánsdóttur og Bjarna Einarssonar skipasmíðameistara, sem nú eru bæði látin. Guðrún hafði snemma yndi af leiklist og tók gjarnan þátt í leiksýningum í Keflavík. Að loknu prófi frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur hélt hún til náms í enskum verslunarskóla og nam einnig við skóla fyrir sýningarstúlkur í Newcastle. Heim komin vann hún sem fyrirsæta í Reykjavík, en sinnti þó einkum störfum fyrir Skipasmíðastöðina í Njarðvík, annaðist bókhald og launaútreikning.

Guðrún var forsíðustúlka Vikunnar haustið 1961. Í blaðinu sagði að hún væri „hávaxin og mjög grönn vexti, jarphærð og hörundsbjört … Aðspurð sagðist Guðrún ekki umgangast Ameríkana af vellinum, enda þótt hún talaði vel ensku og væri í nábýli við þá. Hún sagðist ekki kunna við hugsunarhátt þeirra og ennþá sem komið væri tæki hún Íslendinga fram yfir aðra menn, sem hún hefði kynnst.“ Blaðamaður Vikunnar sagði svo: „Hafi hún þökk fyrir það.“

Hin íslenska fegurðardís var um tíma ein eftirsóttasta ljósmyndafyrirsæta heims.
Ljósmyndafyrirsæta heims Hin íslenska fegurðardís var um tíma ein eftirsóttasta ljósmyndafyrirsæta heims.

Á sundfötum í nepjunni

Guðrún tók þátt í keppninni Ungfrú Ísland árið 1962, en hún fór fram í Austurbæjarbíói og komu stúlkurnar að vanda fram í sundfötum og síðkjólum milli skemmtiatriða. Úrslit keppninnar voru tilkynnt síðar um kvöldið á skemmtistaðnum Glaumbæ við Fríkirkjuveg. Frá Austurbæjarbíói var stúlkunum ekið á flugvélatröppum merktum Loftleiðum sem dregnar voru eftir vörubíl niður Laugaveginn. Þar stóðu þær í nepjunni í sundfötunum einum saman og veifuðu til mannfjöldans.

Þegar komið var í Glaumbæ fengu þær að hlýja sér meðan myndarlegir piltar sýndu herratískuna undir stjórn Jóns Múla Árnasonar útvarpsmanns. Mikið var um dýrðir á skemmtistaðnum þetta kvöld og svo fór að Guðrún var krýnd fegurðardrottning Íslands. Dagblöðin voru uppfull af fréttum um keppnina næstu daga. Þar mátti meðal annars lesa líkamsmál Guðrúnar, sem vart þætti við hæfi nú til dags, en hún var 173 cm á hæð, með brjóstmál 90, mitti 60 og mjaðmir 91.

Keppnin á Langasandi

Eftir keppnina hér heima hélt hún fljótt til Danmerkur og þaðan lá leiðin til Parísar, þar sem hún freistaði gæfunnar sem fyrirsæta. Hún hóf brátt störf fyrir eina þekktustu módelskrifstofu borgarinnar. Framtíðin blasti við henni í fyrirsætuheimum þegar hún var beðin um að taka þátt í Ungfrú alheimi fyrir Íslands hönd, en keppendur voru alls 86 talsins þetta árið.

Hún kom, sá og sigraði í keppninni á Langasandi. Hlaut 10 þúsund dali í verðlaunafé, perlufesti og armbandsúr. Á þáverandi gengi jafngiltu 10 þúsund dalir um 430 þúsundum íslenskra króna. Fyrir þá upphæð mátti til dæmis fá nýja blokkaríbúð í Reykjavík. Meðal dómnefndarmanna voru Zsa Zsa Gabor og einn Bonanza-feðga.
Guðrún var afar undrandi yfir sigrinum, en hún áttaði sig ekki á því undireins að hún hefði unnið, þar sem sem hún þekkti ekki nafn sitt eins og stjórnandinn bar það fram. Hún sagðist aðspurð ekki hafa dottið í hug að hún myndi vinna. Hún væri ekki „týpan“ í það. „Ég hélt að ég væri alltof mögur,“ sagði hún.

Lifir fremur einföldu lífi þrátt fyrir ríkidæmi.
Heimskona Lifir fremur einföldu lífi þrátt fyrir ríkidæmi.

Grét ekki af gleði

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Guðrúnu: „Hvað ætlarðu að gera við alla þessa peninga sem þú færð núna? Hefurðu nokkurn tímann átt svona mikla peninga?“ Guðrún hló að spurningunni og sagði: „Ég hef ekkert hugsað um það.“ Hún hló mikið að spurningum blaðamannsins og sagði blaðamennina ytra alla spyrja um það sama, hver kærastinn hennar væri, hvernig henni líkaði í Ameríku og svo framvegis.

Guðrún grét er úrslitin voru tilkynnt. Heiðar Jónsson snyrtir er vinur Guðrúnar. Hann segir hana ekki hafa grátið af gleði. Hún hafi verið í sjokki. Sigrinum fylgdu þær skyldur að ferðast um heiminn og sinna ýmsum verkefnum, en Guðrúnu hugnaðist það alls ekki. Hún vildi helst af öllu komast aftur til Parísar og sinna fyrirsætustörfunum.
Í viðtali við Jónas heitinn Jónasson útvarpsmann árið 2006 orðaði Guðrún þetta svo: „Þetta kom mér virkilega á óvart því ég sá mig aldrei sem kynbombu, heldur sem fallega unga konu. Mér brá þegar ég sigraði og það var eins og ég fengi kjaftshögg.“ Hana hafði áður dreymt um að verða leikkona og eftir að hafa hlotnast titillinn alheimsfegurðardrottning var henni boðinn samningur í Hollywood sem hún afþakkaði og skýrði það svo í viðtalinu við Jónas: „Mér fannst þetta óþægilegt líf að vera svona fræg þannig að ég hætti við að verða leikkona. Mér bauðst sjö ára samningur án þess að hæfileikar mínir væru kannaðir, ég var aðeins falleg stúlka sem átti að fylla upp í partíin.“

Árið 1963 var Guðrún Bjarnadóttir kjörin Ungfrú alheimur.
Fegurst í heimi Árið 1963 var Guðrún Bjarnadóttir kjörin Ungfrú alheimur.

Ekkert „djamm“ og ekkert væl

Guðrún var á næstu árum ein eftirsóttasta ljósmyndafyrirsæta heims og starfaði fyrir umboðsskrifstofuna Dorian Leigh, en önnur íslensk fegurðardrottning vann á hennar vegum, María Guðmundsdóttir. Þriðja íslenska fegurðardrottningin, Thelma Ingvarsdóttir, gerði einnig garðinn frægan sem sýningarstúlka á þessum árum. Heiðar Jónsson fer svofelldum orðum um þær þrjár: „Eldra fólk í bransanum man eftir þessum þremur sem kunnu að vinna en voru ekki þeir vælukjóar sem margar þessara stelpna eru. Þær komu góðu spori á nafn íslenskra fyrirsæta því þær voru ekki með neitt rugl. Þær voru ekki að djamma og mættu ferskar og gátu starfað allan sólarhringinn án þess að væla.“

Guðrún giftist franska þingmanninum Massoubre, sem sat á þingi fyrir flokk gaulista og á með honum soninn Sigmar Aimery, en hann ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Njarðvík til ellefu ára aldurs. Þau Massoubre skildu eftir nokkurra ára hjónaband. Eftir að hún hætti sýningarstörfum giftist hún ítölskum kaupsýslumanni og fyrrverandi lyfjaframleiðanda, Basiano Bergese og bjuggu þau í Sviss. Bergese lést úr lungnakrabbameini árið 1990.

Sýndur sómi í heimabænum

Árið 2006 var Guðrúnu sýndur sá virðingarvottur í heimabæ sínum að fá „stjörnu“ á Hafnargötuna í Keflavík, en hún hefur verið trú sínum heimahögum þrátt fyrir að hafa verið langdvölum erlendis. Hún lifir frekar einföldu lífi þrátt fyrir mikið ríkidæmi og dvelst til skiptist í Genf og París, auk þess að eiga íbúð í Reykjavík.

Heiðar segir Guðrúnu „fallegustu fegurðardrottningu sem Ísland hafi alið af sér og þótt víðar væri leitað“. Hann segir hana mikla heimskonu og hafa til að bera „gífurlega visku um lífið og tilveruna og hún er afskaplega heil og spennandi kona“. Hún sé ein af þessum manneskjum „sem eru dálítið stærri en lífið sjálft“.

Heimildir: Brosað í gegnum tárin, Íslenskir auðmenn, viðtal í Kvöldgestum Jónasar 2006, Úttekt DV frá 2006 og umfjöllun blaðanna á sínum tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð

„Hawk Tuah“ stelpan segir að karlmenn séu bara á höttunum eftir einu þegar þeir senda henni skilaboð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Logi var tekinn af lærisveinunum – „Mér líður eins og kennara sem er stoltur af nemendum sínum“

Logi var tekinn af lærisveinunum – „Mér líður eins og kennara sem er stoltur af nemendum sínum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri

Shannon Doherty látin aðeins 53 ára að aldri
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heilabrot: Sú mynd sem þú sérð fyrst lýsir persónuleika þínum

Heilabrot: Sú mynd sem þú sérð fyrst lýsir persónuleika þínum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Býfluga fór illa með Hollywood-kyntáknið

Býfluga fór illa með Hollywood-kyntáknið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á