Gat borðað endalaust- Miklir fordómar frá ókunnugum
„Ókunnugt fólk lét oft eins og ég væri ósýnileg, jafnvel þó ég væri svo stór og mikil að ég fór alveg örugglega ekki fram hjá neinum,“ segir Birna Gylfadóttir sem var rúmlega 180 kíló þegar hún var hvað þyngst. Síðan þá hefur hún losað sig við 96 kíló og segir hún offitumeðferð á Reykjalundi og hjáveituaðgerð í kjölfarið hafa breytt lífi sínu. Útlitsmunurinn er sláandi en Birna segir engu síður algengt að eftir að hafa verið í yfirþyngd allt sitt líf sé erfitt að losna við það að vera „feitur í höfðinu.“ Þá segir hún mikinn mun á því viðhorfi sem hún mætir frá ókunnugu fólki eftir að hún léttist.
Birna man ekki eftir sér öðruvísi en feitri. „Mér skilst á mömmu að ég hafi verið tágrönn til sex ára aldurs og þá hafi ég byrjað að tútna út. Mér fannst ofboðslega gott að borða. Ég var algjörlega botnlaus. Fólk vill oft draga foreldrana til ábyrgðar hvað varðar offitu barna þeirra en málið er að ef barn vill fá mat þá nær það sér í mat. Það er svo einfalt.“
Hún segist hafa haldið átinu að mestu leyti út af fyrir sig. „Ég borðaði ekki það sama þegar ég var ein og þegar aðrir sáu til. Ég fékk mér kanski eitt rúnstykki og kókómjólk í hádeginu í skólanum en svo kom ég heim úr skólanum og var ein og þá tók við átveisla. Ég át lang mest þegar ég var ein. Ég var rosalega sólgin í gos og snakk og gat borðað endalaust af brauði. Sjálfstjórnin var nákvæmlega engin.“
Líkt og svo margir í yfirþyngd var Birna góð í að sýnast sjálfsörugg út á við. Hún var „fyndna feita stelpan.“ „Ég er reyndar mjög lífsglöð og kát að eðlisfari, en að auðvitað var þetta gríma að vissu leyti. Ég vissi að ég var ekki eins og hinar stelpurnar . Á fermingardaginum var ég svörtum víðum buxum og svartri mussu því það var það eina sem passaði á mig,“ segir hún. „Ég varð þó aldrei fyrir markvissu einelti í skólanum, enda átti ég mínar góðu vinkonur. Ég var líka góður leikari og gat blekkt fólk mikið og látið það halda að ég væri sjálfsörugg. Eflaust hafði það líka þau áhrif að ég var að mestu leytin látin í friði.“
Hún bætir við að hún hafi að vissu leyti lokað augunum fyrir ástandinu. „Ég steig ekki á vigt fyrr en í tíunda bekk, þegar það kom að því að fara í mælingu hjá skólahjúkrunarfræðingnum. Þá hugsaði ég: „Sjit, nú er komið að þessu,“ segir hún og rifjar upp áfallið sem hún fékk þegar að talan á vigtinni kom í ljós. 140 kíló. „Ég gekk út í einhverju móki,“ segir hún. „Ég er að vísu mjög hávaxin, 182 cm á hæð þannig að ég bar þyngdina þokkalega en fyrir vikið virkaði ég eflaust eins og hvalur.“
„Ég flutti að heiman 16 ára og þá versnaði þetta mikið. Þá gat ég nefnilega fengið að ráða algjörlega hvað ég borðaði og hvenær. Þetta var orðið algjör vítahringur. Ég þurfti sífellt að borða meira. Ég gat hesthúsað nokkrum samlokum í einu og samt liðið eins og ég hefði ekki verið búin að borða neitt.“
Hún segir að næstu árin hafi hún reynt við alla megrunarkúra sem fundnir hafa verið upp en ávallt sprungið á limminu. „Ég kanski byrjaði og hélt út einhverja daga. En þegar þú ert komin upp í svona svakalega háa tölu þá virðist þetta einhvern veginn bara tapað spil. Þess vegna gafst ég alltaf upp, þetta virtist vera algjörlega óyfirstíganlegt. Þetta er ekki eins og þeir sem þurfa bara að losa sig við 2 eða 3 kíló.“
Birna eignaðist son sinn 2005, 18 ára gömul. Þá var hún 160 kíló. Rúmlega ári síðar var hún orðin 180 kíló. „Ég kynntist manninum mínum 2009 og við erum gift í dag. Hann semsagt féll fyrir þessari feitu fyndnu týpu sem ég var þá,“ segir hún og hlær. Hún á tvö aðra syni, fædda 2010 og 2012. „Þegar ég gekk með yngsta strákinn missti ég einhver 9 kíló þar sem ég varð mjög veik í upphafi meðgöngunnar en en varð nú fljót að bæta þeim á mig aftur.“
Hún segist svo sannarlega hafa fundið fyrir fordómum vegna þyngdarinnar. „En það var alltaf af hálfu bláókunnugs fólks. Ég fór aldrei í sund. Þegar ég fór í fataverslanir kom afgreiðslufólkið aldrei til mín til að bjóða mér þjónustu. Núna í dag kemur það upp að mér um leið og ég geng inn. Á djamminu fékk maður líka að heyra athugasemdir eins og „Hey, Keikó er kominn!“
Birna kveðst hafa fengið nóg af ástandinu árið 2010. „Ég fór ég til heimilislæknisins míns og hann kom áleiðis beiðni upp á Reykjalund svo ég kæmist í offitumeðferð. Ég var ákveðin í að fara í hjáveituaðgerð. Þá tók við tveggja ára bið og fjölskyldan mín getur svo sannarlega vottað um að þessi tvö ár kostuðu blóð, svita og tár. Þú þarft að sýna mikinn viljastyrk og árangur til að komast inn í prógrammið enda þurfti ég að léttast um ákveðin mörg kíló. En þarna sá ég í fyrsta sinn einhverja von um hjálp. Reykjalundur bjargaði mér svo sannarlega,“ segir hún en hún komst loks í meðferðina árið 2012. „Þetta er nokkurs konar megrunarskóli og þú þarft að sýna virkilegan metnað og árangur ef þú vilt komast í þessa aðgerð. Andstætt við það sem margir halda þá er það ekki „easy way out“ að fara í þessa aðgerð. Þú þarft að vinna fyrir því, það er engin spurning.“
Aðgerðin var í nóvember 2012. „Eftir það var ég eins og ungabarn sem þurfti að læra að borða. Ég átti níu mánaða strák á þessum tíma og var svo heppin að foreldrar mínu gátu hjálpað mér með hann á meðan ég var jafna mig.“ Hún segir hjáveituaðgerð vera gríðarlegt inngrip í starfsemi líkamans. „Það má segja að maginn fari úr því að vera á stærð við körfubolta yfir í að vera á stærð við egg. Ég gleymi því ekki þegar ég fann fyrst fyrir áhrifunum. Ég hafði eldað mér tómatsúpu, tók tvær skeiðar og lá gjörsamlega á meltunni. Þetta eru gífurleg breyting fyrir líkamann.“
Hún segist hafa lést langmest í byrjun. „Á innan við ári var ég komin niður fyrir 100 kíló. Ég man alltaf þegar að vigtin sýndi 99,8 kíló. Ég hoppaði hæð mína af gleði. Ég hafði ekki séð þessa tölu síðan ég var barn. Markmiðið var fyrst að léttast nóg til að falla í hópinn, enda hafði ég aldrei þekkt annað en að vera sver og mikil. Þegar var orðin 90 kíló man ég að ég sá mynd af mér og hugsaði að ég væri nú bara nokkuð flott.“
„Það er samt merkilegt hvað ég er ennþá „feit í huganum“ ef það má orða það þannig. Ég hafði auðvitað aldrei þekkt annað en að vera feit. Það er annað með þá sem eru til dæmis grannir fram að tvítugu og byrja svo að fitna. Þeir þekkja það að vera grannir. Það er eins og hugurinn fylgi ekki alltaf með þó að kílóin hrynji af manni. Ennþá í dag er hausinn á mér ekki kominn á þennan stað. Ég stend mig til dæmis ennþá af því að taka stærstu númerin af fataslánni.“
Hún gerði mikilvæga uppgvötvun í ferlinu; það er þunn lína á milli offitu og anorexíu. „Ég var lengi vel, 88 kíló en fyrir nokkrum mánuðum veiktist ég og var ég komin niður í 80 kíló, verandi mjög stórbeinótt. Þarna var ég komin niður fyrir það sem ég átti að vera, ég var hreinlega orðin kinnfiskasogin. Það var ákveðið „wake up call“ fyrir mig. Ég veit þar af leiðandi bæði hvað það er að vera vanmáttug af vannæringu og hvað það er að vera að drepa sig úr offitu. Það er dálítið sérstakt að hafa upplifað báðar þessar hliðar,“ segir hún en hún er nú rúm 84 kíló og kveðst sátt með þá tölu.
Hún segist sitja uppi með mikla aukahúð og það sé það neikvæða við þetta allt saman. „Það mun taka tíma að læra að sætta sig við það, sem og öll slitin á líkamanum. Það er ekki langt síðan ég byrjaði að geta sagt „þakka þér fyrir“ þegar fólk hrósaði mér fyrir útlitsbreytinguna.“
Henni líður vel í dag og lítur björtum augum á framtíðina. „Stærsta breytingin er sú að ég þarf ekki lengur að troða í mig. Ég finn þegar ég er komin með nóg. Ég finn að ég þarf ekki meira og það er bara algjörlega magnað.“