Það var blótað eins og í eftirpartýi á sjómannadeginum í forkeppni RÚV fyrir Eurovison í gærkvöldi
Það var blótað eins og í eftirpartýi á sjómannadeginum í forkeppni RÚV fyrir Eurovison í gærkvöldi og hætt við að fjölmargir foreldrar hafi lagt hendur sínar yfir eyru barnanna þegar sænska tónlistarkonan Loreen sagði í viðtali við Ragnhildi Steinunni og Gunnu Dís að hún hefði sungið „fokkin“ berfætt í Eurovison.
Það kom þó líklega flestum foreldrum í opna skjöldu þegar Ragnhildur brá fyrir sig blótsyrðum sem ættu kannski best heima í Quentin Tarantino kvikmynd á milli blóðugra uppgjöra.
Þannig spurði Ragnhildur, sem er að öllu jöfnu álitin prúð og góð sjónvarpskona, söngkonuna mikilvægustu spurninguna, sem er; hvernig sigrar maður eiginlega Eurovison.
Ragnhildur orðaði spurninguna raunar aðeins öðruvísi.
„What do you need to do to fucking win this shit?“
Loreen var með svarið á reiðum höndum, þó foreldrar hafi líklega kviðið að heyra svarið. Sem var (í grófri þýðingu): „Þér verður bara að vera fokking sama um þessa keppni.“
Loreen bað raunar foreldra afsökunar á óhefluðu tungutaki sínu, þó eftir allt blótið.
Við þetta má bæta að það var Greta Salóme Stefánsdóttir sem sigraði í undankeppninni í gær með lag sitt, Raddirnar.