Fjölmargir keppenda fyrir hönd Íslands síðustu 30 ár stigu á svið og fluttu brot úr lögum sínum. Líkt og alþjóð veit nú fagnaði Greta Salóme og stuðningsmenn hennar sigri og fer hún í annað sinn fyrir okkar hönd í keppnina.
En ekki voru allir sáttir í kvöld.Ríkisútvarpið fagnaði 30 ára afmæli þátttöku Íslendinga í keppninni og var fjölmörgum eldri flytjendum boðið til að fagna áfanganum. Lagahöfundurinn Örlygur Smári var ekki sáttur við framkomu Ríkisútvarpsins og segir að stjórnendur hafi ekki séð ástæðu til að bjóða höfundum framlaga Íslands í Eurovision til að fagna áfanganum. Örlygur segir á Facebook:
„Það hefur sem sagt lítið breyst á þessum 15 árum, nema að ég hef núna samið fjögur framlög Íslands til Eurovision….kannski alveg meira en nóg!!!“
Segir Örlygur það vanþakkláta vinnu að vera lagahöfundur.
„Það hefði verið gaman að fá að finna fyrir því frá RÚV að innlegg okkar höfundanna væri metið að verðleikum og okkur, höfundum framlaga Íslands í Eurovision, boðið að fagna áfanganum með vinum og frábæru samstarfsfólki í Laugardalshöll í kvöld,“
sagði Örlygur að lokum og ákvað að fylgjast með keppninni í sjónvarpinu. „Jæja nóg um þetta, það eru stærri vandamál í veröldinni. Góða skemmtun og megi besta lagið vinna.“