Segir trúleysingja verða fyrir stöðugum áróðri -Báðar fullyrðingar eiga rétt á sér
„Ég hef enga sérstaka þörf fyrir að aftrúa aðra eða troða mínum hugmyndum uppá aðra, hvaðþá annarra manna börn. En maður hlýtur að mega tjá sig um þessa hluti,“ segir Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri og dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá 365 miðlum en hann segir trúleysingja verða fyrir sífelldum trúaráróðri á hverjum degi. Hann gagnrýnir því ummæli Þóris Stephensen dómkirkjuprests og staðarhaldara í Viðey sem kveðst vera orðinn „hundleiður á sífelldum og algerlega órökstuddum yfirlýsingum í Fréttablaðinu og fleiri miðlum, að það sé enginn Guð.“ DV.is birti fyrr í morgun frétt um að Kári Stefánsson, stofnandi DeCode hefði meðal annars sagt við fréttamenn NBC: „Það er enginn Guð, það er bara DNA.“
Jón hefur áður tjáð sig um trúarafstöðu sína og ritaði til að mynda pistil í Fréttablaðið árið 2011 þar sem hann sagði frá misheppnaðri leit sem leiddi hann til guðleysis. „Ekkert bendir til að guð sé til og sé hann til þá stendur hann ekki undir nafni sem kærleiksríkur guð. Eiginlega þvert á móti. Fólk hefur hins vegar rétt á að trúa á hvaða guð sem er svo framarlega sem það heldur því fyrir sig,“ ritaði Jón í umræddum pistli.
Jón birtir færslu á fésbók fyrr í dag og vísar þar í ummrædd ummæli Þóris. Jón segist vera einn af þeim sem hafa haldið því fram að enginn guð sé til. „Ég hef þó lagt áherslu á að engum hefur tekist með fullnægjandi hætti að sanna eða afsanna hugsanlega tilvist þessa fyrirbæris. Það er því persónuleg ákvörðun hvers einstaklings að mynda sér afstöðu, fólk velur að trúa eða trúa ekki og ætti að hafa fullt leyfi til þess.“
Jón segist jafnframt hafa bent á það að þar sem ekkert sé vitað með vissu um Guð og jafnvel mjög skiptar skoðanir á því hvað það sé þá sé réttast að fara varlega í að að alhæfa um eðli fyrirbærisins. Það sé aftur á móti gert, skipulega og endurtekið, af þeim sem velja að trúa á guð. „Fullyrðingum einsog „Guð er til, Jesú er raunverulegur, Jesú er besti vinur þinn, Guð elskar þig“ og svo framegis er stanslaust haldið fram. Þetta setur okkur sem höfum ekki trú á neinn guð í sérstaka og oft óþægilega stöðu. Hreinlega ósanngjarna. Mér finnst fullyrðing „Guð er ekki til“ eiga jafn mikinn rétt á sér og fullyrðingin „Guð er til.“ Í rauninni eru báðar jafn rangar og jafn réttar.“
Hann ítrekar að margir trúleysingar séu orðnir pirraðir á staslausum áróðri sem dynji á þeim og börnum þeirra. „Það er ekki bara í Fréttablaðinu, heldur sjónvarpinu, barnatímanum, útvarpinu, á mannamótum og í skólastarfi. Jafnvel útá götu sér ókunnugt fólk ástæðu til að tala um guð við börn og jafnvel gefa þeim bæklinga eða glingur,“ segir hann og tekur fram að hann trúi ekki á neinn guð.
„Ég hef enga sérstaka þörf fyrir að aftrúa aðra eða troða mínum hugmyndum uppá aðra, hvað þá annarra manna börn. En maður hlýtur að mega tjá sig um þessa hluti. Mér líður oft einsog ég sé einhver sem reyni að skjóta inn orði og orði við blaðrara, sem blaðrar útí eitt en verður pirraður á mér fyrir að vera ekki sammála sér og kallar mig blaðrara.“