Stórstjörnur mættu á BAFTA
BAFTA-verðlaunin voru afhent í Royal Opera House í London síðastliðið sunnudagskvöld að viðstöddum stórstjörnum sem margar höfðu komið langa leið. The Revenant var ótvíræður sigurvegari kvöldsins eins og fyrirfram hafði verið veðjað á. Myndin hlaut fimm verðlaun, var valin besta myndin, Alejandro Inarritu hlaut verðlaun fyrir leikstjórn, Leonardo DiCaprio var valinn besti karlleikarinn og auk þess fékk myndin verðlaun fyrir hljóðupptöku og kvikmyndatöku. DiCaprio var gríðarlega vel fagnað þegar tilkynnt var um sigur hans. Ræða hans, þar sem hann hyllti móður sína, var mjög líklega besta ræða kvöldsins.
Brie Larson var valin besta leikkonan fyrir leik sinn í The Room. Besti aukaleikari var Mark Rylance í Bridge of Spies og Kate Winslet var valin besta aukaleikkona fyrir frammistöðu sína í Steve Jobs. DiCaprio og Larson þykja líkleg til að hreppa Óskarsverðlaun í ár og þar veðja menn sömuleiðis á að The Revenant verði valin besta kvikmyndin.
Jóhann Jóhansson var tilnefndur til BAFTA fyrir tónlist sína við Sicario en snillingurinn Ennio Morricone hreppti tónlistarverðlaunin fyrir The Hateful Eight.