fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Birgir sofnaði áfengisdauða úti í 15 stiga gaddi: „Ég fraus þarna í hel“

Litlu munaði að hann missti hendurnar – Komst lífs af úr gríðarlegri óreglu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 14. febrúar 2016 08:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Axelsson er á góðum stað í lífinu. Hann rekur eigið fyrirtæki og er eftirsóttur í ýmiss konar skapandi verkefni í garðyrkjubransanum. Hann á tvö heimili og son sem hann sinnir af alúð. Þess á milli þeysist hann um á mótorhjóli víða um jarðir. Ragnheiður Eiríksdóttir blaðamaður heimsótti Birgi í hellinn hans í Hafnarfirðinum. Þar eru mótorhjól, og græjur uppi um alla veggi og mildur smurolíukeimur í loftinu. Margt bar á góma, þar á meðal áfengisneysla, sjálfsvígshugsanir og leiðin til nýs lífs.

Biggi tekur brosandi á móti mér og gefur mér mjúkt knús. Hann er nýkominn frá Los Angeles þar sem hann eyddi þremur vikum í janúarsólinni með mótorhjólavinum sínum. „Það er fínt að komast aðeins í burtu svona yfir myrkasta veturinn. Í garðyrkjunni er minna að gera þessa köldu mánuði, svo ferðalög eru tilvalin.“

Hann flakkar á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, býr á báðum stöðum. Í Keflavík býr hann í fallegri og einstaklega snyrtilegri kjallaraíbúð í gömlu timburhúsi sem hann gerði upp fyrir nokkrum árum. Leigjendur búa á efri hæðunum. Í Hafnarfirði á hann sér „mancave“, iðnaðarhúsnæði sem er sannkallaður griðastaður mótorhjólamannsins. Í Keflavík eru kertaljós, fallegar flísar og vel sópað ljóst parket. Hér í Hafnarfirði er hrátt steingólf, leður, mótorhjól og munir á veggjum sem Biggi hefur sankað að sér í gegnum árin. Ég tek upp litla öskju og opna hana, enda forvitin kona. Ofan í henni er gullpeningur með merki frímúrara. Ég spyr hvort hann sé meðlimur. Hann neitar og hlær: „Lestu það sem er þarna ofan í.“ Á miða í öskjunni stendur að peningurinn sé hannaður af Birgi Axelssyni. „Maður tekur sér ýmislegt fyrir hendur, sko.“ Hann er nefnilega skrambi listrænn og teiknaði meðal annars meirihluta húðflúrsins sjálfur.

„Hvar á ég eiginlega að byrja?“ spyr hann mig. Tja, bara á byrjuninni. Hvernig var æskan?

Biggi ólst upp hjá móður sinni og fósturföður. Fjölskyldan bjó fyrstu árin á Akureyri, en þegar Biggi var níu ára fluttu þau í Garðabæ. „Ég átti yndislega æsku og marga góða vini. Fjölskyldulífið var að mestu rólegt, það var engin sýnileg óregla, en líklega var þó eitthvað að. Ég veit ekki til þess að einhver hafi átt við alkóhólisma að stríða í fjölskyldunni, að minnsta kosti ekki þá. Framtíðin var björt og engan óraði fyrir því sem átti eftir að gerast í lífi mínu.“

„Bílveltan var áfall og ég vildi flýja raunveruleikann.“

Flótti frá raunveruleikanum

„Ég byrjaði að drekka á unglingsárunum, 13 eða 14 ára. Við stálum víni og drukkum mikið í einu, en ekki svo oft. Á þessum árum var ég á fullu í íþróttum, ég var í U20 landsliðinu í blaki og varð Íslandsmeistari mörg ár í röð í þessum aldursflokkum. Ég var líka mjög fær í golfi og keppti í því.“ Hann segist ekki muna til þess að hafa orðið sérstaklega hrifinn af áfengi fyrst um sinn. „Það kom seinna. Eitt atvik var kannski lykilatriði. Ég var nýkominn með bílpróf, 17 ára gamall, og foreldrar mínir voru staddir erlendis þegar ég velti bílnum þeirra og gjöreyðilagði hann á Reykjanesbrautinni. Ég var beltislaus og endaði aftur í og þurfti að skríða út um afturgluggann. Þetta gerðist um nótt og ég var bláedrú. Ég slapp stráheill út úr þessu, en í kjölfarið drakk ég í fyrsta skipti án þess að vera að skemmta mér. Bílveltan var áfall og ég vildi flýja raunveruleikann.“

Upp frá þessu stigmagnaðist mikilvægi áfengis í lífi Bigga. „Það var alltaf tilefni til að drekka. Ég drakk vegna sorga og vegna gleði, það var alltaf ástæða til að fá sér í glas. Fljótlega fór ég ekki einu sinni edrú í bíó. Upp úr þessu hætti ég í framhaldsskóla því ég varð að vinna mér inn pening til að geta haldið þessu áfram.“

Í kringum tvítugt var Biggi ekki lengur velkominn heima. Hann hafði verið duglegur að vinna þrátt fyrir drykkjutúra sem vörðu upp í þrjár vikur, og keypti íbúð í miðbæ Reykjavíkur. „Á Grundarstígnum byrjaði partíið fyrir alvöru. Þarna var loksins kominn staður fyrir mig og félagana til að hanga og drekka. Ég fiktaði eitthvað við eiturlyf, en þau heilluðu mig aldrei og höfðu ekki sömu áhrif á mig og vínið.“

Andvaka eða drekkandi

Á þessum tíma fór að bera á miklum svefntruflunum hjá Bigga. „Ég var í stífri vinnu frá klukkan sex á morgnana til tíu á kvöldin, og þær nætur sem ég drakk ekki lá ég að mestu andvaka. Þetta gekk í einhverja mánuði en að lokum endaði ég í minni fyrstu innlögn á geðdeild. Ég hafði reyndar sótt áfengis-göngudeild í aðdragandanum og fengið lyf við hinu og þessu. Þar kynntist ég rónum sem gáfu mér alls konar sniðuga punkta um það hvað ég þyrfti að segja til að fá bestu töflurnar. Læknarnir sögðu mér að það væri allt í lagi að drekka, bara ekki mikið. Ég blandaði auðvitað öllu saman og upplifði algjört hrun í kjölfarið. Ég man eftir því að hafa starað á vegg, tárin runnu og sjálfsvígshugsanir voru stöðugar án þess að ég vissi af hverju.“

„Ég man eftir því að hafa starað á vegg, tárin runnu og sjálfsvígshugsanir voru stöðugar án þess að ég vissi af hverju.“

Geðdeild og fordómar

Biggi dvaldi fyrst á geðdeild árið 1999 og segir að fordómar hafi verið talsverðir, bæði hjá honum sjálfum og öðrum. „Sjúkdómshugtakið varðandi alkóhólismann var einhvern veginn ekki komið á hreint. Það var alltaf verið að spá í það hver ástæðan væri fyrir drykkjunni. Eftir tvær eða þrjár vikur á geðdeildinni datt einhverjum lækninum í hug að ég gæti verið alki og stakk upp á að ég færi í meðferð.“

Það varð úr að hann fór í sína fyrstu meðferð á Teigi og í kjölfarið dvaldi hann þrjá mánuði á áfangaheimili á Akureyri. „Ég gerði mér samt grein fyrir því að ég væri alls ekki að fara að hætta að drekka á þessari stundu. Um leið og ég kom aftur í borgina edrú, náði spennan tökum á mér. Mig sveið í magann, réð illa við mig, gerði kjánalega hluti og var klaufalegur í samskiptum.“ Hvernig þá? spyr ég. „Þú veist hvernig óöruggt fólk lýsir líðan sinni áður en það heldur ræðu. Mér leið stöðugt þannig.“

Allt fór í sama farið og næstu þrjú ár liðu án stórvægilegra viðburða. Biggi drakk um helgar og náði að halda lífinu í þokkalegum farvegi – borgaði reikninga og vann sína vinnu. Hann skoðaði heiminn, vann og skemmti sér í útlöndum og lifði ágætis lífi. Í lok 2002 langaði hann að fullorðnast og ákvað að trúlofa sig hið snarasta. „Reyndar var ég fullur þegar ég gerði það, svo það var kannski ekki svo góð hugmynd. Kærastan var yndisleg hestastelpa, mjög reglusöm og drakk ekkert af viti. Ég drakk hins vegar stíft. Datt í það á föstudagskvöldi, vaknaði, fékk mér alltaf afréttara og náði stundum aukafylleríi á laugardagsmorgni. Kærastan lá sofandi uppi í rúmi. Svo lagði ég mig til að komast aftur af stað um kvöldið.“

Árið 2003 lenti Biggi í grófu ofbeldisatviki sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf hans. „Í kjölfarið fór drykkjan að aukast. Ég lokaði augunum fyrir því sem hafði gerst og gróf allar tilfinningar sem því tengdust. Ég varð fjarlægur og lokaði á fólk sem ég tengdist. Það var mjög erfitt að horfast í augu við þetta. Lífið hélt samt áfram og ég lét sem þetta hefði ekki gerst.“

Viskí í morgunmat

Biggi var þrátt fyrir allt í mjög góðri vinnu. „Ég var aldrei veikur og tók endalausar aukavaktir.“ Þegar hann fékk stöðuhækkun missti hann tökin aftur. „Ég var mjög glaður vegna þess að mér var sýnt traust. Ég átti að byrja í nýja starfinu á mánudegi og datt í það um helgina eins og venjan var – eðlilegt munstur á þessum tíma. Mánudagsmorguninn var líka ósköp venjulegur. Ég fór í sturtu, hellti upp á kaffi en einhverra hluta vegna fannst mér góð hugmynd að fá mér smá viskíslettu út í kaffið. Ég vaknaði svo seinnipartinn úr blakkáti, búinn að drekka eina og hálfa viskíflösku og vissi ekkert hvað hafði gerst – bara að ég væri búinn að klúðra hlutunum. Kvíðinn blossaði upp, starfið var farið og ég dró gluggatjöldin fyrir og slökkti á símanum.“

Biggi drakk samfellt í tvær vikur og borðaði varla á meðan. „Þegar ég loksins náði einhverjum áttum bauðst mér að halda áfram að vinna í fyrirtækinu gegn því að ég færi í meðferð. Þetta var um áramótin 2003/2004 og ég fór á Vog og Staðarfell. Fyrst sleit ég trúlofuninni – það var hárrétt, enda hafði ég mjög slæm áhrif á líf kærustunnar. Ég hélt út í mánuð.“ Biggi vissi að hann væri búinn með sénsinn sem hann fengi í vinnunni, kærastan var flutt út og ekkert lá fyrir nema áframhaldandi drykkja.

„Ég man eftir því að hafa starað á vegg, tárin runnu og sjálfsvígshugsanir voru stöðugar án þess að ég vissi af hverju.“

Kvöldið sem Biggi dó

Föstudagskvöld um miðjan febrúar árið 2004 varð örlagaríkt, en það kvöld dó Biggi. „Þetta var bara ágætur dagur. Ég fór út að djamma og um nóttina ætlaði ég að ganga heim til mín á Grundarstíginn en man ekki eftir að hafa komist á leiðarenda.“ Biggi vaknaði hins vegar á Gjörgæsludeild Landspítalans, allur í snúrum og slöngum, tengdur í pípandi tæki.

„Ég hafði verið lífgaður við og fékk að vita að ég hefði fundist úti í 15 stiga frosti. Ég hafði greinilega komist heim, en ákveðið að fara aftur út á nærfötunum. Ég fraus þarna í hel, hér um bil, og endaði þannig á gjörgæslunni. Ég man eftir að horfa á hendurnar og sjá þar eitthvað sem líktist kolsvörtum banönum. Það voru fingurnir, illa kalnir. Í fyrstu var ráðgert að taka af mér að minnsta kosti átta fingur, en fyrir eitthvert kraftaverk kom læknir á vakt, sem taldi að hægt væri að bjarga höndunum. Það er ekki á hverjum degi sem svona kal sést á manni sem er á lífi. Í staðinn fór ég í aðgerð þar sem dautt hold var fjarlægt, og átti í kjölfarið að fara í litla aðgerð tvisvar á dag. Sársaukinn var hryllilegur en ég hugsaði um það eitt að komast heim til að geta byrjað að drekka aftur, enda var bara laugardagsmorgunn.“

Áfram með partíið

Móður Bigga leist að vonum ekki á að hann færi heim, enda líkur á að hann missti hendurnar, og úr varð að geðlæknir mat hann með tilliti til nauðungarvistunar. „Það var fullkomlega eðlilegt að maður sem stóð frammi fyrir því að missa hendurnar staldraði aðeins við á sjúkrahúsi. En mér fannst það ekki. Þetta var auðveldur leikur og ég var með skýr markmið – að komast heim til að halda partíinu gangandi.“

Bigga var skutlað heim, skólausum í gallabuxum og með umbúðir á báðum höndum. „Ég var nú hálftættur en lét samt eins og ekkert væri eðlilegra. Ég vildi bara vera einn en var algjörlega ósjálfbjarga. Það var til dæmis mjög mikil kúnst að opna vínflösku án handa, og kveikja í sígarettu. Þetta hafðist þó og þarna sat ég og drakk, tæplega sólarhring eftir að ég fannst líflaus og frosinn. Seinnipartinn var ég kominn í mikinn partígír en það var ekki nokkur leið að klæða sig með umbúðir á báðum höndum. Mér fannst eðlilegast í stöðunni að sparka í hurðina hjá nágrannanum og fá hann yfir til að klæða mig í sparifötin. Svo dreif ég mig niður á Nelly’s þar sem djamm kvöldsins byrjaði.“

Þar sat Biggi og sötraði bjór í gegnum rör þegar fyllibytta af götum borgarinnar kom og spurði hann hvað hefði gerst. „Ég sagði honum alla söguna og hann horfði á mig alvarlegur á svip og sagði mér að ég ætti við verulegt vandamál að stríða. Aðra eins vitleysu hafði ég ekki heyrt. Ég var þarna flottur í jakkafötum, reyndar með jakkann á öxlunum því ég komst ekki í hann fyrir umbúðum, og jú, drekkandi bjór með röri. Það var hann sem var róninn, ekki ég.“

„Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær drykkjan dræpi mig.“

Hætta eða drepast

Þegar þarna var komið var engin leið til að ná stjórn á drykkjunni. „Það var ekki spurning um hvort heldur hvenær drykkjan dræpi mig. Ég fékk í fyrsta sinn delerium tremens síðla árs 2004 og endaði í kjölfarið inni á geðdeild.“ Innlagnirnar urðu allnokkrar á þessu tímabili og það tók Bigga ár að jafna sig í höndunum eftir kalið.

Árið 2005 varð hann heimilislaus. „Það er hræðilegt að eiga engan samastað. Ef ég var edrú fékk ég stundum að gista hjá mömmu. Ég vann eitthvað úti á landi og fékk þar húsaskjól, bjó á gistiheimilum og leitaði uppi partí þar sem ég gat djammað og gist. Lífið fór að snúast um að finna stað fyrir hverja nótt. Þessu fylgdi mikill ótti. Í nokkur skipti vaknaði ég upp í litlum kofa í bakgarði á Hverfisgötunni og ég gisti oft í ógeðslegum kompum úti um allan bæ. Ég náði kannski ekki rónastatus, fór í sturtu og reyndi að vera vel til fara. Ég reyndi líka að halda tengslum við fólk í lífi mínu og mætti jafnvel stundum í fjölskylduboð. En ég veit svo sem ekki hvernig aðrir sáu mig á þessu tímabili. Þetta er líklega ástæðan fyrir því að ég á það sem ég á í dag. Ég get ekki hugsað mér að leigja og vil eiga mitt – það er hryllilegt að eiga ekki heimili.“

Á tímabili snerist hver dagur um það hjá Birgi að finna sér næturstað.
Átti ekki heimili Á tímabili snerist hver dagur um það hjá Birgi að finna sér næturstað.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Lausn á húsnæðisvanda

Biggi hafði kynnst garðyrkjuvinnu sem unglingur og ákvað að sækja um garðyrkjunám í Landbúnaðarháskólanum á Reykjum í Ölfusi þegar hann sá auglýst að þar væri heimavist. Snjöll leið til að leysa húsnæðisvandann. „Ég hafði aldurinn og starfsreynslu þó að ég væri ekki með menntunargrunninn sem var krafist. En ég komst inn í skólann og flutti í Hveragerði með algjöra glansmynd í huganum um hvernig það væri að búa á heimavist. Það kom strax í ljós að námið átti mjög vel við mig, bæði verklega og bóklega.

Ég drakk samt mikið – oftast einn inni á herbergi og gerði það sem ég þurfti til að komast í gegnum námið. Eftir fyrsta árið fékk ég að búa áfram á heimavistinni yfir sumarið, ég átti ekkert annað heimili. Og áfram drakk ég og tremmaköstin urðu tíðari. Í einni innlögninni á geðdeild fékk ég þær fréttir að ég væri kominn með skorpulifur á byrjunarstigi og hættur að geta unnið næringu almennilega úr fæðunni. Ég var þarna í nokkrar vikur til að tjasla mér saman en fór strax að drekka þegar ég kom út.“

Biggi sneri aftur í skólann og var fullur fyrstu dagana. Hann vakti og drakk fjóra tíma í einu og svaf í tvo til þrjá tíma inni á milli. „Daginn byrjaði ég á að taka sopa af viskíi eða vodka til að geta ælt og komið meiru ofan í mig. Allir í skólanum vissu hvernig í málum lá og ég var búinn að fá viðvaranir úr öllum áttum. Ég fór inn á Vog í tíu daga og kom aftur í skólann, lokaði mig inni á herbergi og drakk. Ég fór á stjá eftir að allir voru farnir, þorði ekki að horfast í augu við neinn og var uppfullur af skömm.“

Í lok september var Biggi beðinn um að taka hafurtask sitt og yfirgefa skólann. „Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera, var 29 ára gamall á leiðinni á götuna aftur, sem var minn mesti ótti. Ég var gjörsamlega búinn að klúðra öllu.“ Morguninn 3. október 2007 opnaði Biggi augun og starði á hálfa vodkaflösku sem hann átti. „Ég sá þessa flösku og vissi að þetta væri búið. Ég stóð upp og hellti víninu niður og yfirgaf skólann.“ Leiðin lá til Keflavíkur þar sem Biggi fékk inni hjá föður sínum og tók út skelfilegt fráhvarf. Hann var við það að gefast upp, en komst í meðferð í Hlaðgerðarkoti hálfum mánuði síðar, og dvaldi þar í fjóra mánuði.

„Lífið fór að snúast um að finna stað fyrir hverja nótt. Þessu fylgdi mikill ótti.“

Föðurmissir og frelsi

Biggi ákvað að flytja til Keflavíkur þar sem föðurfjölskylda hans bjó. Hann leigði íbúð og fékk verknámssamning í garðyrkju. Það var bjartara framundan og Biggi var edrú. Hann ræddi við skólayfirvöld og fékk að byrja þar aftur 2009. Þetta var stórt skref. „Enginn bjóst við því að sjá mig þarna aftur. Enda hafði ástandið á mér verið hörmulegt.“

Axel, faðir Bigga, veiktist af krabbameini sem dró hann til dauða þetta sumar. „Við vorum búnir að ná góðum tíma saman og byggja upp samband eftir að ég hafði verið týndur öll þessi ár. Þegar ljóst var hvert stefndi hafði ég áhyggjur af því hvernig dauði pabba mundi fara með mig – hvort ég gæti verið edrú. Ég hélt í höndina á honum þegar hann dó í sjúkrarúminu og þegar það gerðist upplifði ég í fyrsta sinn fullkomið frelsi. Það var ekkert annað sem skipti máli, stundin var friðsæl og áfengið togaði ekki í mig. Það var undarlegt að kveðja pabba sem mér þótti óendanlega vænt um og upplifa líka þetta frelsi. Fyrst þessi erfiði missir kveikti ekki löngun í vín innra með mér vissi ég að annað myndi ekki hafa áhrif á mig.“

Eftir að Biggi missti föður sinn fann hann nýja ástríðu í lífinu, mótorhjólin. „Ég erfði Harley Davidson-mótorhjól pabba og náði mér í mótorhjólapróf. Ég hafði verið sneyddur áhugamálum í gegnum árin vegna fyllerís, en þarna kom eitthvað sem hjálpaði mér að takast á við að vera edrú. Það er vonlaust að standa í þessu eða hafa efni á svona sporti sem fyllibytta. Þetta varð líka ákveðin tenging við pabba.“ Mótorhjólið var áhugamál, en Biggi vildi meira og gerði það að lífsstíl sínum. „Ég lifi og hrærist í þessu. Í dag á ég góða vini og nánast aukafjölskyldu sem deilir þessu áhugamáli með mér. Það hefur gefið mér nýja dýpt í lífið og tilgang. Árlega förum við saman hringveginn og hittumst oft þess á milli til að dytta að og hugsa um hjólin okkar.“

Biggi er orðinn frjáls frá áfenginu og notar hendurnar sem hann missti næstum til að skapa mannvirki sem fegra umhverfið.
Lífið er byrjað Biggi er orðinn frjáls frá áfenginu og notar hendurnar sem hann missti næstum til að skapa mannvirki sem fegra umhverfið.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Námið gekk vel og Biggi útskrifaðist með fyrstu einkunn vorið 2010. Hann tók sveinspróf og meistararéttindi í meistaraskólanum. „Þetta var ágætis endurkoma. Ég fékk heiðursverðlaun forseta Íslands fyrir verkefnið mitt í sveinsprófinu og það leið ekki á löngu áður en ég fór að kenna við Garðyrkjuskólann. Svo kviknaði áhugi minn á grjóthleðslu og ég fann hvað það var gott að skapa eitthvað með höndunum, sem ég hafði næstum misst. Það er líka fátt jafn karlmannlegt og að vera einhvers staðar uppi á fjalli að brjóta grjót.“

Allt komið en eitthvað vantaði

Hvað með konur? spyr ég.

„Ég byrjaði í sambúð 2011. Vann eins og brjálæðingur, enda var ég heppinn að geta unnið eftir hrun. Í febrúar 2012 stofnaði ég fyrirtæki, keypti hús og eignaðist barn. Þegar Adrían fæddist upplifði ég nákvæmlega sömu tilfinningu og þegar pabbi dó. Þessir tveir atburðir voru algjörar andstæður, en vöktu þó sömu tilfinningar. Ég upplifði að það var ekkert annað sem skipti máli – ekkert utanaðkomandi gat haft áhrif á mig – ég var frjáls. Mér fannst líf mitt vera að hefjast fyrir alvöru.“ Þarna var hann kominn með allt sem hann hafði stefnt að, fjölskyldu, flott hús, fyrirtæki og menn í vinnu. „Þetta var allt sem ég vildi. Samt var eitthvað að. Mér leið ekki vel á morgnana og fannst eins og eitthvað vantaði.“

„Ég hélt í höndina á honum þegar hann dó í sjúkrarúminu og þegar það gerðist upplifði ég í fyrsta sinn fullkomið frelsi.“

Besta barnsmóðir í heimi

Árið 2013 slitnaði upp úr sambandinu. Barnsmóðir Bigga flutti út með son þeirra. „Við deilum forræði og ég á bestu barnsmóður í heimi. Til að byrja með var þetta þó mikil barátta. Adrían grét mikið þegar hann kom til mín og var feginn að fara aftur til mömmu sinnar. Ég hafði unnið svo mikið að ég þekkti hann kannski ekki nógu vel. Ég bjó einn í stóru húsi og mig skorti ekki neitt, samt var ég ekki hamingjusamur og fannst ég ekki vera á réttum stað. Kannski var ég þunglyndur en ég held að mig hafi vantað útrás fyrir listamanninn innra með mér. Að festast í gangstéttum og verkefnum sem voru meira vélræn var ekki fyrir mig og ég naut ekki vinnunnar. Ég vil frekar vera í verkefnum sem fegra umhverfið og skipta máli. Í lok 2013 tók ég þá ákvörðun að stíga út úr fyrirtækinu sem ég rak með félaga mínum. Ég tók út fæðingarorlof til að vera með stráknum og tímabært frí frá vinnunni. Það var langþráður draumur að vinna í skapandi verkefnum og ég fór að einbeita mér að hleðslu. Síðan þá hef ég unnið verkefni eftir verkefni og er það heppinn að geta ferðast um allt land og unnið.“

Á veturna er minna að gera hjá Bigga en þann tíma hefur hann notað til að vera með syninum og í ferðalög. „Ég ákvað að leigja húsið út og koma mér upp aðstöðu í Hafnarfirði. Þar á ég yndislegar stundir með syninum og sinni áhugamáli mínu. Það sem ég hef fengið til baka er frelsi. Allur sá tími sem ég hef átt með barninu er ómetanlegur. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir, í þessu kapphlaupi öllu, að það eru ekki peningarnir sem skapa hamingjuna. Ég er minntur á það á hverjum degi.“

Birgir ásamt syni sínum Adrían. Þeir feðgar eru duglegir að fara saman í ferðalög og njóta lífsins.
Feðgar Birgir ásamt syni sínum Adrían. Þeir feðgar eru duglegir að fara saman í ferðalög og njóta lífsins.

Töff lið á nærbuxum

Biggi er módel í hjáverkum og hefur leikið í auglýsingum og sjónvarpsþáttum auk tónlistarmyndbanda. Síðasta verkefnið var myndband við lag franska tónlistarmannsins Ananda, en því var leikstýrt af hinum virta franska ljósmyndara Bernard Benant. Biggi segir þetta vera eina leið til að vinna úr eftirköstum drykkjunnar. „Ég glími við feimni og brotna sjálfsmynd og þegar ég sá auglýst eftir fólki ákvað ég að sækja um. Þetta er leið til að reyna eitthvað nýtt og takast á við áskorun. Ég hef oft mætt í prufur fyrir verkefni sem ég hef ekki fengið, og það hefur verið ágætis tækifæri til að læra að takast á við höfnun. Ég tek mig ekki mjög alvarlega sem leikara eða módel, en ber samt virðingu fyrir því sem þessi verkefni hafa kennt mér og þetta er gott fyrir sjálfstraustið. Ég kom mölbrotinn út úr neyslunni og það tekur tíma að byggja upp sjálfsmyndina aftur, það er ekki nóg að hætta að drekka.“

Tekur því sem að höndum ber

En Biggi, segi ég að lokum, hvað langar þig í næst, konu, fleiri börn eða hvað?
„Já, mig langar í konu en hún verður að vera dýralæknir,“ segir hann. „Nei, svona án gríns þá finnst mér fínt að vera einhleypur, en auðvitað væri líka stórkostlegt að verða ástfanginn. Ég á yndislegt barn og ég veit að ef ég eignast annað verður það alveg jafn dásamlegt. Ég stefni kannski ekki að því en tek því fagnandi ef það gerist. Ég vil ekki plana framtíðina heldur gefa sjálfum mér frelsi til að taka því sem að höndum ber.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar

Birti óhugnanlegt myndband um „frábæra“ fyrrverandi eiginmanninn sem myrti hana stuttu síðar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið