Tók þátt í Ísland got talent – „Bara mistökin sýnd“ – Treysti sér ekki til að fara með dóttur sína á leikskóla í morgun
Helena Dögg Valgeirsdóttir, þriggja barna móðir frá Reykjavík, tók þátt hæfileikakeppninni Ísland got talent og segir Stöð 2 hafi eyðilagt líf hennar. Helena söng fyrir dómara keppninnar og segir Stöð 2, eða framleiðendur þáttarins hafi verið ónærgætnir og aðeins sýnt þann hluta flutningsins hennar þar sem hún gerði mistök.
„Stöð 2 rústuðu lífi mínu á einu augnabliki. Að þeir geta verið svona vondir og sýna mig syngja bara mistökin og allt það hræðilega, þar sem stressið yfirtók allt en ekki þar sem ég tók lagið vel fyrst. Ég er í sjokki og læsi mig inni eftir þetta,“ segir Helena í Facebook-færslu sem hún birti skömmu eftir að þátturinn var sýndur í gær.
Fyrsti þáttur þriðju þáttaraðar Ísland got talent var sýndur á Stöð 2 í gærkvöldi. Helena sagði í samtali við Menn.is að henni líði hræðilega eftir að hafa séð þáttinn í gær. Hún segist ekki geta farið út úr húsi.
„Ég meikaði ekki einu sinni að mæta sjálf með dóttur mína á leikskóla. Ég sendi elstu dóttir mína inn með hana“ segir Helena.
Helena segir að framleiðendurnir hafi aðeins sýnt mistökin hennar, í stað þess að sýna allan flutninginn, „til að selja sjónvarpsefni.“
„Af hverju gátu þeir ekki bara sýnt allt frá mér, í staðin fyrir bara mistökin? Það er vegna þess að ég á að líta út fyrir að vera hálfviti og gera mig að fífli fyrir alþjóð.“
Helena segist vel geta sungið en viðurkennir að hún hafi ekki verið tilbúin til að stíga á svið í eins stórri keppni og Ísland got talent. Hún segist hafa ákveðið að taka þátt til að byggja upp andlegu hliðina hjá sér.
„Tveimur mánuðum fyrir keppnina var ég búin að einangra mig frá heiminum. Var heima hjá mér bak við gardínur og talaði ekki við fólk. Ég fór í ýtrustu neyð út þar sem ég á þrjú börn og þurfti að halda áfram. Rífa mig upp og mér tókst það.“
Helena hefur sótt söngnámskeið og birti myndband með færslu sinni af hennar fyrstu tónleikum. Hér að neðan má sjá Helenu syngja á þeim tónleikum.