fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Berglind missti fótinn 13 ára: „Mér fannst eins og það væri búið að ljúga að mér allan tímann“

Ekki reið vegna læknamistaka – Verða kannski til þess að hjálpa öðrum

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 30. janúar 2016 10:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég byrjaði að finna fyrir verkjum í hnénu ári áður en ég greindist. Ég æfði þá ballett þrisvar í viku svo við héldum fyrst að þetta væri bara vegna álags,“ segir Berglind Jónsdóttir sem greindist með krabbamein sem barn og missti annan fótlegginn aðeins 13 ára gömul.

Í einlægu viðtali í Bleikt-blaðinu lýsir Berglind þessari reynslu sinni en hún hefur aldrei áður viljað ræða sögu sína opinberlega. Í umfjöllun Bleikt kemur fram að ástæða þess að hún stígur nú fram sé sú von hennar að geta hjálpað öðrum að opna sig. Berglind hefur tekið þátt í herferðinni #showyourscar eða „Sýndu örin þín“.

Miklir verkir

Í viðtalinu segir Berglind frá því þegar hún fór að finna fyrir miklum verkjum í hnénu. Hún var tólf ára þegar einkennin gerðu fyrst vart við sig en því miður þá fékk hún ekki rétta greiningu fyrr en seinna.

Berglind dvaldi í níu mánuði á sjúkrahúsi eftir aðgerðina.
Langt ferli Berglind dvaldi í níu mánuði á sjúkrahúsi eftir aðgerðina.

Sem fyrr segir æfði Berglind ballett á þessum tíma og var í fyrstu talið að verkirnir væru vegna álags. „Svo var ég komin með kúlur fyrir neðan hnén og fór þá til læknis. Hann hélt að þetta væri það sama og mamma mín var með, vaxtarkúlur sem hún fékk af því að hún stækkaði svo hratt.“ Skoðunin var stutt og Berglind var ekkert mynduð. Hún trúði þessari greiningu læknisins og fór hægar í æfingar.

Bólgan minnkaði ekki

Það var svo síðasta daginn hennar í sjöunda bekk að hún datt beint á hnéð. Sársaukinn sem fylgdi var óbærilegur og var henni illt í hnénu í marga daga á eftir enda mjög bólgin. „Ég harkaði af mér og fór í sveitina eins og ég hafði ætlað mér það sumar. Ég fór svo til útlanda með fjölskyldunni,“ segir hún en bólgan minnkaði ekki. Hún leitaði aftur til læknis sem ráðlagði henni að taka bólgueyðandi lyf, setja kaldan bakstur á hnéð og fara hvíla sig. Það hafði engin áhrif og versnaði verkurinn þannig að Berglind var hætt að geta gengið eðlilega upp og niður stiga.

Ég var að byrja að vera unglingur og átti að vera á gelgjunni, ekki á spítala að berjast fyrir lífi mínu

Fóturinn gaf sig

„Svo í ágúst var ég að ganga inn hjá ömmu minni þegar fóturinn gaf sig, ég gat ekki lengur stigið í hann. Þá gerði mamma sér grein fyrir að eitthvað mikið væri að og pantaði tíma hjá lækni. Ég fór í sýnatöku og skorið var í beinið 1. september 2004.“

Læknirinn sá strax hvað var að og lét foreldra Berglindar vita en ákveðið var að hún sjálf fengi að jafna sig aðeins eftir aðgerðina áður en hún fengi fréttirnar um greininguna. „Nokkrum dögum seinna kom læknirinn heim til mín og sagði mér frá þessu. Ég var með krabbamein í fætinum. Mér fannst hann gera þetta mjög faglega, að koma til mín í stað þess að hringja,“ segir Berglind en þegar þarna var komið við sögu var hún búin með eina viku af áttunda bekk í grunnskóla.

„Þetta var mikið áfall. Ég var þrettán ára svo ég vissi eiginlega ekkert hvað krabbamein var, ég vissi bara að það var ekki gott. Ég var að byrja að vera unglingur og átti að vera á gelgjunni, ekki á spítala að berjast fyrir lífi mínu. Ég held að það hafi samt hjálpað mér að ég gerði mér ekki grein fyrir á þessum tíma að ég gæti dáið, ég vissi það ekki þá,“ segir Berglind sem fór í erfiða lyfjameðferð í kjölfarið. Hún missti hárið, sem reyndist henni erfitt.

Fréttirnar voru áfall

Berglindi var sagt meðan að á meðferðinni stóð að lítið mál yrði að fjarlægja krabbameinið, það þyrfti bara að skipta um hluta úr lærlegg. „Æxlið minnkaði svo ekki nógu mikið sjálft. Viku áður en ég fór út í aðgerðina var mér sagt að þetta myndi ekki ganga og það þyrfti að taka fótinn af,“ segir Berglind en fréttirnar reyndust henni erfiðar.

„Mér fannst eins og það væri búið að ljúga að mér allan tímann. Það var áfall að heyra að það ætti að taka af mér líkamspart, þetta myndi breyta öllu lífi mínu. Ég veit núna að þetta var besta leiðin til að bjarga mér, meinið hefði getað komið aftur ef þetta hefði ekki verið gert. Hugarfarið er búið að breytast mikið og ég er búin að læra að lifa með þessu núna,“ segir hún.

Þakklát fyrir að vera á lífi

Berglind dvaldi í níu mánuði á spítalanum eftir að fótleggurinn var fjarlægður en fékk kennslu þar og gat tekið prófin sín og lokið áttunda bekk. Þegar hún var í níunda bekk var hún mikið utan skóla þar sem hún var í endurhæfingu á Grensási. „Ég var þá að læra að ganga og að styrkja mig. Einn kennari tók það að sér að kenna mér heima í sínum frítíma. Við vorum henni ótrúlega þakklát fyrir það. Mér tókst að klára skólann en það var erfitt.“

Þessi mistök læknisins verða til þess að hann mun skoða náið aðra sem koma til hans með það sama, kannski var ég því að hjálpa öðrum

Berglind segir að krabbameinið hafi verið í einhver ár í fætinum áður en það greindist. Hún hugsi stundum um hvort það hefði breytt einhverju að fá greininguna fyrr en reynir samt að vera jákvæð. Hún verður bráðum 25 ára og dreymir um að stofna fjölskyldu.

„Ég hugsa stundum um þessa skoðun sem ég fór í ári fyrir greininguna, ég hugsa hvað ef hann hefði sent mig í frekari rannsóknir eða myndatöku eða bara eitthvað, væri ég þá kannski enn þá með fótinn minn. En ég veit að það þýðir ekkert að hugsa þannig, en maður gerir það stundum ósjálfrátt. Ég er ótrúlega jákvæð í dag og ég er þakklát fyrir að vera á lífi. Þessi mistök læknisins verða til þess að hann mun skoða náið aðra sem koma til hans með það sama, kannski var ég því að hjálpa öðrum. Læknamistökin hjálpa kannski öðrum. Ég kenni honum ekkert um þetta en hann hefði kannski mátt skoða mig betur. Ég er ekki reið, það er ekki hægt að breyta þessu svo ég sætti mig bara við þetta.“
Hér má lesa viðtalið við Berglindi í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“