fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

„Við horfðum á hana deyja“

Fjórar mæður opna sig á einlægan hátt um erfiðan missi

Auður Ösp
Mánudaginn 25. janúar 2016 21:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Maður þarf að læra að lifa algjörlega upp á nýtt. Þetta er eins og þegar einhver slasast alvarlega og þarf að læra að ganga alveg upp á nýtt. Lífið verður aldrei eins,“ segir Guðfinna Hallgrímsdóttir en dóttir hennar, Bára Stefánsdóttir var 26 ára þegar hún fell fyrir eigin hendi.

Guðfinna var gestur þáttarins Milli himins og jarðar sem sýndur var á N4 á dögunum ásamt þeim Ingu Völu Jónsdóttur, Emmu Agnetu Björgvinsdóttur og Elínu Björgu Jónsdóttur en þær hafa allar gengið í gegnum þá erfiðu lífsreynslu að missa barn. Einlægar og erfiðar frásagnir þessara kvenna hafa vakið talsverða athygli.

„Ég hafði það mikla reynslu af sorginni áður að ég vissi að fyrsti tíminn á eftir var ekki endilega erfiðasti tíminn,“ segir Inga Vala en dóttir hennar, Tinna Ingólfsdóttir varð brákvödd aðeins 22 ára gömul. Inga Vala segist hafa farið á „autopilot“ fyrst eftir að dóttir hennar lést og verið í nokkurs konar sjálfvirkum fasa:

„Þetta er hálfgerður varnaháttur hjá manni til að geta verið til staðar að einhverju fyrir börnin sín og aðra aðstandendur. Þannig að maður náði að fleyta sér yfir þessar fyrstu vikur og mánuði í þessum sjálfvirka fasa,“ segir hún og bætir við að þegar líða tók á þá hafi hún farið að leyfa sér að hugsa meira og sakna meira.

Emma Agneta tekur í sama streng en sonur hennar, Blængur Mikael var 12 ára þegar hann lést í bílveltu. „Ég man hvað það kom mikill kraftur í mig þegar þetta allt var að gerast.“ Hún segir það hafa verið afar dýrmætt að fá sjálf að klæða son sinn fyrir kistulagningu og jarðarför. „Mér fannst það hjálpa mér, þó að hann væri orðinn 12 ára: að fá að setja hann í fötin. Það skiptir mjög miklu máli í dag.“

Guðfinna lýsir sorgarferlinu sem „rússíbanareið“: sumir dagar séu ágætir en svo koma aðrir dagar sem eru hræðilegir: „En þeir koma og þeir verða bara að fá að koma. Það er ekkert hægt að hraðspóla og ekkert hægt að ýta heldur á pásu,“ segir hún og bætir við að það hafi verið einstaklega erfitt að hafa verið langt í burtu frá dóttur sinni þegar hún fékk fregnirnar af andláti hennar. Hún segir mikilvægt að sú aðstoð sem fólk fái frá áfallateymi sé einnig fáanleg síðar í sorgarferlinu; þegar fólk er komið aftur í hversdagsgírinn.

Elín Björg Jónsdóttir er móðir Elvu Ýrar Óskarsdóttur sem lést á Siglufirði þann 16. nóvember árið 2011, þá á þrettánda ári. Var hún að stíga út úr rútubifreið fyrir utan heimili sitt þegar hún varð fyrir bíl og þá slösuðust einnig tvær skólasystur hennar. Elín og maður hennar áttu tvo drengi fyrir og segir Elín að hún hafi einfaldlega þurft að vera til staðar fyrir þá. „Það var mjög erfitt að horfa á eftir henni; við horfðum á hana deyja,“ segir hún og líkir upplifuninni við það að vera staddur í bíómynd. „Þetta var allt svo óraunverulegt.“

Þá segir hún að í fyrstu komið upp sú hugsun að flytja frá heimabænum, Siglufirði þar sem slysið átti sér stað en fjölskyldunni var þó ráðlagt að taka aðeins eitt skref í einu. „Og við höfum gert það og okkur líður vel heima. Við getum ekki hugsað okkur að búa á öðrum stað.“

Inga Vala segir að það skipti öllu að tala um hlutina. „Það er enginn manneskja eyland. Maður verður að eiga samskipti og maður verður að vita að maður er ekki einn í sínu. Þegar maður burðast með mjög erfiðar tilfinningar þá er óskaplega dýrmætt að finna manneskju sem hefur upplifað eitthvað ámóta.“

„Það er eitthvað í kjarnanum á manneskjunni sem segir að þetta stríði gegn öllum lögmálum. Rétt eins og manni finnst maður finna tilgang lífsins þegar maður heldur á barninu sínu í fyrsta sinn þá er það á móti öllum lífsins straumi að þurfa að jarða barnið sitt,“ segir Inga Vala jafnframt en viðtalið við þær Ingu, Emmu, Guðfinnu og Elínu má horfa á hér fyrir neðan.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=DY5AkwxJvc0&w=854&h=480]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“