Sigríður Lárusdóttir greindist með sarcoma krabbmein í læri
„Örið minnir mig á þetta á hverjum degi. Fólk spyr, glápir, pískrar og grettir sig jafnvel. Ég er mjög meðvituð um örið en það fer eftir dagsforminu hvort það vekur hjá mér óöryggi eða hvort ég sé stolt af því. Glápið særir mig ekki lengur en það er ótrúlegt hvað fullorðið fólk hefur leyft sér að segja þegar ég geng í heita pottinn eða á ströndinni,“ segir Sigríður Lárusdóttir lífeindafræðingur, sem greindist með sarcoma-krabbamein í læri í febrúar 2010.
„Svona lagað herðir mann og ég er alltaf að reyna á mörk mín. Í dag er ég 51 árs og hef lært á mótorhjól, kafa, stunda skíði og hreyfi mig almennt mikið. Ég er að vinna markvisst og ákveðið í bucket-listanum mínum.“