fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

„Þeir sögðu: This is a crook“

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, er að upplifa drauminn – Vonar að Platini hreinsi mannorð sitt – Spillingin kom ekki á óvart

Ritstjórn DV
Föstudaginn 22. janúar 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, er loksins að upplifa langþráðan draum nú þegar Íslendingar eru komnir inn í lokakeppni EM. Hann hefur unnið ötullega að þessu markmiði innan sambandsins í rúm tuttugu ár og sér nú árangur erfiðisins.
Á sama tíma finnst honum átakanlegt að verða vitni að svo umfangsmikilli spillingu innan FIFA sem teygir anga sína inn í UEFA. Það var honum mikið áfall þegar Michel Platini, forseti UEFA, var dæmdur í átta ára bann frá knattspyrnu og vonar að honum takist að hreinsa mannorð sitt.
Blaðamaður settist niður með Geir og ræddi um EM, uppbygginguna á Íslandi, þjálfarateymið, spillingu í knattspyrnuheiminum og hvernig fjölskyldulífið samræmist eina áhugamálinu – knattspyrnu.

Íslendingar eru fámennasta þjóðin sem komist hefur á lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í karlaflokki og margir spyrja hvernig í ósköpunum við fórum að þessu. Hvernig íslenska landsliðið fór úr því að vera í 130. sæti á styrkleikalista FIFA, upp í það 23. þegar best lét í sumar, á nokkrum árum. Sumir tala um Öskubuskuævintýri, en hvað er raunverulega að baki þessum árangri?

„Þetta er akkúrat spurningin sem ég er búinn að fá linnulaust síðasta árið, eða alveg frá því við vorum líkleg til að fara í lokakeppnina. Spurningin kemur frá erlendum aðilum, fjölmiðlum og mínum kollegum úti. Þeir spyrja hvað við séum eiginlega að gera á Íslandi. Það hafa komið ýmsar skýringar og menn streyma fram á sjónarsviðið með skýringar,“ segir Geir léttur í bragði þar sem við sitjum í betri stofunni í húsakynnum KSÍ. Hann hefur að sjálfsögðu sínar skýringar á reiðum höndum, enda hefur hann unnið ötullega að uppbyggingu knattspyrnu á Íslandi síðastliðinn tuttugu ár eða svo.

Bætt aðstaða lykilatriði

„Það sem hefur hjálpað okkur mjög mikið er betri aðstaða til þjálfunar. Veðurfarið á Íslandi er nefnilega ekkert sérstaklega hagstætt knattspyrnuiðkun stóran hluta ársins. Tilkoma gervigrasvalla, í fyrstu, varð til þess að leikmenn þurftu ekki að sætta sig við malarvelli. Síðan var það himnasending fyrir knattspyrnuna að fá yfirbyggða velli. Þá er hægt að þjálfa við bestu aðstæður tólf mánuði á ári, í staðinn fyrir fimm mánuði eins og hér áður fyrr. Ef það er eitthvað eitt sem á að benda á, sem hefur breyst, þá er það aðstaðan. Tækniþjálfun, sem er stór hluti af knattspyrnunni, fer ekki fram á malarvöllum eða klakabrynjuðum völlum. Eða þar sem vindurinn tekur bolta. Það gerist ekki þar,“ segir Geir og bendir jafnframt á að tækniþjálfun verði að hefjast þegar leikmenn eru ungir að árum og því sé mikilvægt að bjóða öllum aldursflokkum upp á bestu mögulegu aðstæður til iðkunar, líka þeim yngstu. „Það verður enginn tæknilega góður leikmaður sem byrjar um tvítugt. Það er of seint.“

„Það væri mikill sigur fyrir mig persónulega ef við komumst upp úr riðlakeppninni í 16 liða úrslit.“

Krafa um menntaða þjálfara

Ferlið frá malarvöllunum að yfirbyggðu völlunum hefur tekið um tuttugu ár. Strákarnir sem nú skipa landsliðið eru úr fyrstu árgöngunum sem hafa fengið tækifæri til að iðka knattspyrnu við bestu aðstæður allt árið um kring. Fyrir vikið búa þeir að því að vera tæknilega betri en eldri kollegar þeirra.

„Þetta var mjög skipulega unnin uppbygging. Hvatinn að þessum mannvirkjum hefur komið frá knattspyrnusambandinu, þótt þau hafi að mestu leyti verið fjármögnuð af sveitarfélögunum. Stefnan kom héðan.
Samhliða þessu höfum við hagnast gríðarlega á auknum styrk knattspyrnunnar í heiminum, alþjóðavæðingu knattspyrnunnar. Fagmennskan hefur aukist og með auknu fjármagni sem knattspyrnusamband Evrópu hefur haft úr að að moða hafa ýmis verkefni verið sett í gang, eins og að auka gæði knattspyrnuþjálfunar. UEFA setti ákveðinn staðal sem við byrjuðum strax að vinna eftir. Þjálfararnir eru því miklu betri í dag en þeir voru,“ útskýrir Geir. Og þá á hann ekki bara við þjálfara í efstu deildum því menntaðir þjálfarar sjá einnig um þjálfun yngri flokkanna. „Við gerum þá kröfu á okkar aðildarfélög að þau séu með menntaða þjálfara. Á Norðurlöndunum er þessu öðruvísi farið því fjöldi iðkenda er svo mikill. Þá eru það bara foreldrar sem sjá um að skipta í lið og þjálfa. Þarna er styrkurinn í fámenninu. Við getum gert þessar kröfur, að þjálfarar hafi ákveðna grunnmenntun samkvæmt staðli frá Evrópska knattspyrnusambandinu.“

En það kemur meira til að mati Geirs. „Kjarninn í þessu öllu saman, sem á líka stóran þátt í því að kvennalandsliðið hefur tvisvar komist í lokakeppni og stefnir á þá þriðju, og 21 árs liðið komst í lokakeppni, það er þessi ótrúlegi kraftur og skipulag í okkar aðildarfélögum. Ótrúlegur vilji og fórnfýsi ótal sjálfboðaliða sem hefur byggt upp starfið. Með þessu byggjum við upp sterkari grunn og sterkari félög,“ segir Geir, en hann vill einnig meina að hugarfar Íslendinga, keppnisandinn og samkenndin hafi sitt að segja.

„7.000 stuðningsmenn geta gert mjög mikið fyrir liðið í keppninni“

Einn sigur gæti dugað

Einhverjir vilja meina að Íslendingar hafi verið heppnir með riðil á EM, sem samanstendur, auk okkar, af Austurríkismönnum, Portúgölum og Ungverjum.
Geir er að einhverju leyti sammála því að strákarnir megi teljast heppnir, en þó ekki alveg. „Portúgalir eru með einn besta leikmann í heimi, Ronaldo. Leikmenn eins og hann og Messi vinna leiki upp á eigin spýtur. Austurríkismenn eru með mjög áhugavert lið og það lið sem kom einna mest á óvart í undankeppninni. En kannski vorum við heppnir að fá Ungverja. Þeir voru fyrirfram taldir slakasta þjóðin í keppninni.“

Einn sigur í riðlakeppninni gæti komið okkur áfram í 16 liða úrslit, en það er ekki öruggt. Efstu tvö liðin komast alltaf áfram og svo fjögur lið af sex sem lenda í þriðja sæti.
„Ég hef alla trú á því að þeir geti náð mjög langt. Það væri mikill sigur fyrir mig persónulega ef við komumst upp úr riðlakeppninni í 16 liða úrslit. Það væri stór áfangi fyrir Ísland.“

Stuðningsmenn gera gæfumuninn

Liðið er ekki að fara á þetta stórmót bara til að vera með, að sögn Geirs. Strákarnir ætla sér miklu meira en það. „Metnaðurinn í þessum drengjum er þannig að þeir horfa bara alla leið. Við erum auðvitað að spila við allar snjöllustu knattspyrnuþjóðir í Evrópu, en það vegur mjög þungt að við megum reikna með um 7.000 Íslendingum á leikjunum okkar. Það er þvílíkur styrkur fyrir okkur,“ segir Geir. Það er einlægni í orðum hans og það fer ekki á milli mála að hann er í alvöru virkilega þakklátur fyrir áhugann og stuðninginn.

„Á allri minni tíð hjá knattspyrnusambandinu eru sárafáir leikir þar sem við höfum fengið mikinn stuðning á útivelli, þótt það sé undantekningar, eins og í Hollandi í fyrra. 7.000 stuðningsmenn geta gert mjög mikið fyrir liðið í keppninni.“
Íslendingar fengu úthlutað rúmlega tuttugu þúsund miðum á leikina þrjá í riðlakeppninni, sem er mjög mikið miðað við aðrar þjóðir. Það orsakast af því að leikirnir verða spilaðir á stórum leikvöngum í Marseille og París. Við höfðum nefnilega heppnina með okkur við þá niðurröðun.

Búið er að loka fyrir umsóknir um miða á EM en alls sóttu Íslendingar um 26.985 miða. Það samsvarar um 8,25 prósent þjóðarinnar. Hafa ber þó í huga að margir hafa eflaust sótt um miða á alla leikina. En gera má ráð fyrir því að allir sem sóttu um fái miða.

Það voru þó ekki allir sem höfðu trú á því að þessir miðar myndu seljast svo glatt og Geir fékk að heyra þær efasemdaraddir frá erlendum kollegum. „Á síðasta ári þegar við vorum búin að vinna leikinn í Kasakstan og allir að tala um að Ísland væri á leið á EM, þá hitti ég forseta UEFA, Michel Platini, og hann sagði: „Ætlið þið að fara alla leið? Það er nú frábært. En verðið þið með einhverja stuðningsmenn?“ Hann veit auðvitað að við erum bara 330 þúsund,“ segir Geir kíminn. Hann svaraði Platini að sjálfsögðu mjög kokhraustur – sagði að hann þyrfti engar áhyggjur að hafa af því. „Þessar umsóknir eru þó umfram mínar björtustu vonir. Menn áttu ekki von á þessu, enda var það helsta fréttin inni á síðu UEFA eftir að umsóknarfrestinum lauk að miðamagnið hefði samsvarað 8,25 prósent af fólksfjöldanum.“

Geir segist geta horft á fótbolta endalaust en þurfi þó stundum að tempra sig fyrir fjölskylduna.
Fótboltafíkill Geir segist geta horft á fótbolta endalaust en þurfi þó stundum að tempra sig fyrir fjölskylduna.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Spilling innan FIFA

Fyrst Platini hefur borist í tal er ekki úr vegi að spyrja Geir út í spillinguna sem kom upp innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins – FIFA – á síðasta ári og teygði anga sína inn í UEFA þar sem Platini var forseti. Þá hafði Platini gefið út að hann ætlaði að sækjast eftir forsæti í FIFA á þessu ári, þegar Sepp Blatter stigi til hliðar. Eftir að FBI hóf rannsókn á spillingu og fjársvikum innan FIFA kom í ljós að FIFA hafði lagt tæpar tvær milljónir svissneskra franka, eða um 240 milljónir íslenskra króna, inn á reikning Platini árið 2011.
Báðir segja þeir að greiðslan hafi verið vegna vangoldinna launa fyrir ráðgjafarstörf sem Platini vann fyrir Blatter á árunum 1998 til 2002. Enginn skriflegur samningur er hins vegar til vegna þeirra starfa, enda segjast þeir aðeins hafa gert munnlegt samkomulag sín á milli. Ástæðuna fyrir því að greiðslan barst svo seint segja þeir vera slæma fjárhagsstöðu FIFA á þeim árum sem Platini sinnti ráðgjafarstörfum.
Sú skýring hefur ekki verið tekin gild og hefur siðanefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins dæmt þá báða í átta ára bann frá knattspyrnu.

Trúir frásögn Platini

„Þetta er mjög sorglegt mál fyrir okkur á sama tíma og við erum að eiga okkar stærstu stundir í knattspyrnusögunni. FIFA er auðvitað búið að vera í skelfilegum málum og það er enn verra að UEFA skuli dragast inn í þetta. Við höfum alltat stutt og staðið þétt við bakið á Platini. Þegar Svíinn Lennart Johansson var búinn að vera í 17 ár sem forseti FIFA þá studdum við Platini í forseta. Þetta er auðvitað mjög slæm staða fyrir alla, hvert sem litið er; Evrópska knattspyrnusambandið, okkur og hann sjálfan. Ég vona að honum takist að hreinsa sitt nafn, eins og hann stefnir að og hefur sagst ætla að gera.“

Aðspurður segir Geir þetta hafa verið áfall fyrir hann sjálfan. „Þetta var mikið áfall fyrir mig og alla forystumenn í Evrópu þegar þetta kom upp.“ En trúir hann á sakleysi Platini? „Þetta er kannski ekki spurning um sekt eða sakleysi. Hann hefur gengist við því að hafa gert þennan munnlega samning við Blatter. Þetta snýst ekki um það. Spurningin snýst frekar um hvort hann hafi átt að upplýsa stjórnir UEFA og FIFA um það þegar hann fékk þessa greiðslu loksins. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að hann segi satt og rétt frá. Það sem gerist er að hann innheimtir þetta ekki strax og hlutirnir breytast og þróast. Þegar hann loksins fer að innheimta þá segir Blatter honum að senda reikinginn inn og hann er greiddur. Það sem lítur svo illa út er að nokkrum mánuðum seinna er Blatter endurkjörinn forseti FIFA. Reyndar án mótframboðs.“

Löngu tímabært að taka til

Geir segir það í sjálfu sér ekki hafa komið sér á óvart þegar upp komst um spillingu innan FIFA. Þegar hann var að byrja að starfa innan KSÍ og var að kynnast kollegum sínum á Norðurlöndunum, þá bentu þeir honum á nokkra „þrjóta“, sérstaklega frá Mið-Ameríku. „Þeir sögðu: This is a crook. Og það eru einmitt þeir sömu og voru loksins teknir núna, tuttugu árum seinna,“ segir Geir, en nokkrir af æðstu stjórnendum FIFA voru handteknir í aðgerðum lögreglu á síðasta ári. Það var því almenn vitneskja um það innan FIFA að þar viðgengist spilling og mútur. „Eins og þessi frægasti, Jack Warner, hann var kennari, en varð allt í einu múltí-milli. Það kom ekkert á óvart með þessa menn. Spillingarvandamálið virðist vera landlægt og þá helst í Mið-, Suður- og Norður-Ameríku. Það var orðið löngu tímabært að taka til, en það kom á óvart hvað þetta var mikið.“

Það hefur aldrei komið til þess að reynt hafi verið að hafa áhrif á Íslendinga með vafasömum hætti í knattspyrnuheiminum, að sögn Geirs. Enda hafa Íslendingar aldrei átt stjórnmarmann í FIFA og einungis tvisvar í UEFA. „Það hefði örugglega verið reynt að nálgast okkur ef við hefðum verið í þannig aðstæðum. Ég þekki marga Evrópumenn sem augljóslega var reynt að hafa áhrif á,“ segir Geir hreinskilinn. Spillingin er því víða þótt hún nái sem betur fer ekki til Íslands. Og þangað snúum við aftur.

„Ég vona að honum takist að hreinsa sitt nafn, eins og hann stefnir að, og hefur sagst ætla að gera.“

Meiri fagmennska í dag

Samningur við Lars Lagerback, annan þjálfara landsliðsins, rennur út að loknu Evrópumóti, en mikill vilji er fyrir því að halda honum áfram. Að öllu óbreyttu mun hins vegar Heimir Hallgrímsson, hinn þjálfarinn, taka alfarið við keflinu. „Það er draumur Íslendinga, allavega þeirra sem hafa áhuga á fótbolta, að hafa hann áfram. Ég hef rætt við Lars. Hann liggur undir feldi og ætlar að ræða við mig síðar,“ segir Geir sposkur á svip. „Ég vil hafa þá báða áfram. Auðvitað er það Lars sem hefur fært okkur alla þessa reynslu og kunnáttu, en þáttur Heimis er gríðarlega mikill líka. Hann er mjög agaður, skipulagður og metnaðarfullur þjálfari. Kostir þessara tveggja manna saman hafa nýst okkur frábærlega.“

Geir tók við formennsku í KSÍ árið 2007 og viðurkennir að slakt gengi íslenska karlalandsliðsins fyrstu árin á eftir hafi verið honum þungbært. „Þegar maður lítur til baka þá sér maður að við vorum með nokkra mjög góða leikmenn og einn frábæran – Eið Smára Guðjohnsen – en hinir voru ekki nógu góðir. Það vantaði meiri stuðning við Eið Smára. Þá voru allt of mörg mál sem komu upp þar sem menn neituðu að spila af ýmsum ástæðum, voru ósáttir við þjálfarana og margt fleira. Slíkt hefur ekki verið að koma upp núna og hópurinn heldur mjög vel saman.“

Aðspurður segir Geir það alveg á tæru að meiri fagmennska sé í kringum liðið núna en var á árum áður. Menn hafi kannski ekki alltaf verið að taka leikinn nógu alvarlega.
„Auðvitað vilja menn ná árangri í því sem þeir eru að gera. En ef hann næst ekki þá kannski slappast menn. Ef maður á ekki séns og er að tapa öllum leikjum þá kemur upp kæruleysi og vantrú. Þetta snýst líka um móral á milli kynslóða. Þegar ég horfi til baka þá er fagmennskan í kringum okkar lið í dag allt önnur en fyrir þrjátíu árum. En það er þannig á öllum sviðum.“
Geir segir að með tilkomu Lars og hans reynslu hafi ýmislegt breyst innan KSÍ. „Hann hefur hjálpað okkur mikið. Hann hefur aðra nálgun á hlutina og viðhefur vinnubrögð sem okkar þjálfarar voru kannski ekki með. Þeir höfðu bara ekki reynslu til þess.“

Draumurinn að rætast

Eftir að ljóst varð að Íslendingar voru á leiðinni á EM vildu margir eigna sér þá hugmynd að hafa fengið Lars til að þjálfa liðið. Geir hlær þegar blaðamaður spyr hann hver hafi átt hugmyndina í raun og veru. „Þetta var mjög aulalegt allt saman. Það er alveg sama hvað hugmyndirnar eru margar, það er bara þannig að formaðurinn leiðir það að ráða þjálfara, enda þarf hann að vera í góðu samstarfi við þjálfarann.“ Hugmyndin um að fá Lars sem þjálfara var því alfarið Geirs. „Já, algjörlega,“ segir hann án þess að hika.

„Ég hafði fylgst mjög náið með landsleikjum Svíþjóðar á árunum 2000 til 2010 og tel hann einn sterkasta „mastermind“ í taktík í fótbolta í heiminum. Svo er margt svipað með okkur og Svíum. Við vorum alltaf að reyna að spila agaðan varnarleik hérna áður fyrr, en náðum því aldrei. Við höfum náð því með þetta landslið. Með Lars og Heimi. Allt í einu gátum við spilað leiki án þess að fá á okkur mörk og þá þarf bara að skora eitt til að vinna,“ segir Geir og brosir stoltur. Hann er stoltur af því að hafa stuðlað að frábærum árangri íslenska landsliðsins með ýmsum hætti. Og hann má vera það. Fölskvalaus gleðin yfir góðum árangri leynir sér ekki þegar hann talar um liðið. Draumurinn er loksins að rætast. „Tilfinningin er alveg frábær. Það er búið að vera draumur minn frá því ég hóf störf innan knattspyrnuhreyfingarinnar að komast á HM eða EM. Við vorum svo nálægt því að fara til Brasilíu á HM. Ég hef haft þá stefnu og sýn að við myndum ná því að komast á stórmót. Ég hef aldrei gefið eftir. Þetta er búin að vera mikil uppbyggingarsaga og ég er heppinn að fá að lifa þessa tíma.“

„Ég hef rætt við Lars. Hann liggur undir feldi og ætlar að ræða við mig síðar“

Góður árangur smitar

En telur Geir að Íslendingar geti viðhaldið þessum góða árangri í knattspyrnu þegar núverandi landsliðsmenn verða komnir af sínu léttasta skeiði? „Þessir strákar sem nú mynda kjarna liðsins geta hæglega gert það nokkrar keppnir í viðbót. Þeir eru á það góðum aldri. Svo var ég ótrúlega stoltur þegar íslenska 21 árs-liðið vann Frakka á heimavelli í Evrópukeppninni. Það sýnir að það eru fleiri efni á ferðinni. Mér eiginlega brá þegar ég sá strákana uppstillta þegar þjóðsöngvarnir voru leiknir. Frönsku strákarnir voru eins og fullorðnir menn, stórir og sterklegir, á meðan íslensku strákarnir voru eins og hálfgerðir unglingar. En liðsheildin okkar og góðir einstaklingar gerðu það að verkum að við gátum unnið þetta lið. Góður árangur A-liðsins smitar út frá sér og ég vona að við fáum aftur svona góða liðsheild og er í liðinu í dag. Það er svo mikilvægt fyrsta skref að komast inn á lokakeppni stórmóts. Við sjáum það bara með kvennaliðið sem er tvisvar búið að fara á stórmót og nú stefnum við ótrauð á að fara inn í þriðja sinn.“

Aldrei góður í fótbolta

Þótt Geir lifi gjörsamlega og hrærist í knattspyrnu alla daga, allan daginn, og jafnvel á nóttunni líka, þá hefur hann sjálfur aldrei verið neitt sérstaklega góður í leiknum. Hann komst mjög snemma að því þegar hann spreytti sig með KR sem barn og unglingur.
Geir er fæddur og uppalinn í Vesturbænum og að sjálfsögðu gallharður KR-ingur. „Ég spilaði knattspyrnu með yngri flokkunum og dreymdi auðvitað um að spila fyrir liðið, en ég held að félagarnir hafi séð fyrir sér að ég yrði betri í pappírsvinnunni. Þegar menn voru farnir að biðja mig um að gera hitt og þetta utan vallar þá áttaði ég mig á því að ég væri líklega ekki í topp tuttugu. Ég byrjaði að þjálfa 16 ára gamall og fór fljótlega að dæma líka. Svo fór ég að taka þátt í starfsemi deildarinnar. Ég var varaformaður knattspyrnudeildar KR og framkvæmdastjóri. Ég starfaði mjög mikið að framgangi knattspyrnumála í KR í að minnsta kosti áratug, eða alveg til 1992, þegar ég fór inn í KSÍ.“
Geir segir það hafa komið sér vel eftir að hann hóf störf innan sambandsins að hafa bakgrunn í þjálfun og dómgæslu. Það hefur gefið honum betri innsýn.

Fyrir utan þá tvo vetur sem Geir kenndi stærðfræði, bæði við Menntaskólann á Laugarvatni og í Reykjavík, hefur hann eingöngu fengist við störf í tengslum við knattspyrnu. Sjálfur lauk hann stúdentsprófi af stærðfræðibraut MR og var mikill stærðfræðiheili. Það hefur komið sér vel í störfum hans fyrir KSÍ. „Það er gott að kunna aðeins á tölur. Ég hef allan þennan tíma komið að rekstri knattspyrnusambandsins. Þá er betra að vita muninn á plús og mínus,“ segir hann og hlær. Eftir stúdentsprófið byrjaði hann í Háskóla Íslands en fann sig ekki. „Fótboltinn togaði. Ég hefði kannski haft áhuga á því íþróttatengda námi sem núna er boðið upp á, en það var ekkert slíkt í boði á sínum tíma.“

„Þegar menn voru farnir að biðja mig um að gera hitt og þetta utan vallar þá áttaði ég mig á því að ég væri líklega ekki í topp tuttugu.“

Horfir á fótbolta og les ljóð

Þegar blaðamaður spyr Geir hvort hann hugsi um eitthvað annað en fótbolta, er svarið einfalt: „Nei.“ Það er að minnsta kosti stutta útgáfan af svarinu. „Þegar ég er ekki bundinn af öðrum verkefnum heima þá horfi ég á fótbolta í frítíma mínum.“ Hann á sér einfaldlega ekki önnur áhugamál og þannig slakar hann líka vel á. „Ég veit ekki hvað þetta er, kannski eitthvað í genunum, en ég get horft á fótbolta endalaust. Ég vil samt bara horfa á gæðaknattspyrnu. Ég fer auðvitað á völlinn og fylgist með íslenskri knattspyrnu en það er bara sá raunveruleiki sem er hér. En þegar ég er að horfa í sjónvarpinu þá reyni ég að velja góða leiki. Og fylgist auðvitað alltaf með mínum mönnum í Barcelona.“
Blaðamaður vill varla trúa því að Geir geri ekkert annað í frítímanum en að fylgjast með fótbolta, enda kemur annað á daginn þegar hann er spurður aftur. „Mér finnst gaman að lesa ljóð. Ég er ekki mikið fyrir langlokur eða spennubækur. Ljóðin eru það helsta fyrir utan fótboltann. Ég er alltaf með einhverja ljóðabók nærri. Ljóð eru knappt form sem hentar mér.“

Geir tekur þó skýrt fram að hann sinni fjölskyldunni líka þótt hann sé alltaf á kafi í boltanum, en hann á sambýliskonu og tvö börn. „Ég reyni svo sannarlega að sinna skyldum mínum í þeim efnum, þannig að ég get ekki horft á fótbolta alveg út í eitt. Það er alveg kvartað yfir því að ég horfi of mikið og auðvitað verð ég stundum að tempra það. Skilningurinn er alveg til staðar, upp að vissu marki,“ segir Geir sposkur á svip, en hinir fjölskyldumeðlimirnir deila ekki gífurlegum knattspyrnuáhuganum. „Það er hæfilegur áhugi og mér finnst það fínt. Ég hef bara sjónvarpsherbergi fyrir mig þar sem ég horfi. Þá er ég ekki fyrir öllum hinum.“

„Það hefur verið draumur minn frá því ég hóf störf innan knattspyrnuhreyfingarinnar að komast á HM eða EM“

Sér sig bara í knattspyrnunni

Geir segist að sjálfsögðu líka þurfa að sinna heimilisstörfunum. En það sé í góðu lagi, enda ákveðin hvíld fólgin í því að sinna þeim. „Starfið er þannig að álagið er mikið. Ég er aldrei alveg í fríi, þótt ég sé heima. Maður veit aldrei hvenær málin koma upp í þessari hreyfingu. Þetta hefur breyst svo mikið frá því ég tók við. Það var alltaf rólegra yfir vetrartímann en nú er það bara smá tími í desember sem er rólegt. Og eftir að við komumst á EM þá er álagið meira en aldrei fyrr,“ segir Geir sem hefur þó litlar áhyggjur af því að keyra sig út fyrir mótið. „Þetta er svo skemmtilegt verkefni að það lyftir mér upp.“
Geir sér ekki fyrir sér að hann komi til með að gera neitt annað í framtíðinni en að halda áfram að lifa og hrærast í knattspyrnu. „Ég vil halda áfram að gefa af mér á meðan ég get. Ég hef mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði og íslensk knattspyrna er í mikilli sókn. Á meðan svo er þá bara iða ég í skinninu yfir því að halda áfram að vinna að framgangi leiksins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“