fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fókus

Hrefna Líf: „Ég var búin að missa öll tengsl við veruleikann og var byrjuð að heyra raddir“

Lýsir reynslu sinni af geðhvarfasýki á hreinskilin hátt – „Þú verður einfaldlega ósigrandi“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 21. janúar 2016 20:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í staðinn fyrir að vera raunsær og velja réttar leiðir í lífinu. Þá fer maður svo hátt upp að maður er ósigrandi. Enda hefur maníu verið líkt við að vera á verulega örvandi efnum og þegar kemur að því að koma aðeins niður á jörðina þá er skellurinn svo mikill að maður getur dottið niður í dýpstu þunglyndislægðir.“ Svona lýsir Hrefna Líf Ólafsdóttir reynslu sinni af geðhvarfasýki sem hún greindist með árið 2007 og líkir við að vera „fangi í eigin líkama.“

Sló í gegn í Ísland Got Talent

Ófáir muna eftir Hrefnu Líf úr sjónvarpsþáttunum Ísland Got Talent þar sem hún vann hug og hjörtu áhorfenda með söng sínum. Hún stefnir í dag á nám í dýralækningum á Spáni og lítur björtum augum á tilveruna. Hún birti einlægan pistil um baráttu sína við geðhvarfasýki á bloggsíðu sinni á dögunum en hún hefur að eigin sögn hangið hálf út úr skápnum með veikindi sín í mörg ár.

Hún segir ýmislegt fylgja geðhvarfasýki sem geri það að verkum að þeir sem af henni þjást vilji ekki vera án hennar og þar megi meðal annars nefna „rushið“ sem fylgi því að fara í maníu og vera í hæstu hæðum andlega.

„Þú vaknar einn daginn og það er eins og einhver hafi slökkt öll ljós og parkerað heilum fíl ofan á þér“

Verður ósigrandi

„Þú verður einfaldlega ósigrandi. Getur allt! Ert jafnvel búin að vera fastur í djúpri þunglyndislægð svo vikum skiptir. Svo allt í einu einn daginn, þá geturðu allt. Þú hefur ekki undan. Áttar þig á hvað þú átt í raun mikið af vinum, hvað þú getur allt sem þú vilt. Hvað allt er miklu auðveldara. Þú ert svo hamingjusamur, hvernig gastu verið svona óhamingjusamur fyrir aðeins 2 dögum þegar þú gast ekki hugsað þér svo mikið að hringja eitt símtal eða fara í sturtu? Þú ert hamingjusamasta manneskja í heimi og svona gengur þetta í ákveðinn tíma. Misjafnlega eftir fólki,“ ritar Hrefna og bætir síðan við að þegar einstaklingur með geðhvarfasýki fari í niðursveiflu þá liggi leiðin hratt niður á við: „Þú vaknar einn daginn og það er eins og einhver hafi slökkt öll ljós og parkerað heilum fíl ofan á þér.“

„Get allt sem ég vil!“

Hún lýsir sinni reynslu af niðursveiflu: „Þú átt að mæta í skólann eftir 30 mínútur. Þú hafðir nefnilega skráð þig í 120 prósent nám viku áður, í hagfræði. Það var eitthvað svo spennandi að sjá alla þessa útreikninga og þú sást fyrir þér að þú værir algjör séní. Hvernig vissi ég ekki að ég væri svona brilliant í stærðfræði! Ég sem hafði aldrei lært stærðfræði eða neitt því tengt áður. Þar að auki hafði ég sótt um tvær nýjar vinnur og var að plana næstu heimsreisu. „Vá hvað lífið er frábært“ hugsaði ég! „Ég get allt sem ég vil.““

„Þannig gengur þetta fyrir sig. Upp og niður, upp og niður. En með aðstoð og þroska er hægt að ná betri stjórn á þessum sveiflum. Þannig að maður nái meira jafnvæg og er ekki eins hvatvís. En ég hef aldrei getað tengt við þess gleði sem fylgir því að vera í maníu þegar ég loksins kemst niður á jörðina. Það er jú yndislegt að vera ósigrandi. En hvatvísi og yfirþyrmandi hugsanir í 100. veldi eru eins og að vera fastur í fangelsi í sínum eigin líkama,“ segir Hrefna jafnframt. „Því á morgun veit ég ekkert hvernig ég mun verða þegar ég vakna og ég hef enga stjórn á því.“

„Ég hef aldrei getað tengt við þess gleði sem fylgir því að vera í maníu“

Sökk neðar og neðar

Hún segir ástandið hafa síversnað eftir að hún flutti til Slóvakíu fyrir rúmu ári en þá hugðist hún hefja nám í læknisfræði. Mánuðirnir þar einkenndust af maníu og endalausum niðursveiflum en móðir hennar fylgdi henni út til að vera henni til halds og trausts. „Með hverri vikunni fór andlega heilsan niður á við og ég sökk neðar og neðar og undir lokin var ég farin að missa öll veraldleg tengsl. Mér fannst ég vera alein í heiminum þrátt fyrir að vera umkringd yndislegu fólki sem var með mér í náminu. Í lok október var ég svo komin á botninn. Ég fékk taugaáfall og endaði í geðrofi. Ég var búin að missa öll tengsl við veruleikann og var byrjuð að heyra raddir. Mér fannst of mikið að borða meira en 300 kaloríur á dag og einkenndist því þessi tími af miklu svelti.“

Hún segir að botninum endanlega hafa verið náð á gamlársdag 2014. „Þá nótt ákvað ég að ég gæti þetta ekki lengur, ég trúði því virkilega að heimurinn yrði betri án mín. Að mamma mín myndi finna fyrir svo miklum létti að þurfa ekki alltaf að hafa áhyggjur af mér. Þannig að ákvörðun var tekin. Ég tók öll þau lyf sem ég átti, því að mér fannst að minn tími væri kominn. Ég gat ekki hugsað mér einn annan dag í þessu ástandi. Allir dagar runnu saman í einn. Ég eyddi öllum jólunum ein upp í rúmi, ég gat ekki borðað né mætt í nein jólaboð. Hvernig gat ég boðið mömmu minni upp á eina barnið hennar væri svona mikil byrði?“

Eyddi gamlársdag á gjörgæslu

„Þessi saga endar betur en margar, sem betur fer. Mamma mín fann mig á svefnherbergisgólfinu mínu. Búin að taka öll mín lyf og í blóði. Ef það væri ekki fyrir mömmu mína þá væri ég ekki á lífi í dag. Gamlársdeginum eyddum við svo á gjörgæslu LSH. En viti menn, í janúar fékk ég annan séns í lífinu. Ég byrjaði að tala aftur við geðlækninn minn og stuttu seinna var ég byrjuð í endurhæfingu á vegum VIRK. Ný lyf og samtalsmeðferð gera dásemd. Í dag finnst mér ég hafa náð 85 prósent bata. Ég er svo ánægð með lífið,“ ritar Hrefna.

Hún segir það hafa verið mikinn létti að stíga fram með veikindi sín. „Í allt of mörg ár hefur mér fundist ég þurfa að setja upp grímu. Ég er oftast kát og reyni að vera jákvæð. Síðan ég var unglingur hef ég fengið að heyra sögur af mér út úr bæ hvað ég sé þetta og hitt. Á ég virkilega að þurfa að skammast mín fyrir það eitt að vera með geðsjúdóm?“

„Ég óska þess að rétta manneskjan muni lesa þessa sögu og sjá að það er smá vonarglæta fyrir alla. Eftir að ég hætti að berja mig niður fyrir allar gróu sögurnar og hvað öðrum fyndist um mig, þá finnst mér ég vera heilli manneskju léttari,“ segir Hrefna einnig en færslu hennar má lesa í heild sinni hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum

Frosti úthúðar fyrrverandi vinnufélaga sínum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar

Beverly Hills höll Bennifer formlega komin í sölu – Sjáðu myndirnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á

Eddie Vedder segist hafa verið hætt kominn – Pearl Jam hættu við tónleika í London sem margir Íslendingar ætluðu á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað

Leikarinn steinrunninn á meðan myndband af eftirmála voðaskotsins var spilað