fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fókus

„Ég þarf að finna sjálfan mig upp á nýtt“

Bjarni sló í gegn sem fjármálaráðherrann í Skaupinu – Stendur í skilnaði og þarf allt í einu að fara að búa einn – Átti í innri baráttu vegna kynhneigðar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 16. janúar 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Snæbjörnsson leikari vakti mikla athygli í Áramótaskaupinu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Þetta var frumraun hans sem Bjarni og lagðist túlkunin að minnsta kosti ágætlega í eiginkonu ráðherrans. Bjarni hefur verið í harki, eins og hann orðar það sjálfur, frá því hann útskrifaðist sem leikari. En hann kann að meta frelsið.
Hann var mjög leitandi á unglingsárunum en fór ekki að finna sjálfan sig fyrr en hann kom út úr skápnum 19 ára. Hann hefur aldrei orðið fyrir fordómum vegna kynhneigðar sinnar en segist sjálfur hafa verið með höfuðið fullt af fordómum. Blaðamaður hitti Bjarna yfir sveittum bröns einn kaldan janúarmorgun og ræddi um Skaupið, skápinn, leiklistina, lífið, skilnaðinn og framtíðina, sem hann hefur góða tilfinningu fyrir.

Það er glaðlegur náungi í rauðri úlpu sem kemur afsakandi inn á kaffihúsið þar sem við mæltum okkur mót. Hann er nokkrum mínútum of seinn á fundinn en blaðamaður kippir sér lítið upp við það. Við skellum skuldinni að sjálfsögðu á veðrið og færðina, sem er alveg afleit.
Blaðamaður brýtur ísinn með því að segja lélegan brandara um sundskýluna sem Bjarni klæddist í Skaupinu og nánast beraði sig fyrir alþjóð. Hann hlær hálf feimnislega, þótt hann sé vissulega orðinn vanur sundskýlugríni frá vinum sínum.

„Mér fannst mjög gaman þegar það var hringt í mig og ég beðinn um að vera með,“ segir Bjarni, sem spreytti sig í Áramótaskaupinu í fyrsta skipti síðastliðið gamlárskvöld með eftirminnilegum hætti. Þjónustustúlka kemur aðvífandi og hann pantar sér bröns. Alvörumáltíð fyrir annasaman dag.

Stúderaði ekki Bjarna

Óhætt er að segja að Bjarni hafi slegið í gegn sem nafni sinn og fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, í Skaupinu. Dillaði hann sér meðal annars nautnalega á pínulítilli sundskýlu sem graðfolinn úr Garðabænum. En þar var verið að gera grín að því að Bjarni hefði skráð sig á framhjáhaldsvefinn Ashley Madison undir notendanafninu IceHot1, en vefurinn komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar tölvuþrjótar réðust á hann og stálu upplýsingum um 37 milljón notendur vefsins. Þar á meðal Bjarna. Í yfirlýsingu á Facebook sagði kona hans að þau hjónin hefðu farið saman inn á vefinn fyrir forvitnissakir, í algjörum hálfkæringi og af léttúð. Þau hefðu skráð sig en svo aldrei farið inn á vefinn aftur.

Þrátt fyrir að senurnar með Bjarna væru hvorki langar né margar vakti leikur hans athygli, ekki síst fyrir þær sakir að hann var að leika Bjarna í fyrsta skipti. En oft eru það sömu leikararnir sem veljast í hlutverk helstu ráðamanna aftur og aftur. Þetta var því töluverð áskorun fyrir hann sem leikara.
„Ég var kannski á skjánum í svona fimm mínútur. Ég er reyndar bara búinn að horfa á Skaupið einu sinni – þarf eiginlega að horfa á það aftur og taka tímann hvað ég er lengi í mynd,“ segir hann og skellir upp úr. „Ég birtist samt í alvöru ekki lengur en í fimm sekúndur á sundskýlunni, en þessi mynd var strax komin út um allt. Það er greinilegt hvað vekur mesta athygli, en maður gerir allt fyrir brandarann.“

Bjarni frétti svo að bæði ráðherrann og eiginkonan hefðu verið þokkalega sátt við frammistöðu hans og ekki spillti það fyrir. „Það var mjög gaman að heyra það. Það var líka mjög gaman hjá okkur Birgittu, sem lék konuna hans, að gera þessar senur. Svo er auðvitað bara mikill heiður að fá að vera með í Skaupinu, allavega einu sinni.“
Aðspurður segist hann þó ekki hafa stúderað Bjarna neitt sérstaklega fyrir hlutverkið. Honum fannst það eiginlega ekki hægt fyrir þessar senur. „Ég reyndi að gúggla hann en fann voða lítið annað en hann að tala um fjárlagafrumfrumvarpið, sem gagnaðist mér ekki mikið. Þetta voru svo prívat senur. Ég veit ekkert hvernig Bjarni Ben er í svefnherberginu eða í matarboði heima hjá sér. Ég hugsaði með mér að ég yrði að gera hlutverkið að mínu. Það var líka alveg augljóst um hvern var að ræða. Það var bara settur fæðingarblettur á vörina og ég var sendur í klippingu,“ segir Bjarni. Þjónustustúlkan kemur með girnilegan brönsinn og hann grípur sér strax brauðsneið og smyr. Blaðamaður hálf öfundar hann af kræsingunum þrátt fyrir að vera nýbúinn að borða og alls ekki svangur.

„Ég veit ekkert hvernig Bjarni Ben er í svefnherberginu eða í matarboði heima hjá sér“

Menningarsjokk í Reykjavík

Bjarni er alinn upp á Tálknafirði í frábæru og mjög vernduðu umhverfi, eins og hann orðar það sjálfur. „Allur bærinn tók þátt í að ala mann upp. En það var töluvert menningarsjokk að koma til Reykjavíkur sem 16 ára unglingur og byrja í MR. Ég var mjög saklaus unglingur, allur vinahópurinn minn fyrir vestan var í íþróttum og við hvorki reyktum né drukkum. Ég var því mjög hissa á því hvernig allir létu á busaballinu. Það voru allir ógeðslega fullir og ég vissi ekki hvað var í gangi,“ segir Bjarni og notast við leikræna tjáningu til að koma stemningunni á busaballinu betur til skila. Blaðamaður skilur hvað hann á við.

Hann bjó hjá ömmu sinni og afa fyrsta árið í Reykjavík þegar hann tók út menningarsjokkið. Á þeim tíma var það ekki endilega óskastaðan, en eftir á að hyggja þykir honum mjög vænt um að hafa fengið þennan tíma með þeim.
Þegar Bjarni var kominn yfir mesta menningarsjokkið í borg óttans ákvað hann að halda áfram að sjokkera sjálfan sig með framandi menningu og fór sem skiptinemi til Kanada þar sem hann lærði reiprennandi frönsku. „Það var geggjað. Ég eignaðist vini úti um allan heim og er enn í sambandi við fullt af fólki. Þegar ég kom heim ákvað ég svo að fara í FG og kláraði stúdentinn þaðan. Þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur var ég einn hérna úr árganginum mínum og það var svolítið erfitt. En þegar ég kom frá Kanada voru fleiri komnir í bæinn og þetta var mjög heimilislegt í FG.“

Bjarni kann vel að meta að vera í fjölbreyttum verkefnum og líkar það vel að fá bæði tækifæri til að leika og kenna.
Elskar harkið Bjarni kann vel að meta að vera í fjölbreyttum verkefnum og líkar það vel að fá bæði tækifæri til að leika og kenna.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Fordómar að telja aðra fordómafulla

Bjarni var svolítið að leita að sjálfum sér á unglingsárunum. Hann varð snemma meðvitaður um að hann væri samkynhneigður en átti í mikilli innri baráttu við tilfinningarnar sem fylgdu. „Ég upplifði aldrei neina fordóma þegar ég kom loksins út úr skápnum. Þeir voru bara í hausnum á mér. Ég held að það sé oftast málið. Þegar ég var 12 eða 13 ára þá vissi ég ekki um neinn sem var eins og ég, en þegar ég kom út úr skápnum hafði mjög mikið breyst.“

Hann var ekki tilbúinn til að takast á við þessar tilfinningar sínar strax og eignaðist meira að segja kærustu þegar hann var 17 ára, í skiptináminu. „Við erum góðir vinir í dag. Og þá vorum við eiginlega bara vinir sem fórum rosalega mikið í sleik,“ segir Bjarni og skellir upp úr. „Ómeðvitað var hún kannski yfirvaraskeggið mitt,“ bætir hann við. Blaðamaður hváir og Bjarni útskýrir hugtakið: „Í gamla daga þegar samkynhneigðir karlmenn komu með konur á ball þá var talað um þær sem yfirvaraskegg. Konan átti að vera sönnun þess að karlmaðurinn væri gagnkynhneigður.“

Hann segist finna fyrir því í starfi sínu með ungu fólki í dag að það sé enn sama krísan að koma út úr skápnum þótt landslagið sé allt annað. „Samfélagið er allt í lagi. Fordómarnir eru bara í hausnum á fólki. Maður er alltaf að búast við því versta þegar maður kemur út. Heldur að þá muni allir hata mann. En það gerðist aldrei hjá mér. Hvergi. Ég var mjög þakklátur fyrir það. Það eru líka fordómar að halda að fólk sé fordómafullt. Að gera ráð fyrir því. Það er ömurlegt að hugsa þannig. Maður á frekar að hugsa að fólk sé æðislegt þangað til annað kemur í ljós. Það er miklu skemmtilegra.“

Varð að ræða bleika fílinn

Bjarni var orðinn 19 ára gamall þegar hann kom út úr skápnum. Þá var hann kominn með nóg af því að ljúga að fólkinu í kringum sig og lifa í blekkingu. Þá grunaði reyndar marga að svona væri í pottinn búið. „Ég vissi alveg að aðra grunaði þetta. Það þurfti bara að tala um bleika fílinn í herberginu. Það tók mig alveg tvö ár að segja öllum. Ég byrjaði á tveimur vinkonum og svo öðrum tveimur, svo fylgdu mamma og pabbi og öll fjölskyldan í kjölfarið.“
Eftir að hafa komið út úr skápnum gat hann loksins farið að vera hann sjálfur. Hann gaf sér smá tíma til að vera með sjálfum sér og finna sig. „Mér fannst ég ekki tilbúinn til að fara í nám eða neitt slíkt. Mér fannst ég þurfa að vita meira hvað ég vildi og hver ég væri.“

Bjarni fór því í tveggja ára heimshornaflakk, bjó meðal annars í Ástralíu og starfaði í sumarbúðum í Ameríku. Heimsótti Taíland og Japan. Þegar heim var komið skráði hann sig í Háskóla Íslands í málvísindi og ensku, en það blundaði alltaf í honum að vilja leika.

Hann var orðinn 24 ára þegar hann loksins þorði að sækja um á leiklistarbraut Listaháskólans og komst inn í fyrstu tilraun. „Þetta var gamall draumur. Frænka mín er leikkona – Jóhanna Jónas. Hún var að leika mikið þegar ég var yngri og var átrúnaðargoðið mitt. Ég var mikið búinn að hugsa um það að sækja um í skólanum en gerði aldrei neitt í því. Ég fór jú einu sinni inn í skólann til að forvitnast aðeins og rakst þá á hjörð af hressum leiklistarnemum í búningum. Þau voru ofboðslega hávær og ég hrökklaðist út í feimniskasti. Ég er nefnilega mjög feiminn, nema ég sé í öruggum félagsskap. Svo fékk ég skyndilega þá flugu í hausinn, þegar ég var að sofna eitt kvöldið, að ég ætti að sækja um. Ég hringdi strax daginn eftir til að athuga hvenær umsóknarfresturinn rynni út. Það var á föstudegi og umsóknarfresturinn rann út mánudaginn eftir. Ég dreif því bara í þessu. Það var geggjað gaman í prufunum og allt í einu var ég kominn í leiklistarnám.“ Bjarni segist ennþá vera hissa á því að hann hafi komist inn í fyrstu tilraun, en hann lenti í frábærum bekk og bekkjarfélagarnir eru allir góðir vinir hans í dag.

„Ég upplifði aldrei neina fordóma þegar ég kom loksins út úr skápnum. Þeir voru bara í hausnum á mér.“

Finnst harkið æði

Bjarni þróaði karakterana Viggó og Víolettu, hið konunglega söngleikjapar, ásamt söngkonunni Siggu Eyrúnu, skömmu eftir að hann kláraði leiklistarnámið, en Viggó er eiginlega orðið hans hliðarsjálf í dag. „Við vorum brjálæðislega vinsæl á tímabili, á skemmtunum og árshátíðum. Svo gerðum við lítinn söngleik saman. Ég er mjög stoltur af því.“ Viggó er eiginlega hans stærsta hlutverk í gegnum tíðina, enda hefur hann lengst dvalið í þeim karakter, fyrir utan sinn eigin. Að leika Bjarna Ben í Skaupinu er reyndar líka stórt í hans huga. Það er allavega hlutverkið sem hefur vakið hvað mesta athygli.

„Annars er ég eiginlega búinn að vera í hálfgerðu harki síðan ég útskrifaðist og mér finnst það æði. Ég hugsa að ég gæti aldrei verið bara í einu starfi. Það hentar mér ekki,“ segir Bjarni. Hann segist þó alls ekki vera ofvirkur. Hann sé alltaf mjög rólegur, þótt það sé brjálað að gera.

„Ég er búinn að koma mér þannig fyrir í lífinu að það er aldrei lognmolla í kringum mig. Ég er að læra að slaka aðeins á til að hafa orku í allt það skemmtilega sem ég er að gera,“ segir Bjarni, en ásamt því að sinna mörgum fjölbreyttum verkefnum bæði í leiklist og söng kennir hann leiklist við Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Þar hefur hann í samstarfi við fleiri verið að byggja upp öfluga leiklistarbraut á síðustu árum. „Ég finn gott jafnvægi í því að vera bæði leikari og kennari, en um leið og kennslan verður of stór hluti þá finnst mér ég verða að minnka aðeins við mig. Ég er til dæmis lítið að kenna á þessari önn. Ég er samt rosalega ánægður þarna. Þetta eru svo skemmtilegir krakkar og starfsfólk. Og ég hef frelsi til að þroskast áfram sem listamaður. Það er tekið tillit til þess að ég sé að sinna öðrum verkefnum.“

„Við ákváðum það í nóvember að ljúka sambandinu og það er búið að vera mjög erfitt“

Finnur sjálfan sig upp á nýtt

Bjarni er að ganga í gegnum tímabil töluverðra breytinga um þessar mundir. Hann og bráðum fyrrverandi eiginmaður hans slitu samvistum seint á síðasta ári og til stendur að ganga frá skilnaðinum á næstu vikum. Þeir voru saman í ellefu ár, en giftu sig árið 2008 og héldu í kjölfarið tveggja daga partí. Um er að ræða fyrsta og eina alvöru sambandið sem Bjarni hefur verið í.

Þeir skilja í góðu en Bjarni segir svona ferli samt alltaf erfitt. Það eru líka mikil viðbrigði fyrir hann að fara allt í einu að búa einn. „Þetta var sameiginleg ákvörðun hjá okkur. Við ákváðum það í nóvember að ljúka sambandinu og það er búið að vera mjög erfitt. Ég veit samt að þetta er rétt ákvörðun. Það eru auðvitað alltaf einhverjir bakþankar en ég held að þeir séu hluti af ferlinu. Það eru bara spennandi tímar framundan. Ég þarf svolítið að finna sjálfan mig upp á nýtt. Ég er orðinn 37 ára og þegar ég lít í kringum mig sé ég að mjög margir vinir mínir eru einhleypir. Hvort sem þeir hafa verið í sambandi eða ekki. Landslagið er öðruvísi en það var,“ segir Bjarni einlægur og brosir. „Frímann, minn fyrrverandi, er alveg magnaður einstaklingur. Hann á rosalega stóran þátt í þroska mínum og framþróun í gegnum árin. Og það er ekkert búið því við erum ennþá vinir.“

„Ég þarf svolítið að finna sjálfan mig upp á nýtt“

Saknar ömmu sinnar

Bjarni segist alltaf hafa verið bæði jákvæður og lífsglaður. Það hjálpar honum að takast á við erfiðleika í lífinu. „Það er miklu skemmtilegra. Það getur reyndar líka verið galli því ég á auðvelt með að sópa hlutum undir teppið. Sem getur verið kostur þegar maður er leikari. Þegar maður þarf að fara á svið. En flest sem hefur drifið á daga mína er mjög skemmtilegt. Mér finnst margt svo skemmtilegt og ég á erfitt með að segja nei. Það getur verið alveg banvæn blanda,“ segir hann kíminn.

„Amma mín, sem lést á síðasta ári, tókst á við allt með jákvæðu hugarfari og ákvað að njóta lífsins sama hvað bjátaði á. Það koma alltaf upp einhverjir erfiðleikar í lífinu og maður verður bara að takast á við þá. Ég hef reynt að tileinka mér hennar lífsspeki. Horfa ekki í baksýnisspegilinn heldur lifa í núinu.“ Bjarni saknar ömmu sinnar mikið, enda voru þau góðir vinir. Hann segir fráfall hennar eitt það erfiðasta sem hann hefur þurft að takast á við, fyrir utan skilnaðinn. „Annars hef ég verið mjög heppinn í lífinu. Með fólkið í kringum mig og vinnu.“

Það er margt að gerast á næstu vikum hjá Bjarna sem hann getur hlakkað til. Hann er bæði meðlimur og í stjórn spunaleikhópsins Improv Ísland sem byrjar með fastar sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum í byrjun febrúar. „Það eru svo miklir töfrar í þessum spuna. Þetta hefur alveg bjargað geðheilsunni minni. Hópurinn samanstendur af svo flottum og skemmtilegum einstaklingum. Við erum að spinna heilu söngleikina á staðnum. Uppfull af húmor, kærleika og leikgleði.“

Svo ætlar Bjarni að halda tónleika á Rósenberg þann 22. janúar næstkomandi, ásamt Siggu Eyrúnu vinkonu sinni. „Við ætlum að vera við að mestu leyti, en tökum eitthvað frá Viggó og Víólettu. Þetta verða söngleikjatónleikar með húmor og gleðilögum. Við ætlum að rífa fólk upp úr janúarþunglyndinu. Við erum algjörir söngleikjanördar,“ segir Bjarni stoltur og með bros á vör.

Bjarni er heillaður af spunaforminu og segir það alveg bjarga geðheilsunni. Hann er meðlimur í spunaleikhópnum sem hefur fastar sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum á næstunni.
Improv Ísland Bjarni er heillaður af spunaforminu og segir það alveg bjarga geðheilsunni. Hann er meðlimur í spunaleikhópnum sem hefur fastar sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum á næstunni.

Mynd: Móa Hjartardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nadine ekkert sérstaklega sátt við eiginmanninn sem gleymdi hvenær hún á afmæli

Nadine ekkert sérstaklega sátt við eiginmanninn sem gleymdi hvenær hún á afmæli
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum

Harry og Meghan fá á baukinn fyrir nýja ,,áhugamálið“ í Bandaríkjunum
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“

„Ég vissi alltaf að þetta væri ekki eðlilegt, það væri eitthvað að“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Jóhannes Þór fékk stórskrýtna sendingu frá Reykjavíkurflugvelli – „Hvar fær maður svona“

Jóhannes Þór fékk stórskrýtna sendingu frá Reykjavíkurflugvelli – „Hvar fær maður svona“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“

Kári skrifar Ragnari skjálfta bréf – „Ef ég man rétt tókst okkur ekki að stöðva stríðið í Víetnam“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Ellý segir gjaldþrotin og erfiðleika hafa gert sig sterkari – „ Ég vel að vera ljón og vera sterk“

Ellý segir gjaldþrotin og erfiðleika hafa gert sig sterkari – „ Ég vel að vera ljón og vera sterk“