„Þú lærir fyrst að meta heilsuna þegar þú veikist, alveg eins þú lærir að meta ríkisrekið heilbrigðiskerfi þegar þú flytur frá Bandaríkjunum til Íslands,“ segir hin bandaríska Mary Frances Davidsson sem búsett er á Íslandi en hún kveðst vera þakklát fyrir íslenska heilbrigðiskerfið eftir að hafa kynnst því bandaríska. Hún segir varhugavert að feta í fótspor Bandaríkjamanna með því að einkavæða heilbrigðiskerfið.
Í grein sem birtist á Grapevine segir Mary að við komuna til Íslands hafi hún stöðugt endurtekið sömu setninguna í höfðinu á sér þegar hún var óviss eða óörugg með ákvörðunina um að flytja hingað til lands. „Ég sagði við sjálfa mig, aftur og aftur: „Þú ert að velja að búa á stað sem notar skattfé til þess að borga menntun og heilsugæslu, ekki til þess að drepa borgarana.“ Það fékk mig til að líða vel.“
Hún segir að eftir að hafa búið í Bandaríkjunum þá sé henni ljóst að íslenska heilbrigðiskerfið sé mun betra. „Þegar ég lýsi íslenska heilbrigðiskerfinu fyrir Bandaríkjamönnum þá finnst mér gott að taka nokkur dæmi. Eins og til dæmis þegar ég fékk stöðumælasekt á bílinn minn daginn sem að sonur minn fæddist. Sektin var í raun dýrari en það sem ég þurfti greiða fyrir að koma honum í heiminn á heilbrigðisstofnun,“ segir hún.
Hún bendir á í Bandaríkjunum geti kostnaðurinn slagað upp í allt að 16 þúsund dali eða rúmlega 2 milljónir íslenskra króna, og þá sé aðeins verið að tala um eðlilega fæðingu með engum inngripum. Um leið og hlutirnir verði flóknari þá rjúki kostnaðurinn upp og geti auðveldlega farið upp í 3,4 milljónir íslenskra króna. „Síðan fékk ég heimsóknir heim til mín frá ljósmóður næstu dagana á eftir. Ókeypis. Af því að, þú veist, þetta er Skandinavía.“
Hún nefnir annað dæmi, þegar ellefu mánaða dóttir hennar þurfti að fara í aðgerð. Þegar kom að heimför var ritarinn á sjúkrahúsinu afsakandi á svip. „Henni þótti afar leitt að þurfa að afhenda mér tvo reikninga. Einn fyrir svæfinguna og einn fyrir aðgerðina. Heildarkostnaðurinn var rúmlega 3000 krónur,“ ritar Mary og bendir á að í Bandaríkjunum hefði kostnaðurinn getað verið á bilinu 530 til 790 þúsund.
Þá nefnir hún einnig dæmi um það þegar sonur hennar fékk slæman hósta og hún þurfti að leita með hann á heilsugæslu. Þar fengu þau mæðgin einstaklega góðar móttökur og skoðuðu drenginn í bak og fyrir. „Þau svöruðu öllum spurningunum mínum og veittu góð ráð. Við yfirgáfum staðinn með því að vinka bless og brostum til ritarans. Við fengum engan reikning.“ Hún segir jafnframt að vegna þess hve góð heilbrigðisþjónusta er hér á landi þá þurfi almenningur að greiða háa skatta. „En með þessu þá erum við að borga fyrir hugarró.Það verða allir veikir einhvern tímann á ævinni og við græðum öll á því að búa í samfélagi þar sem við vitum að ef að nágranni okkar veikist þá mun hann ekki þurfa að selja íbúðina sína til að eiga fyrir lækniskostnaði,“
Hún segir einkavæðingu heilbrigðiskerfisins vera stórt vandamál og segir varhugavert að íslensk stjórnvöld íhugi þá leið. „Það er einkavæðing sem leiðir til þess að ríka fólkið fær betri þjónustu á meðan millistéttin þarf að selja heimili sín til að eiga fyrir læknisþjónustu,“ segir hún jafnframt og bendir á að rannsókn sem gerð var við Harvard háskóla árið 2007 hafi leitt í ljós að 60 prósent gjaldþrota í Bandaríkjunum séu vegna lækniskostnaðar sem fólk hafi ekki ráðið við.