Segir femínista vera sjálfum sér verstir – „Hættið að vera öfundsjúkar út í dúkku“ – Segir karlahatur hafa stolið athyglinni frá jafnréttisbaráttunni
Kanadíska YouTube-stjarnan Nicole Arbour er ekki þekkt fyrir að liggja á skoðun sinni. Í nýju myndbandi sem hún birti í síðustu viku gagnrýnir Arbour femínista og lætur ýmislegt flakka máli sínu til stuðnings.
Arbour er skemmtikraftur og hefur látið til sín taka á ýmsum sviðum, svo sem í leiklist og tónlist. Hún er þó mest þekkt fyrir YouTube-myndbönd sín þar sem hún ræðir um ýmis viðkvæm málefni. Myndband hennar „Dear Fat People,“ þar sem hún gagnrýnir feitt fólk, vakti sem dæmi mikla athygli á síðasta ári og hefur fengið hátt í 10 milljón áhorf á YouTube.
Í nýja myndbandinu sem heitir „Kæru femínistar“ segir Arbour að það sé ekkert að því að vera femínisti en segir að of margar konur hafi gengið of langt í baráttunni fyrir jafnrétti.
„Hvað er þetta sem ég heyri? Já, þetta er hljóð frá þúsundum órakaðra fóta á hlaupum í átt að lyklaborðum sínum til að láta mig heyra það,“ segir Arbour í upphafi myndbandsins.
Meðal þess sem Arbour bendir á er að stærsta vandamál femínista séu ekki brjóstahaldarar heldur femínistarnir sjálfir.
„Málefnin sem skipta raunverulegu máli fá enga athygli út af karlahatrinu hjá ykkur sem aldrei er boðið á stefnumót.“
Hún segir að þessar óánægðu konur hafi stolið orðinu femínisti frá jafnréttissinnum. „Rétt eins og samkynhneigðir hafa stolið regnboganum.“
Arbour segir ekki sanngjarnt að fallegar stúlkur séu merktar druslur ef þær birta myndir af sér fáklæddum á Internetinu á meðan feitar stúlkur séu tiltalaðar hetjur fyrir að gera það sama.
Þá segir hún að munngælur sé ekki niðrandi fyrir konur og að konur ættu að stunda þær mun meira með karlmönnum. Arbour segir að þannig gætu konur jafnvel bjargað heiminum frá notkun kjarnorkuvopna.
Þá segist Arbour hafa fengið nóg af Barbie-hatri femínista. Hún segir að Barbie sé í raun fyrirmynd kvenna þar sem hún eigi sitt eigið hús, sinn eigin bíl og hefur unnið nánast öll störf sem hugast getur.
„Þið hatið Baribe því hún er falleg. Hættið að vera öfundsjúkar út í dúkku.“
Að lokum segir Arbour að allir ættu að vera femínistar þegar kemur að alvarlegum málefnum sem snerta jafnrétti. Hún bendir á að öfgasinnar séu ekki fulltrúar femínisma, ekki frekar en málaður 150 kílóa fótboltaaðdáandi sé fulltrúi allra Bandaríkjanna.
Hér má sjá myndbandið „Kæru femínistar.“