Lenti í alvarlegu bílslysi á Reykjanesbraut skömmu fyrir jól – „Lífið er gjöf og getur verið tekið af þér á sekúndubroti“
„Þegar maður getur allt í einu ekki lengur gengið, setið, farið á klósettið eða borðað án aðstoðar þá virkilega finnur maður hvað maður á að vera þakklátur fyrir heilsuna,“ segir Kamilla Kjerúlf sem í byrjun desember lenti í alvarlegu umferðarslysi á Reykjanesbraut ásamt móður sinni og bróður. Segir hún að atburðurinn hafi fengið sig til að endurskoða viðhorf sitt til lífsins verulega og hvetur hún fólk til að hafa það hugfast hversu mikilvægt það er að vera þakklátur fyrir daginn í dag.
„Mér finnst frekar magnað að hugsa um þetta. Hvað lífið getur breyst á einu augnabliki, þetta er hálf óraunverulegt. Einn daginn er ég að ganga niður Oxford Street að kaupa jólagjafir og næsta dag er ég alvarlega slösuð í sjúkrabíl,“ segir Kamilla í samtali við DV.is. „Í byrjun desember fór ég með mömmu minni og litla bróður mínum í helgarferð til London. Við skemmtum okkur vel, borðuðum góðan mat og fórum í búðir. Lífið var gott. Það var síðan á leiðinni heim frá Keflavík, á Reykjanesbrautinni að slysið varð,“ segir hún en bifreiðin sem hún, móðir hennar og bróðir voru farþegar í lenti þá í harkalegum árekstri við annan bíl. Vill Kamilla taka það fram að það var bílinn sem hún var farþegi í sem olli árekstrinum.
„Þegar ég ranka við mér er sársaukinn óbærilegur og ég finn til alls staðar. Ég gat þó hreyft fæturna aðeins og varð gríðarlega fegin,“ segir hún jafnframt en hún missti meðvitund í góða stund. Það tók mig góðan tíma að átta mig á hvað hefði gerst. Mamma og bróðir minn voru meðvitundarlaus og ég hélt í fyrstu að þau væru dáin,“ segir Kamilla jafnframt.
Ég byrjaði að öskra og gráta og síðan byrjuðu þau að svara mér smátt og smátt
„Ég byrjaði að öskra og gráta og síðan byrjuðu þau að svara mér smátt og smátt. Biðin eftir sjúkrabílnum var ekki löng, kannski í kringum tíu til fimmtán mínútur en það virtist samt vera eins og heil eilífð. Örugglega lengsta bið ævi minnar. Ég var að frjósa úr kulda og leið hræðilega.“
Kamilla, móðir hennar og bróðir voru flutt með hraði á slysadeild ásamt ökumanni hinnar bifreiðarinnar. Í ljós kom að Kamilla var meðal annars hryggbrotin, viðbeinsbrotin og fingurbrotin ásamt fleiri meiðslum. Móðir hennar slasaðist einnig mjög alvarlega og brotnaði á hrygg, rifbeinum og handlegg. Bróðir Kamillu slapp að hennar sögn betur enda hafði hann verið aftur í bílnum.
„Ég var klippt úr öllum fötunum og skoðuð og send í alls kyns myndatökur. Verst var að fá ekki að vita strax hvernig ástandið væri á mömmu og bróður mínum vegna þess að enginn vissi neitt. Ég fékk ekki að vita fyrr en seinna að þau væru á lífi. Við fórum öll hvert á sína deildina, ég fór á gjörgæslu og bróðir minn fór á barnadeildina. Það var því mikið álag á pabba sem þurfti að hlaupa þarna á milli. Sem betur fer á ég þó yndislega ættingja sem komu og voru hjá mér,“ segir hún og bætir svo við: „Ég vil endilega koma því á framfæri hvað þetta er ótrúlegt starfsfólk sem vinnur á spítalanum. Maður er hálf gáttaður yfir hvað þetta er óeigingjarnt starf sem þau vinna og þau eiga svo miklu meira skilið.“
Kamilla dvaldi alls í ellefu daga á spítalanum, þar af tíu daga á bæklunardeild. Þangað kom móðir hennar einnig nokkrum dögum síðar.„Það var óneitanlega svolítið sérstakt að dvelja á þeirri deild, þar sem næst yngsta manneskja var 72 ára. Þessi vika á spítalanum hefur verið erfiðasta og sársaukafyllsta vika lífs míns. Við vorum síðan sendar fyrr heim þar sem bæklunardeildin var yfirfull,“ segir hún jafnframt. Hún vinnur nú að því að ná sínum fyrri styrk og það sama gildir um móður hennar og bróður. Kamilla viðurkennir þó að það muni taka sinn tíma. „Ég hef náð ágætum bata en ég á enn langt í land. Það er ekki hægt að gera annað en að taka bara einn dag í einu.“
„Ég fæ oft martraðir og stundum þarf ég ekki annað en að hugsa um þetta og þá fer ég bara að gráta. Minn versti ótti er núna að þetta muni gerast aftur. En ég vil samt ekki gera mér erfiðara fyrir með því að sökkva mér niður í neikvæðni og sjálfsvorkunn, það hjálpar ekki neitt.“
Ég ætla að láta þessa upplifun gera mig að betri og sterkari manneskju og ég mun aldrei gefast upp
Hún segist ekki vera sama manneskjan í dag og fyrir slysið. „Ég hef lært svo mikið um sjálfa mig og lífið. Mér finnst ég svo heppin að hafa ekki lamast eða jafnvel dáið og einnig að mamma og bróðir minn hafi komist lífs af. Það bara hlýtur eitthvað að hafa vakið þarna yfir okkur, ég veit ekki hvernig er öðruvísi hægt að skýra þetta.“
„Lífið er gjöf og getur verið tekið af þér á sekúndubroti. Þetta sýnir líka hvað heilsan er dýrmæt. Ég tek henni ekki lengur sem sjálfsögðum hlut. Þegar maður getur allt í einu ekki lengur gengið setið, farið á klósettið eða borðað án aðstoðar þá virkilega finnur maður hvað maður á að vera þakklátur fyrir heilsuna. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að hreyfa mig og stunda Bootcamp, það er mín ástríða. Það er svakalega erfitt að vera ekki lengur fær um að gera allt sem ég vil en ég er alveg ákveðin í að ég mun geta það einn daginn.“
Hún segir atvikið hafa leitt til þess að hún ákvað að sóa engum tíma heldur elta drauma sína. Hún hvetur fólk til að gera það sama. „Ég átti mér til dæmis alltaf þann draum að opna mitt eigið blogg og skrifa um það sem ég hef gaman af. Það var samt alltaf eitthvað sem stoppaði mig, ég bara þorði því ekki. Eftir þetta þá hreinlega ákvað ég að ég ætlaði að nota allan tímann sem ég hef á þessari jörð til að gera það sem mér þykir skemmtilegt og elska og ég ætla ekki að spá í hvað öðrum finnst. Þegar ég hugsa til baka þá þykir mér hálf leiðinlegt að sjá hvað ég hef eytt miklum tíma í að hafa áhyggjur af áliti annarra,“ segir hún en bloggið hennar má finna hérHún heldur einnig úti reikningi á Snapchat undir notendanafninu Kamillafitness.
„Það sem kom fyrir mig getur komið fyrir hvern sem er. Stundum hugsa ég, hvers vegna gerðist þetta fyrir mig og mína fjölskyldu? En ég ætla ekki að vera bitur yfir því,“ segir hún loks. „Ég ætla að láta þessa upplifun gera mig að betri og sterkari manneskju og ég mun aldrei gefast upp.“