fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Danskar ljósbláar myndir á Stöð 2

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 3. janúar 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haustið 1989 hóf Stöð 2 sýningar á dönskum ljósbláum myndum, þar sem brá fyrir kynlífi. Um var að ræða tuttugu ára gamlar danskar „rúmstokksmyndir“ sem sýndar höfðu verið í kvikmyndahúsum hérlendis á sínum tíma við miklar vinsældir. Í sjónvarpsútsendingu voru þær þó vel klipptar til.

Myndir þessar voru sýndar seint á kvöldin þegar börn voru almennt háttuð og fyrir sýningar var rækilega tekið fram að myndirnar væru ekki við hæfi barna. Þrátt fyrir það urðu sýningar myndanna tilefni mikilla deilna og svo fór að forsvarsmaður stöðvarinnar var dreginn fyrir dóm vegna málsins.

Fjórar bláar myndir sýndar

Á þeim tíma voru áskrifendur Stöðvar 2 um 37 þúsund talsins og því má ætla að stór hluti þjóðarinnar hafi getað séð umræddar myndir. Kona nokkur kærði Jón Óttar Ragnarsson, sjónvarpsstjóra Stöðvar 2, fyrir sýningu myndanna eftir að ein slík hafði verið sýnd. Í kjölfarið fór rannsóknarlögregla ríkisins þess á leit við forráðamenn Stöðvar 2 að þeir hættu að sýna umræddar myndir meðan á rannsókn stæði. Við því var ekki orðið og alls voru sýndar fjórar myndir.
Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur forráðamönnum stöðvarinnar. Í ákærunni sagði að með sýningu myndanna hefðu forráðamenn stöðvarinnar gerst brotlegir við 2. málsgrein 210. greinar almennra hegningarlaga. Samkvæmt greininni (sem enn er óbreytt í lögum) er óheimilt að „búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá opinberlega til sýnis“. Brot gegn þessu ákvæði varðaði sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex mánuðum.

„Mörg klámfengin atriði“

Dómur var kveðinn upp í sakadómi Reykjavíkur snemma árs 1990. Jón Óttar var dæmdur í 200 þúsund króna sekt fyrir sýningar á tveimur dönskum myndum sem að mati dómsins voru álitnar vera klám. Yrði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms bæri Jóni Óttari að sæta varðhaldi í 40 daga. Við ákvörðun refsingar var tekið tilliti til þess að umræddar myndir voru sýndar að nóttu til og að tilgreint var í dagskrárkynningu að þær væru „stranglega bannaðar börnum“. Sakadómarinn naut aðstoðar tveggja sérfróðra meðdómenda, annars vegar dr. Eyjólfs Kjalars Emilssonar, siðfræðikennara við heimspekideild Háskóla Íslands, og hins vegar Kristínar Jóhannesdóttur leikstjóra.

Myndirnar sem um var að ræða voru „Í tvíburamerkinu“ og „Í nautsmerkinu“. Í dómi sakadóms segir að í báðum myndunum komi fyrir „mörg klámfengin atriði, þar sem lögð er áhersla á að sýna með lostafullum hætti kynfæri karla og kvenna, kynmök samkynja fólks og ósamkynja, mök fleiri en tveggja í einu og fólk við sjálfsfróun og eru slík atriði a.m.k. sex í fyrri myndinni og að a.m.k. tíu í þeirri síðargreindu“. Rannsakendur málsins og dómararnir höfðu greinilega horft gaumgæfilega á myndirnar.

„Það, sem þótti klám fyrir hundrað árum, er nú margt talið sjálfsagt og eðlileg,“ sagði ungur lektor í stjórnmálafræði, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem gagnrýndi dóminn.
Í nautsmerkinu „Það, sem þótti klám fyrir hundrað árum, er nú margt talið sjálfsagt og eðlileg,“ sagði ungur lektor í stjórnmálafræði, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, sem gagnrýndi dóminn.

Kynþokkalist eða klám?

Dómendur studdust við skilgreiningar á klámi sem sérfræðinganefnd Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hafði samið. Klám (pornografia) væri að mati UNESCO „ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi án ástar, blíðu eða ábyrgðar“. Klám væri aftur á móti andstæða kynþokkalistar (erotika) sem væri þá „bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar“. Það var því ekki að undra að nektardansstaður í Kópavogi notaðist síðar við slagorðið „þar sem dans er list“.

Efni kvikmyndanna var heimfært upp á þessar skilgreiningar og að mati dómenda væri greinilega lögð áhersla þar á að sýna kynlíf og kynfæri á ögrandi hátt „án þess að séð verði að það þjóni neinu augljósu markmiði öðru en að sýna kynlífsathafnir“. Aftur á móti væri „listrænn, fagurfræðilegur eða leikrænn tilgangur“ atriða myndanna ekki sýnilegur. Því væri um að ræða klám í skilningi 2. málsgreinar 210. greinar almennra hegningarlaga. Þó var sýknað af út af tveimur atriðum í kvikmyndinni „Í tvíburamerkinu“ en ekki kom fram hvað gerði það að verkum að umrædd atriði töldust ekki klám.

Ekki mjög „líberal“ dómarar

Jón Óttar benti á að lögin væru úrelt. Þau byggðust á dönskum lögum sem hefðu verið numin úr gildi þar í landi árið 1967. Hann kvaðst líka undrast viðhorf meðdómendanna og sagði þau „greinilega ekki mjög líberal, sem er skrýtið með svona ungt og velmenntað fólk“. Hann sagðist vera fremur hissa en reiður yfir dómnum og nefndi í blaðaviðtali: „Myndirnar á Stöð 2 voru vel leiknar danskar myndir og þar að auki klipptar. Þessar sömu myndir má fá á myndbandaleigum í óklipptum útgáfum, auk margra annarra mynda sem virkilega eru harðsoðið klám. Það eru líka til heilar sjónvarpsrásir sem senda ekkert annað út en klám. Þessi dómur var bara alveg út í hött.“

Kvennalistakonan Ingibjörg Hafstað, sem jafnframt var félagi í samtökunum „Konur gegn klámi“ fagnaði aftur á móti dómnum og sagði: „Þetta er eins gróft og hugsast getur að senda klám gegnum opinbera fjölmiðla. Klám er alltaf ofbeldi og ég held að það sé mikill léttir fyrir margar fjölskyldur í landinu að Stöð 2 var stöðvuð.“ Ingibjörg vildi engan greinarmun gera á myndum, hvort sem þær væru „dökkbleikar, ljósbláar eða hvað þú vilt kalla það“ og sagði svo: „Það er bara stigsmunur á klámi og hvort sýnd er nauðgun eða annað klám; boðskapurinn er ofbeldi.“ Hún sagði myndir af þessu tagi ýta undir fordóma og sagðist sjá fyrir sér „strákahópinn í einhverri blokkinni sem safnast fyrir framan eina bláa“.

Sakadómi þótti mörg klámfengin atriði í hinum ljósbláu myndum. Rannsakendur málsins og dómararnir höfðu greinilega horft gaumgæfilega á myndirnar.
Í tvíburamerkinu Sakadómi þótti mörg klámfengin atriði í hinum ljósbláu myndum. Rannsakendur málsins og dómararnir höfðu greinilega horft gaumgæfilega á myndirnar.

Klám er „loðið og teygjanlegt“

Ýmsir urðu til að gagnrýna dóminn. Þeirra á meðal var ungur lektor í stjórnmálafræði við Háskólann, Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Hann spurði í kjallaragrein í DV: „Hvers vegna í ósköpunum gat blessuð konan ekki skipt um rás, slökkt á tæki sínu eða sagt upp áskrift að Stöð 2? Hvers vegna þurfti hún að skipta sér af því, sem aðrir vildu horfa á?“ Hannes taldi rangt af sakadómi að fella dóminn, þar sem lagaákvæðið um klám væri fallið úr gildi vegna fyrnsku og því hefði átt að beita þröngri skilgreiningu á hugtakið, sem sannarlega væri „loðið og teygjanlegt“, líkt og prófessor í refsirétti hafði orðað það.

Hannes bætti við: „Það, sem þótti klám fyrir hundrað árum, er nú margt talið sjálfsagt og eðlilegt … Að nútíðarskilningi er varla neitt það klám, sem frjálsir og fullorðnir einstaklingar eru fúsir til að gera við sjálfa sig eða hverjir við aðra.“ Þar með talið væri að horfa á bláar myndir á Stöð 2.

Hæstiréttur staðfesti dóm sakadóms og af því tilefni sagði í vikublaðinu Pressunni: „Nú velta menn fyrir sér hvar öldungarnir í Hæstarétti setja mörkin. Næst hlýtur dómsvaldið að snúa sér að bíóhúsunum, myndbandaleigunum, bókabúðunum, blöðunum og sundlaugunum …“

Alltof rúm skilgreining á klámi

Síðan þetta mál kom upp hefur löggjafinn ekki skýrt hugtakið klám á nokkurn hátt og 210. grein almennra hegningarlaga er óbreytt sem fyrr. Árið 2000 gerði lögregla upptækt mikið magn blárra kvikmynda í verslun í Reykjavík. Eigandi verslunarinnar var ákærður og hlaut dóm í héraðsdómi, þar sem sagði meðal annars um efni myndanna: „Lögð er áhersla á að sýna kynfæri karla og kvenna … munnmök, sjálfsfróun og fjöldakynmök, allt á ögrandi hátt … Myndskeiðin eru dregin á langinn og kynfæri sýnd í nærmynd við kynmök … án þess að séð verði að það þjóni neinu augljósu markmiði en því að sýna kynlífsathafnir. Listræn eða bókmenntaleg tjáning ástar var ekki sýnileg í þeim myndskeiðum, sem skoðuð voru.“

Hér var auðsjáanlega byggt á forsendum dómsins í málinu gegn Jóni Óttari og þessi staða er enn uppi. Það er allt talið klám sem sýnir kynfæri fólks og kynmök í öðrum tilgangi en „listrænum“ eða „bókmenntalegum“. Líklega þykir flestum nútímamönnum sem sú skilgreining gangi of langt, enda erfitt að greina mörk hins listræna.

Björn Jón Bragason

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“