fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fókus

Ég held stundum að ég sé í ofbeldissambandi – Verð ég að skilja?

Fókus
Sunnudaginn 2. maí 2021 19:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem telur sig vera í ofbeldissambandi. 

Kristín Tómasdóttir

Sæl Kristín

Stundum held ég að ég sé í ofbeldissambandi. Ég hef tekið eftir því að annaðhvort er allt alveg frábært eða gjörsamlega ömurlegt og ekkert þar á milli. Þannig hefur þetta alltaf verið og mér finnst ég ekki hafa neina stjórn á því hvenær sambandið er gott og hvenær allt er í ræsinu. Þegar allt er gott þá lofar hann mig, dýrkar og dáir en í hina röndina er ég geðveik, stjórnsöm, aumingi og ofsafengin. Þegar allt er gott stundum við mikið kynlíf, förum út að borða saman og hittum vini og fjölskyldu.

Þegar allt er glatað er ég stundum innilokuð heilu dagana því ég hef ekki orku í neitt og allt mitt fer í sambandið. Hann á miklu meiri peninga en ég og vinnur meira á meðan ég er leikskólakennari og hef átt við kulnun að stríða undanfarið. Af þeim sökum finnst mér ég stundum háð honum en hann lætur mig bara fá pening þegar það er allt í góðu hjá okkur en þegar það er ekki þá skilur hann mig stundum eftir bíllausa, peningalausa og mögulega ekki með mikinn mat í ísskápnum.

Hann hefur aldrei lagt hendur á mig, lamið mig eða beitt mig öðru líkamlegu ofbeldi en hann getur verið mjög ógnandi, brotið hluti, skellt hurðum, öskrað og stundum er honum svo mikið niðri fyrir að hann fer að hágrenja án þess að ég viti hvers vegna. Stundum biðst hann afsökunar en það var algengara hérna áður fyrr en þá hef ég stundum bent honum á að þetta sé einfaldlega ofbeldi. Þá segir hann alltaf á móti að það sé ég sem er að beita hann ofbeldi því ég sé stjórnsöm og öskri. Hann á svo mjög erfitt með að fyrirgefa mér að hafa ásakað hann um ofbeldi og hann getur ekki gleymt því. Ég er orðin ansi tóm en ég get ekki slitið mig út úr þessu.

Ég veit að fjölskylda mín og vinir hafa smá áhyggjur af mér og finnst þetta ekki alveg eðlilegt en ég reyni samt bara að hylma yfir og láta eins og við séum agalega hamingjusöm (a.m.k. á Instagram). Er þetta ofbeldi? Hvað get ég gert í því? Verð ég þá að skilja?

Sæl og takk fyrir spurninguna þína.

Í nýlegu myndbandi frá Bjarkahlíð (miðstöð fyrir þolendur ofbeldis) segir ráðgjafi að flestir sem þangað leita eru alls ekki viss um að þau séu að verða fyrir ofbeldi. Algeng orð í þeirra eyru eru: „Ég veit ekki alveg hvað ég er að gera hérna”. Kunnuglegt? Þetta er eitt einkenni þess að vera í ofbeldissambandi þ.e. að efast um sig, aðstæður sínar og mörkin sín. Þegar ofbeldið er ekki líkamlegt þá á fólk erfiðara með að sjá og viðurkenna að um ofbeldi sé að ræða þó svo að allt bendi til þess. Þarna komum við að því að ofbeldi á sér margar birtingamyndir en yfirleitt fela þær í sér kúgun, stjórnsemi og ógnun. Þá getur einnig verið gott að greina ofbeldi út frá áhrifunum sem það er að hafa á þig fremur en atferlinu sem hann er að sýna þér.

Rauðu ljósin

Ég hnýt um nokkur atriði í spurningunni þinni. Í fyrsta lagi að þú virðist enga stjórn hafa á aðstæðum í sambandinu þínu. Í öðru lagi að þú upplifir þig háða honum og í þriðja lagi að þetta hafi áhrif á daglegt líf þitt og þínir nánustu hafi áhyggjur af þér. Þetta eru allt atriði sem kveikja rauð ljós í mínum huga. En hjá þér?

Í mínu starfi við hjónabandsráðgjöf nýti ég áhættumatskvarða um ofbeldi ef mig grunar að það geti verið ofbeldi í sambandinu. Ég fyllti út slíkt mat út frá þeim upplýsingum sem þú gefur mér í spurningunni. Ef upplýsingarnar þar væru ítarlegri er líklegt að þú myndir vera metin í enn meiri hættu en niðurstöður gefa til kynna, en aðalatriðið er að þú myndir (miðað við þessar litlu upplýsingar) skora hátt og uppfyllir ákveðin skilyrði sem gefa mér vísbendingar um að þú sért að verða fyrir ofbeldi og/eða sért í áhættu um að verða fyrir því.

Gerendur geta fengið aðstoð

Líkamlegt ofbeldi er í mörgum tilfellum „endakarlinn”. Það byrjar oft ekki fyrr en sem framhald af andlegu, fjárhagslegu og/eða kynferðislegu ofbeldi. Á heimasíðunni www.kvennaathvarf.is má finna skilgreiningar á mismunandi birtingamyndum ofbeldis og dæmi um slíkt. Þú getur skoðað þær skilgreiningar og mátað þig við þær til þess að fá staðfest það sem þig grunar. Þá gæti verið gott ráð að fá viðtal í Bjarkahlið (sími: 553 3000) til þess að meta við þeirra sérfræðinga stöðu þína. Ekki hika, ef þau meta stöðu þína hættulausa þá er enginn skaði skeður, það sakar ekki að tékka.

Þú spyrð hvort þú verðir að skilja og það er því miður ekki mitt að segja til um það. Í mínu starfi hef ég séð að fólk getur lagað og unnið sig út úr allskyns vanda í parsambandi. Fólk sem beitir ofbeldi í parsambandi getur til að mynda fengið aðstoð hjá Heimilisfriði (sími 555-3020) við að hætta að beita ofbeldi, en aðal forsenda þess að slík aðstoð skili árangri er að viðkomandi átti sig á ofbeldinu og vilji gera eitthvað í því.

Alltaf til leiðir út

Þá hef ég líka orðið vitni af því hve heitt sumt fólk þráir að komast út úr ofbeldissambandi en telur sig ekki geta gert það. Það er vond staða en alls ekki ómöguleg. Það eru alltaf til leiðir út og um leið og þú sérð þær munt þú fá kraftinn sem þú þarft til þess að slíta þig lausa.

Ef þú telur þig í hættu er mikilvægt að þú sért með síma nálægt þér, að þú óskir eftir aðstoð frá 112 við minnsta tilefni og að þú hugir að flóttaleiðum.

Konur í þinni stöðu eiga oft mjög erfitt með að brjótast út, taka fyrsta skrefið og leita aðstoðar en með því að senda mér þessar línur ertu sannarlega komin vel á veg. Þú getur þetta allt en hugurinn er að trufla þig. Leyfðu þínum nánustu að hjálpa þér, fáðu lánaða dómgreind þeirra og treystu á þá sem vilja þér vel.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Í gær

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kærastinn hættur að veita henni athygli – Íhugar að verða klámstjarna

Kærastinn hættur að veita henni athygli – Íhugar að verða klámstjarna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur sannfærðir um að þetta hafi verið leynileg skilaboð Bieber til fyrrverandi

Aðdáendur sannfærðir um að þetta hafi verið leynileg skilaboð Bieber til fyrrverandi