Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hefur áhyggjur af rifrildum við makann.
Sæl Kristín.
Ég og kærastan mín höfum verið saman í fjögur ár. Yfirleitt gengur allt vel, við eigum eina dóttur og gerum mikið saman. Vandamálið er bara að þegar við rífumst þá verður allt vitlaust og það tekur marga daga að laga rifrildi sem við munum oft ekki um hvað snérist.
Við erum báðar frekar þrjóskar en mjög ólíkar. Það skrítna er að við erum yfirleitt bestu vinkonur en þegar þetta gerist (kannski fjórum sinnum á ári) þá verðum við óvinkonur, sjáum allt svart, ætlum að hætta saman og nánast eins og við hötum hvor aðra.
Þetta er orðið þannig að við erum orðnar hræddar við að eiga erfið samtöl og sleppum þeim frekar en að eiga það á hættu að allt fari í háaloft. Ég vil alls ekki skilja en það væri voða næs að geta lagað þetta eitthvað, heldur þú að það sé hægt?
Sælar
Takk fyrir spurninguna. Vandinn sem þú lýsir er stundum nefndur „hringekjuvandinn” og svo sannarlega er hægt að laga hann. Það krefst þó meðvitundar hjá báðum aðilum og samstillt átak til breytinga.
Ástæðan fyrir því að slíkum paravanda er líkt við hringekju er að hann einkennist af mynstri sem endurtekur sig aftur og aftur og verður að vítahring. Til þess að uppræta vandann er því mikilvægt að kortleggja mynstrin og reyna að grípa inn og breyta áður en þau birtast á nýjan leik. Algengasti paravandi para er misskilningur og hann getur sannarlega undið upp á sig. Misskilningurinn verður til þegar fólk talar ekki saman heldur hugsar í sitthvoru lagi. Hvað hafið þið verið að misskilja hjá hvor annarri? Hvað hugsar þú en segir ekki fyrr en allt er komið í háaloft?
Vítahringur myndast
Ef við tökum dæmi þá geta svona vítahringir orðið algengir í tengslum við heimilishald. Öðrum aðilanum þykir á sig hallað í þrifum en byrgir það inni þar til allt springur í háaloft. Þá kemur hinn aðilinn af fjöllum og finnst þetta uppnám full mikið og ósanngjarnt miðað við aðstæður. Kunnuglegt?
Eðli vítahringsins er að í hvert sinn snýst hann hraðar og hlekkjunum fækkar. Það hefur kannski truflað þig að það er aldrei þurrkað af borðum og þú nefnir það í nokkur skipti og biður konuna þína um að gera það betur og oftar. Að endingu þarf ekki mikið kusk og mögulega engan fyrirvara til þess að þú springir og verðir ósanngjörn yfir pínulítilli brauðmylsnu sem henni yfirsást þegar hún þurrkað af borðinu. Henni finnst þá viðbrögð þín ofsafengin því hey, hún var að reyna að gera eins og þú baðst um. Misskilningurinn felst þá í því að annar aðilinn heldur að borðmylsna sé að valda þessum æsinginn en í raun er það sú tilfinning að á þig sé hallað í heimilishaldi. Þetta er tvennt ólíkt.
Við svona vanda getur reynst vel að minna sig á hina klassísku leikskólareglur „notaðu orðin þín”. Orðin þurfum við helst að nota um leið og eitthvað smotterí er farið að pirra okkur og áður en það byrjar að krauma og sjóða upp úr.
Heyrum bara það neikvæða
Til þess að fyrirbyggja misskilning er mikilvægt að tala saman en ekki síður getur lausnin falist í því að hlusta. Þá á ég við að hlusta á hvor aðra en ekki síður að hlusta á sitt eigið ástand og hæfni til þess að eiga í erfiðum samræðum. Þegar fólk talar saman í mikilli taugaspennu þá heyrir það bara 10% af því sem er sagt við það og oftast bara það neikvæða. Við tökum úr samhengi það sem sagt er og grípum á lofti eitthvað sem okkur er minnistætt. Þessi vitneskja ítrekar mikilvægi þess að þegar þið finnið að hringekjan ykkar er að fara af stað þá takið þið stöðuna á spennustiginu og metið hvort mögulega sé réttast að bíða aðeins með þessa umræðu, kæla og taka upp þráðinn þegar betur liggur á ykkur. Sum pör eiga sér leyniorð eins og t.d. „pass” sem þau vita bæði hvað þýðir og frestar erfiðum málum þar til allir eru vel upplagði og búnir að hugsa stöðuna.
Þú segir að þið séuð hættar að ræða eldfim mál, en getur verið að þið þurfið bara að breyta um taktík þegar slík samtöl eiga sér stað? Prófaðu að skapa notalegar og skemmtilegar aðstæður t.d. fara út að hjóla saman eða útbúa góðan brönsj á laugardegi en með þeim formerkjum að þar verði farið yfir mál sem hafa truflað ykkur í sambandinu. Þið getið svo í sameiningu reynt að kortleggja um hvað rifrildin ykkar snúast, á hvaða tíma þau eiga sér stað og hvernig hegðun ykkar brýst út við slíkar aðstæður. Er eitthvað sem þið getið gert öðruvísi? Oftar? Eða við aðrar aðstæður?
Að lokum, fagmenn eru sérhæfðir í að greina vanda og vítahringi og gefa ykkur hlutlausar ábendingar um hvað þið getið gert öðruvísi. Það kallar ekki endilega á marga tíma en lítil aðstoð getur framkallað stór kraftaverk. Hér er til mikils að vinna þar sem örlítið hnykk getur gert gott enn betra!
Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.
Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.