fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Vítahringur í samskiptum við uppkomin börn – Mér líður eins og börnin mín þoli mig ekki

Fókus
Sunnudaginn 18. apríl 2021 19:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hefur áhyggjur af samskiptum við uppkomin börn sín.

Kristín Tómasdóttir

Sæl Kristín.

Ég á tvö „uppkomin” börn, eldra er 24 ára og yngra er 19 ára. Eldra barnið er flutt að heiman og yngra barnið býr alveg hjá föður sínum en við skildum þegar börnin voru í grunnskóla. Mér líður eins og börnin mín þoli mig ekki enda pirrast þau mjög fljótt á mér og öll okkar samskipti verða yfirborðskennd eða þau enda í rifrildi. Mig langar að laga þetta en er hrædd um að það sé orðið of seint. Áttu til einhver góð ráð?

Bestu kveðjur,

Mamman

 

Flækist oft þegar börnin eldast

Sæl mamma

Takk fyrir einlæga spurningu, sem er sársaukafull og erfið en líka skiljanleg og frekar algeng. Ég leyfi mér að fullyrða að langflestir foreldrar geri sitt allra besta, vilja börnunum sínum vel og elska þau út af lífinu. Þú ert engin undantekning frá þeirri reglu enda augljóslega meðvituð um vandann, vilt gera vel og bæta þá stöðu sem nú er komin upp. Vel gert mamma!

Tengsl milli foreldra og barna eru gríðarlega sterk og geta tekið á sig margar ólíkar myndir. Móðir og barn geta í senn elskað hvort annað ofboðslega heitt og farið ískyggilega í taugarnar á hvort öðru. Foreldrar vilja oft pakka börnunum sínum inn í bómull, vernda þau, ráðleggja og stýra þeim langt fram á fullorðinsaldur. Börn aftur á móti hafa þörf fyrir að prófa vængina sína, feta sínar leiðir og skokka á nokkra veggi. Þessi dínamík verður oft flóknari eftir því sem börnin eldast. Við getum leitt þau í gegnum fyrstu árin en smátt og smátt þurfa foreldrar að læra að sleppa takinu og börn að ganga hjálparlaust. Þú hættir aldrei að vera mamma þeirra en hlutverk þitt breytist og ábyrgðin gagnvart þeim minnkar eftir því sem þau eru fær um að taka ábyrgð á sér sjálf.

Getur verið að þessar krossgötur séu rót ykkar vanda? Ef svo er, þá gæti verið ráð fyrir þig að skoða það aðeins nánar og þá hvernig þú sérð fyrir þér að samskiptum ykkar gæti verið háttað á fullorðinsárum barnanna þinna.

Jákvæð styrking

Fólki hættir til að vilja breyta öðru fólki, skoðunum þeirra eða hegðun. Það er þó ekki jafn auðvelt og það hljómar. Auðsóttasta leiðin til þess að breyta öðrum er að breyta sjálfum sér. Í þessu felst að ef þú vilt að börnin þín komi öðruvísi fram við þig, þá gæti greiðasta leiðin verið að breyta einhverju hjá sjálfri þér. Fræðin segja að ef þú vilt viðhalda hegðun fólks þá reynist vel að nota jákvæða styrkingu, t.d. hrós, umbun eða hvatningu. Sömuleiðis að ef þú vilt slökkva ákveðna hegðun hjá öðru fólki þá gæti virkað vel að gefa lítið fyrir þá hegðun, jafnvel hunsa hana.

Ef við setjum þetta í samhengi við það mynstur sem virðist hafa þróast milli þín og barnanna þinna þá væri ráð að skoða þín viðbrögð frekar en þeirra. Þú nefnir, t.d. að annað hvort séu samskiptin yfirborðskennd eða enda með rifrildi. Hvernig getur þú breytt þessu með þínum viðbrögðum? Geturðu hrósað þeim þegar þau tala fallega til þín eða þegar þú nærð einlægu spjalli við þau? Hvað getur þú gert til að forðast að taka þátt í rifrildi? Ég tek það fram að ég er ekki að setja alla ábyrgðina yfir á þig. Samskipti eru alltaf á tvo vegu en báðir aðilar eru þá sömuleiðis mjög voldugir.

Börnin þín þekkja þig mjög vel og eru alveg pottþétt með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig þú ert vön að bregðast við og það getur valdið lágum þröskuldi gangvart þér sem þróast fljótt út í pirring. Það getur sömuleiðis unnið með þér, þú þarft þá mögulega að gera bara örlitlar breytingar á þinni hegðun svo þú komir þeim að óvart.

Börn eru töluvert lengur börn í dag en þau voru fyrir einhverjum áratugum síðan. Þá á ég við að, t.d. barneignaaldur hefur hækkað mjög mikið, börn búa mun lengur í foreldrahúsum en áður og foreldrar taka meiri og lengri ábyrgð á börnunum sínum en tíðkaðist. Þetta merkir að þó svo að þín kynslóð geri ráð fyrir því að tvítugt fólk sé orðið fullorðið og að það sé hægt að eiga samskipti við þau sem slík þá má vel vera að þeim skorti ákveðin þroska svo að það geti átt sér stað. Getur verið að pirringurinn sem þú talar um sé mögulega leifar af unglingaveikinni?

Búa til nýjar aðstæður

Það er merkilegt hvað samtal getur verið erfitt, samtal við okkar nánustu um einföld mál, en ég mæli alltaf með því. Getur þú boðið börnunum þínum inn í notalegar aðstæður og bryddað upp á umræðu um að þú viljir eiga sterkari og betri tengsl við þau og langir til að leggja þitt að mörkum svo að það geti gerst?

Aftur á móti, þá er líka sagt að börn læri ekki það sem sagt er heldur það sem er gert. Hvað eruð þið að gera þegar samskiptin eru yfirborðskennd eða þróast út í rifrildi? Þegar þau koma í heimsókn til þín, í mat eða á hátíðum? Getur þú skapað öðruvísi aðstæður eða gert eitthvað með börnunum þínum sem ykkur gæti þótt skemmtilegt og kallar á annað viðmót? Sem dæmi má nefna útivist, hreyfingu, horfa á kvikmynd, fara á listasöfn, elda saman mat o.s.frv.

Ykkar vandi virðist vera orðin að vítahring sem er afar algengt í samskiptum innan fjölskyldna. Til þess að brjóta upp slíka hringi þarf að grípa inní áður en vandinn skapast, áður en samskiptin verða tilgerðarleg og áður en þau þróast út í rifrildi. Þið leikið öll áhrifamikil hlutverk í þessum vítahring og með því að breyta þínu örlítið kallar það oft á að hinir „meðleikendur“ þínir verða að bregðast öðruvísi við en þau myndu annars gera.

Að lokum, með því einu að leita til mín og velta þessu fyrir þér ert þú að taka ábyrgð á samskiptum ykkar og meðvituð um að þeim þurfi að breyta. Það eitt segir mér að þú sért á réttri vegferð. Ég hef séð mörg dæmi þess að slík vegferð hefur skilað tilsettum árangri og ég hef fulla trú á að það muni gerast í þínu tilfelli. Gangi þér sem allra best.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu

Fór í trekant með eiginkonunni og nágrannanum – Það rústaði hjónabandinu
Fókus
Í gær

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bókarýni: Ljóslifandi 200 ára gömul harmsaga

Bókarýni: Ljóslifandi 200 ára gömul harmsaga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hverju skyldu útlendingar eiga bágt með að trúa um Ísland?

Hverju skyldu útlendingar eiga bágt með að trúa um Ísland?