fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Mig langar í barn þó ég sé einhleyp – Er tæknifrjóvgun málið?

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 16. maí 2021 19:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem veltir fyrir sér tæknifrjóvgun án maka.

Kristín Tómasdóttir

Sæl Kristín

Ég er 28 ára og mig langar í barn, en ég á engan mann og ekkert sem stefnir í að ég eignist mann. Mælir þú með að ég fari í sæðisbanka og tæknifrjóvgun?

Bestu kveðjur.

Parasambönd ekki fyrir alla

Sæl!

Takk fyrir traustið og góða spurningu. Mér finnst dálítið sætt að þú haldir að ég viti rétta svarið fyrir þig en lokasvarið liggur að sjálfsögðu hjá þér sjálfri. Hér verður þó reynt að koma á framfæri nokkrum atriðum sem þú getur stuðst við í leit að þinni bestu lausn.

Samfélagið okkar gerir ráð fyrir því að við séum í pörum, það er eining sem passar best inn í hagkerfið, stjórnsýsluna, vinnumarkaðinn, fjölskylduna o.s.frv. Aftur á móti hentar það alls ekki öllum að vera í pörum og samfélagið er sem betur fer farið að aðlaga sig betur að þeirri staðreynd. Við erum orðin umburðarlyndari fyrir fjölbreyttari fjölskyldugerðum en mættum gera miklu betur þannig að fólk eins og þú hafir fleiri og betri fyrirmyndir í tengslum við það form sem því finnst eftirsóknavert.

Fólk sem er í góðu parsambandi metur sig almennt hamingjusamara en annað fólk. Sömuleiðis metur fólk í slæmum parsamböndum hamingju sína undir meðallagi. Þetta segir okkur að það hefur gríðarleg áhrif á hamingju okkar að vanda til verka þegar kemur að parsamböndum og vera meðvituð um áhrif þess á hamingjuna. Einstaklingar sem hafa ekki fundið „rétta makann” velja því oft að hámarka hamingju sína á eigin forsendum og taka ekki áhættuna á því að annar einstaklingur geti híft upp hamingjustuðulinn. Af spurningu þinni að dæma hefur þú ekki mikla trú á því að góður maki sé væntanlegur í bráð en þú þráir að eignast barn. Getur þá ekki verið að þú sért einmitt að taka ábyrgð á eigin hamingju með því að setja fókus á það að eignast barn og leyfa maka spilinu að bíða örlaganna?

Togstreitan skemmir út frá sér

Algengasti tími skilnaða er á fyrsta æviári fyrsta barns. Ástæðan er sú að parsambönd þar sem togstreita ríkir þola illa þá streitu og erfiði sem fylgja því að eiga ungbarn. Ef par er ekki samstillt getur það flækt umönnun ungabarna mjög mikið, haft áhrif á tengslamyndun og framtíðarvellíðan barnsins. Þá er algengt að foreldrar sem skilja upplifi mikinn létti sem einstæðir foreldrar enda lausir við togstreitu og pirring sem myndast í tengslum við deilur milli parsins. Þetta er nokkuð sem foreldrar sem eignast börnin sín einir eru lausir við. Þá getur þú einungis treyst á þig og ert ekkert að pirra þig yfir því að einhver sem „ætti” að vera til staðar er það ekki.

Á móti kemur að umönnun og uppeldi barna er krefjandi og krefst þess að þú sért stöðugt á vakt. Vaktaskiptin eiga sér ekki stað og þú getur aðeins treyst á sjálfa þig. Í því felst mikið álag, sérstaklega á fyrstu árunum en eftir því sem barnið verður eldra og sjálfstæðara er það auðveldara að standa vaktina ein. Í þessu samhengi getur því verið gott að hafa í huga að umönnunin barna er alltaf í tímabilum og stundum þarf bara að bretta upp ermar í ákveðinn tíma sem verður svo auðveldari. Ef þú treystir þér ein í það þá munt þú vafalaust rúlla þessu upp.

En ef þú eignast svo maka?

„It takes a village…” segir í frasanum um að það þurfi heilt þorp til þess að ala upp barn. Í því er ákveðið sannleikskorn en það þýðir ekki að allir þurfi að eiga tvo ástfangna foreldra til þess að úr þeim rætist. Ó nei, en það gæti verið ráð að skoða hvert bakland þitt er, hvort einhver myndi aðstoða þig og hvernig sú aðstoð gæti nýst sem best. Ef baklandið er sterkt geta bæði þú og barnið grætt ótal margt á því.

Rannsóknir sýna að einstæðir foreldrar eru bara einstæðir foreldrar í að meðaltali tvö ár á Íslandi. Það merkir að það er líklegt að þú sem einstæð móðir munir eignast maka í framtíðinni, nokkuð sem þú gætir haft gott af því að hugleiða aðeins þó þú veljir að fara þessa leið. Hvernig myndir þú flétta saman nýjan maka og barnið þitt?

Sumir velja að eignast börnin sín einir, aðrir verða einstæðir foreldrar gegn vilja sínum. Þetta er tvennt ólíkt. Njóttu þess að taka yfirvegaða ákvörðun, skoðaðu alla kosti og galla og reyndu að undirbúa þig sem allra best. Þannig munt þú rúlla upp öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Gangi þér sem allra best.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ólafur Ingi bað konuna sína um skilning – „Hún sagði nei og vildi skilnað“

Ólafur Ingi bað konuna sína um skilning – „Hún sagði nei og vildi skilnað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína sannar að það er ljós við enda ganganna – Sigraðist á átröskun og fíknivanda

Valentína sannar að það er ljós við enda ganganna – Sigraðist á átröskun og fíknivanda