fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Á ég að segja vinkonu minni ef kærastinn er að halda framhjá henni? – Sendiboðinn verður drepinn

Fókus
Sunnudaginn 9. maí 2021 20:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem veit ekki hvort hún á að upplýsa um framhjáhald.

Kristín Tómasdóttir

Sæl og blessuð, Kristín.

Mig langar að fá ráð.  Á ég að segja vinkonu minni ef kærastinn er að halda framhjá henni? Auðvitað veit ég að það er hið eina rétta, en í þessu tilfelli veit ég að sendiboðinn verður drepinn og mér ekki trúað. Mig langar ekki að missa þessa vinkonu. Er svo týnd í þessu máli. Getur þú gefið mér ráð.

Með bestu kveðju. 

 

Hagur ykkar beggja

Sæl

Takk fyrir góða en erfiða spurningu.

Góðar vinkonur eru gulls ígildi og það er eitthvað til í klisjunni: Makar geta komið og farið en vinkonur þær fara ekki neitt. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að rækta tengsl sín við vinkonur og gleyma þeim ekki þegar ástin bankar upp á. Það er nefnilega staðreynd að stundum einangrar fólk sig félagslega eftir að það byrjar í parsambandi og reyndar gerist það oftar fyrir karlmenn en konur. Það getur gerst vegna þess að makinn uppfyllir þarfir fyrir félagsleg tengsl á svo mörgum sviðum, allt í einu verður félagslíf þitt að félagslífi „okkar” og það getur verið allt öðruvísi en það var í lífi einstaklings.

Spurning þín gefur til kynna að þið vinkonurnar séuð tengdar og að þú viljir hvorki særa hana né verða þess valdur að þið missið ykkar tengsl. Það er afar skiljanlegt og getur verið flókið að meta því tengsl í parsambandi geta hæglega yfirgnæft góð vinkonusambönd. Þú þarft því að meta hvort og hvenær það er hagur ykkar beggja að taka upp óþægileg mál.

Í þessu samhengi getur verið gott að spyrja sig fyrir hvað ykkar vinátta stendur og hvernig þú vilt að vináttusamband ykkar þróist. Eins getur verið áhugavert að skoða hvernig þú myndir vilja að vinkona þín myndi bregðast við sambærilegum aðstæðum nema þar sem þú ert sú sem haldið er framhjá. Eins og þú segir sjálf þá veistu hið eina rétta í stöðunni, en hið eina rétta fyrir ykkur er mögulega allt annað fyrir aðrar vinkonur. Það sem ég er að reyna að segja er að þú þarft að finna lausn í þessu máli sem hentar ykkar vinkonutengslum og nálgast vinkonu þína út frá því hvernig þú þekkir hana.

Annar sendiboði?

Þú óttast greinilega að sendiboðinn verði drepinn og þá gæti verið ráð að skoða hvernig sendiboðinn kemur skilaboðunum á framfæri og þá hvort einhver annar gæti tekið að sér að vera sendiboðinn. Markmiðið hlýtur að vera að koma upplýsingum á framfæri án þess að það bitni á ykkar sambandi. Að endingu er það vinkvenna að styðja, grípa og vera til staðar ef skilaboðin valda miklu áfalli. Þú getur s.s. skoðað að koma þessum upplýsingum nafnlaust til vinkonu þinnar eða í gegnum einhvern annan sem tengist ykkur ekki jafn mikið.

Annað sem ég hnýt aðeins um í spurningu þinni og það er sú staðhæfing um að það sé verið að halda framhjá henni. Þú hefur greinilega mjög áreiðanlegar heimildir fyrir því og þess vegna liggur þér á að koma þeim á framfæri. Aftur á móti þarftu að huga að því hvernig þú matreiðir þessar heimildir á borð vinkonu þinnar og þar gætir þú gripið í orð eins og „mig grunar” eða „ég hef heyrt” eða „það ganga sögur um”. Þannig ert þú að segja henni fréttir en án fullyrðinga og ábyrgðar sendiboðans. Það er svo hennar að velja hverju hún trúir og hvað hún gerir við þessar upplýsingar.

Afneitun og fyrirgefning

Flestir fordæma framhjáhald enda er það mjög særandi, veldur trúnaðarbresti og miklum erfiðleikum í parsamböndum. Aftur á móti reyna flestir að halda áfram í parsambandi þrátt fyrir að framhjáhald hafi komið upp. Þetta er gott að hafa í huga ef þú flytur vinkonu þinni þessar erfiðu fréttir þ.e. að það er alls ekki víst að hún muni bregðast við með því að hætta með kærastanum sínum. Ég myndi heldur giska á afneitun og reyna að afsanna að það hafi gerst. Ef það er ekki möguleiki fyrir hana þá getur vel verið að hún reyni að fyrirgefa honum eða lifa með þessum trúnaðarbresti. Í slíkum aðstæðum getur reynt á vinkonur því þú vilt það sem henni er fyrir bestu og það eina rétta í stöðunni frá þínu sjónarhorni er að skilja við hann. Það getur tekið á að horfa á vinkonur sínar gera hið þveröfuga en það er hlutverk vinkvenna að grípa og vera til staðar en ekki gefa fyrirmæli um hvað skuli gert.

Til að pakka þessu saman: Hvað myndir þú vilja í sambærilegum aðstæðum ef þú værir „fórnarlambið”? Þarf það að vera þú sem flytur henni fréttirnar? Getur nafnlaust bréf eða einhver annar sem er henni ekki jafn náin gert hið sama? Hvernig vilt þú hjálpa vinkonu þinni í þessum aðstæðum? Og ekki gera ráð fyrir því að hún muni hlaupa í burtu þó hún fái þessar fréttir. Hvað gerir þú þá?

Gangi þér vel, góða vinkona. Með því að leita þér aðstoðar, pæla og vanda þig í þessu máli munt þú finna lausn sem verndar ykkar trausta vinkonusamband.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér

Hljóp 5 kílómetra á hverjum degi í heilan mánuð – Var fljótur að sjá magnaða breytingu á sér
Fókus
Í gær

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“

Benedikt lenti í miklum vanda á karlakvöldi – „Aðrir við borðið voru farnir að stara á okkur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set

Framkvæmdastjórinn í Paradís flytur sig um set
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa