fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025

Ég kem mér ekki í að biðja um skilnað – Kvíði því að fara heim eftir vinnu

Fókus
Sunnudaginn 11. apríl 2021 09:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðarfræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem vill skilnað en veit ekki hvernig er best að koma sér til að tala um það við makann.

Kristín Tómasdóttir

Sæl Kristín.

Mig langar að skilja við konuna mína til 17 ára en ég get ekki sagt henni það og ég kem því ekki í verk. Ég hef reynt en það hefur endað með því að ég fæ samviskubit og gef hið þveröfuga í skyn, að ég sé bálskotinn í henni. Ég er búinn að hugsa um þetta í svona sjö ár. Nú verður eitthvað að gerast því annars mun ég springa. Þetta er fín kona, við erum góðir vinir og eigum eitt barn sem er 13 ára. Hún er rosalega ástfangin af mér, vill fleiri börn og hún mun aldrei biðja um skilnað. Ég er bara ekki ástfanginn, alveg sama hvað ég reyni.

Ég er ekki hamingjusamur og kvíði því að fara heim eftir vinnu því mér finnst ég þurfa að leika eitthvert hlutverk sem ég er ekki sannur í. Stundum verð ég skotinn í öðru fólki og ég sækist frekar í félagsskap annarra en hennar. Ég er alveg viss um hvað ég vil, ég bara get ekki og veit ekki hvernig ég hrindi því í framkvæmd.

Kær kveðja, Einn í vanda

Þrenns konar aðstoð

Blessaður.

Takk fyrir spurninguna þína. Já stundum er þetta bara svona, það er að segja annar aðilinn er bara ekki ástfanginn, en hinn er að springa úr ást. Það er bæði sárt og erfitt. Sumir segja að það erfiðasta við skilnaði sé að taka ákvörðunina. Sú ákvörðun getur verið lengi að gerjast innra með fólki og það getur tekið mörg ár að koma orðum að því. Það hljómar eins og ákvörðunin sé komin í þínu tilfelli og þú getur verið sáttur með það, eitt þungt skref í rétta átt. Ég mæli samt alltaf með því að fólk fái aðstoð við að taka svona ákvörðun, jafnvel tíma hjá fagaðila eða ræði við góðan vin eða fjölskyldumeðlim.

Fólk sem leitar til mín við vanda í samböndum getur fengið þrenns konar aðstoð. Í fyrsta lagi getur fólk fengið aðstoð við að bæta sambandið, í öðru lagi getur fólk fengið aðstoð við að meta hvort það vilji vera í sambandi eða ekki og í þriðja lagi þurfa sumir aðstoð við að skilja. Stundum þurfa pör að rúlla nokkra hringi í gegnum þetta allt saman til þess að finna staðinn sem þau eru sátt við. Spurning þín bendir til þess að þinn vegur liggi í átt að skilnaði en að þú þurfir aðstoð við að fylgja því eftir. Getur verið að þú sért ekki búinn að hugsa skilnaðinn til enda og að óvissan komi í veg fyrir að þú takir af skarið? Til þess að eyða óvissunni og kvíðanum sem henni fylgir gæti verið ráð að gera plan um næstu skref. Hvernig mynduð þið hátta íbúðarmálum? Forsjármálum? Hvernig myndir þú vilja segja barninu ykkar frá þessari ákvörðun? Hvað verður erfitt? Hvað óttastu mest? Hvernig ætlar þú að tækla það?

Óhamingja eða skilnaðarferli?

Ef pör hugsa ekki skilnað til enda þá er hætta á því að þau haldist saman einfaldlega vegna þess að þau þora ekki að horfast í augu við það sem skilnaður getur haft í för með sér. Og hvort er betra? Að vera í óhamingjusömu sambandi eða takast á við erfitt skilnaðarferli?

Þú nefnir að þú fáir samviskubit og að þú viljir ekki særa konuna þína. Það skil ég mætavel, en hefur þú velt því fyrir þér hvort þú sért jafnvel að særa hana með því að koma heim úr vinnunni og leika hlutverk sem þú ert ekki sannur í? Mögulega væri gott fyrir þig að vera búinn að leiða hugann að aðstoð fyrir konuna þína við þessum særindum. Getur hún leitað til fagaðila? Á hún fjölskyldu og vini sem munu grípa hana? Getið þið farið saman til fagaðila sem getur aðstoðað þig við að aðstoða hana?

Sumum finnst erfitt að koma orðum að svona stórum ákvörðunum og það er mjög skiljanlegt, en það er ekki gott að bíða eftir því að springa og böðla þessu þá út úr sér í mikilli taugaspennu. Þú ert kominn ansi langt og nú er það bara lokahnykkurinn, hann má framkvæma bæði vel og illa. Við undirbúum okkur fyrir annað eins í lífinu og því væri ekki úr vegi að setjast niður og skrifa niður þá punkta sem þú vilt að komi fram. Hvernig viltu orða þetta? Hvað viltu að hún viti? Við hvaða aðstæður væri best að nefna þetta? Þá gæti það reynst vel að óska eftir því við maka að fara saman til fjölskyldumeðferðarfræðings, stundum er auðveldara að koma orðum að erfiðum málum með hlutlausan þriðja aðila sér við hlið.

Stór og erfið ákvörðun

Ef þú spyrð mjög hamingjusamt fólk hvers vegna það er svona hamingjusamt þá er tíðasta svarið: góður maki. Sem er óþolandi í ljósi þess að við viljum að hamingja okkar byggi á okkur sjálfum. En það segir okkur líka að ef við erum ekki í góðu sambandi þá getur það dregið verulega úr hamingju fólks, eins og þú nefnir raunar sjálfur. Í ljósi þess gæti það orðið þér innblástur að svona stór og erfið ákvörðun geti leitt til þess að þú, þrátt fyrir erfiðleika, finnir fyrir meiri hamingju í kjölfarið. Ég vildi óska þess að þú myndir sjá hversu langt þú í raun og veru ert kominn í þessu ferli. Þér hefur liðið illa í nokkuð langan tíma og ef þú ert sannfærður um að þú þurfir út úr þessu sambandi til þess að líða betur, þá er þér ekki til setunnar boðið. Tíminn líður hratt á gervihnattaöld og þú vilt síður vakna upp árið 2028 í sömu sporum og þú ert núna. Þú ert greinilega varkár maður sem vilt þér og þínum vel og þá munuð þið komast í gegnum skilnaðarferli þannig að þegar upp er staðið, þá séuð þið öll sátt. Gangi þér sem allra best.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Musk skefur ekki utan af því – „Þetta verða endalok Evrópu“

Musk skefur ekki utan af því – „Þetta verða endalok Evrópu“
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Er óvænt orðaður við Arsenal

Er óvænt orðaður við Arsenal
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum

Datt í lukkupottinn í pakkaleiknum – Skipti á vasaljósi og besta vinningnum
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Hér felur Pútín sig og baðar sig í dýrablóði

Hér felur Pútín sig og baðar sig í dýrablóði