Skrifar bók um íslenska blaðamenn
Auður Jónsdóttir er flestum landsmönnum kunn fyrir skemmtilegar skáldsögur sínar en færri tengja hana við blaðamennsku þótt hún hafi starfað við hvort tveggja um margra ára skeið. Margrét H. Gústavsdóttir heimsótti Auði í nánast galtóma íbúð við Barónsstíg á öðrum degi nýárs. Þær ræddu meðal annars um þjáningarfrelsi og arfaslæmt vinnuumhverfi íslenskra blaðamanna, lífsfögnuðinn í miðaldra krísunni og hvernig fólk birtist í öðru ljósi eftir skilnað.
Auður er að mestu uppalin í Mosfellsbæ, dóttir þeirra Sigríðar Halldórsdóttur og Jóns Gunnars Ottóssonar sem er forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar. Þau skildu þegar Auður var rétt orðin unglingur en þá skrifaði móðir hennar fyrir ýmsa fjölmiðla, meðal annars Helgarpóstinn, Mannlíf, Vikuna, Þjóðviljann og Ríkisútvarpið, auk þess að gera heimildamyndir. Dóttirin unga heillaðist upp úr skónum af þessum starfa móður sinnar og þannig má segja að hún hafi sjálf leiðst út á ritvöllinn.
„Þessi skortur á virðingu hefur leitt til þess að margir blaðamenn bera varla sjálfir virðingu fyrir framlagi sínu af því að viðhorf samfélagsins í þeirra garð hafa verið of neikvæð. Þetta smitast yfir á eigendur fjölmiðla og kemur út með neikvæðum afleiðingum, ekki aðeins fyrir blaðamennina sjálfa heldur samfélagið í heild.“
„Mér fannst þetta bæði töff starf og flott tilvera hjá mömmu. Fljótlega eftir skilnaðinn eignaðist hún þýskan kærasta, fjölmiðla- og kvikmyndargerðarmann, sem fræddi mig mikið um fjölmiðla þar í landi og á sama tíma var ég líka að uppgötva Isabelle Allende, Ástu Sigurðar og fleiri skrifandi konur. Mér fannst allt sem tengdist blaðamennsku og ritstörfum alveg ótrúlega flott og spennandi,“ rifjar hún upp, og ekki leið á löngu þar til hún þreytti frumraun sína i blaðamennsku.
„Tólf ára gamlar gáfum við Sunna Ósk Logadóttir út okkar fyrsta skólablað sem þótti takast alveg sérlega vel. Svo vel að krakkarnir í gaggó eignuðu sér heiðurinn af því þótt þeir hefðu hvergi komið nálægt útgáfunni. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt í ljósi þess að Sunna varð síðar fréttastjóri hjá Morgunblaðinu,“ segir Auður og brosir að minningunni. Ekki leið svo á löngu þar til hún bankaði upp á hjá Morgunblaðinu og bauð fram krafta sína – ekki sem blaðberi heldur blaðamaður! Þá aðeins fimmtán eða sextán ára.
„Ég talaði við Jóhönnu Kristjónsdóttur og bað um að fá að skrifa blaðagrein um hvað fólk á mínum aldri væri ólíkt innbyrðis. Ólíkir hópar og svona. Hún tók mjög vel í þetta og það var sko aldeilis uppi á mér typpið þegar ég fékk blaðaljósmyndara með mér niður í bæ til að vinna að greininni! Ég sagði öllum sem ég þekkti frá þessu og var alveg sjúklega montin, en því miður fékk enginn að sjá útkomuna því greinin birtist aldrei á prenti. Ég varð auðvitað ákaflega miður mín og vissi ekkert við hvern ég átti að tala en svo útskýrði Agnesi Bragadóttir fyrir mér að helgarblaðið hefði bara allt eyðilagst í einhverju frumstæðu tölvuklúðri. Mér fannst þetta auðvitað alveg hræðilegt en það var þó huggun harmi gegn að ég fékk bætur frá Mogganum. Ávísun með dágóðri upphæð sem Agnes benti góðlátlega á að myndi tæpast vera greidd fyrir blaðagreinar mínar í framtíðinni,“ segir Auður og hlær.
„Sumar vilja alveg ólmar hvetja mig út á lífið – aðallega til að þær geti komið með. Það leynist einhver skemmtilegur lífsfögnuður í miðaldrakrísunni.“
Hún var engu að síður komin á rétta sporið því rúmlega tvítug byrjaði hún að skrifa kjallaragreinar fyrir DV að áeggjan Silju Aðalsteinsdóttur. Það var svo eftir útkomu fyrstu skáldsögunnar (Stjórnlaus lukka) að Gunnar Smári Egilsson réð Auði sem blaðamann í fullt starf á fylgiritið Fókus sem þá var gefið út með DV og allar götur síðan hefur hún ritað bæði greinar og pistla í hin ýmsu dagblöð og tímarit sem hér hafa verið gefin út. Aðallega í lausamennsku og á milli skáldsagna.
„Mér finnst ekkert merkilegra að setjast niður og skrifa skáldsögu en að skrifa pistil eða taka viðtal við merkilegan viðmælanda. Með öðrum orðum finnst mér blaðamennskan hreint ekkert ómerkilegra en starf rithöfundarins. Það er sama gleðin sem fer í þetta og mér hefur alltaf þótt skemmtilegt að blanda saman ólíkum formum af miðlun upplýsinga. Til dæmis að skrifa bók í blaðastíl og öfugt eða tengja ritgerðir inn í bókarformið sem samfélagsrýni eða pælingar,“ segir hún og bætir við að blaðamennskan hafi jafnframt örvað hana til að pæla í hlutum sem síðar skila sér í skáldsögurnar. „Það kemur alltaf eitthvað nýtt út úr þessu sem ég nota svo seinna meir í bókunum.“
Nú hafa margir svolitlar áhyggjur af framtíð prentmiðla. Að fólk nenni ekki að lesa blöð eða bækur og þetta sé allt á niðurleið. Hefur þú svipaðar áhyggjur?
„Nei, ekkert sérstaklega. Áhyggjur mínar snúast meira um menningarumræðuna sem slíka, eða réttara sagt skortinn á henni. Þá er ég ekki bara að tala um einhverja gagnrýni eða bókaumfjöllun heldur djúpa og umfangsmikla samfélags- og heimsrýni sem endurspeglast til dæmis frá samtölum eða umræðum milli ólíkra greina úr hugvísindageiranum. Við þurfum að heyra samtöl um bókmenntir, listir, heimspeki, stjórnmál, félagsvísindi, raunvísindi og svo framvegis í upplýsandi samhengi sem veitir okkur innblástur. Bestu hugmyndirnar spretta oftast upp úr góðum samtölum ólíkra hópa. Í stóru helgarblöðunum víðast hvar erlendis eru svona umræður mjög áberandi en hér fer lítið fyrir þeim, þrátt fyrir einlægan áhuga almennings. Við viljum og þurfum á svona upplýsingum og samtölum að halda alveg eins og fréttum og fréttaskýringum,“ segir Auður sem er þessa dagana að taka saman efnivið í bók sem tengist þessum áhyggjum. Bókina vinnur hún í samstarfi við blaðakonurnar Steinunni Stefánsdóttur og Báru Huld Beck. Titillinn, Þjáningarfrelsið, er vel við hæfi en bókin, sem Forlagið gefur út, er væntanleg í búðir eftir nokkrar vikur.
„Gæði, eða skort á gæðum, í íslensku fjölmiðlaumhverfi má líklega fyrst og fremst rekja til þess að hér er ekki borin nægilega mikil virðing fyrir blaðamönnum – þveröfugt við það sem tíðkast í flestum öðrum löndum. Sjálfri finnst mér góðir blaðamenn ekki minna mikilvægir en góðir læknar eða lögmenn. Það þarf hins vegar að gera þeim kleift að sinna starfi sínu vel og búa þeim starfsumhverfi sem byggir á alþjóðlegum gildum og er í takt við það sem tíðkast í öðrum virkum lýðræðislöndum,“ segir hún alvarleg í bragði.
Í Þjáningarfrelsinu skoða höfundarnir starfsemi innlendra fjölmiðla og blaðamennsku frá mörgum hliðum og varpa fram ýmsum spurningum til fjölda viðmælenda sem hafa unnið, eða eru enn starfandi, í fjölmiðlabransanum.
„Þessi skortur á virðingu hefur leitt til þess að margir blaðamenn bera varla sjálfir virðingu fyrir framlagi sínu af því að viðhorf samfélagsins í þeirra garð hafa verið of neikvæð. Þetta smitast yfir á eigendur fjölmiðla og kemur út með neikvæðum afleiðingum, ekki aðeins fyrir blaðamennina sjálfa heldur samfélagið í heild. Fjölmiðlafólki með mikla reynslu hefur til dæmis verið sagt upp af því að það er komið með „of há laun“ miðað við kjarasamninga. Reynslan er einfaldlega rekin í burtu og gæðin með. Hvernig dettur fólki þetta í hug?“ spyr hún og hristir höfuðið. „Það skýrir sig kannski sjálft hvers vegna fólk endist ekki alltaf lengi í faginu. Léleg laun og lítið starfsöryggi er ekki almennt það sem fólk sækist eftir í lífinu. Það velur að fara annað með reynsluna.“
Hún tekur dæmi um blaðamenn með tíu til tuttugu ára reynslu sem velja frekar að gerast almannatenglar, eða upplýsingafulltrúar hjá stórum fyrirtækjum.
„Þá erum við kannski með þaulvana manneskju sem þekkir allar hliðar viðskiptalífsins á Íslandi en í stað þess að vinna við greiningu og upplýsingamiðlun hjá fjölmiðli sem síðan er deilt með almenningi þá velur viðkomandi frekar að ráða sig sem upplýsingafulltrúa eða almannatengil. Það starf gengur svo út á að matreiða upplýsingar fyrir blaðamenn sem hafa kannski verið eitt ár á ritstjórn. Það segir sig sjálft að svona ójafnvægi getur ekki orðið samfélaginu til góða. Eigendur fjölmiðla þurfa nauðsynlega að axla ábyrgð og sýna hana í verki, meðal annars með því að halda í góða blaðamenn og umbuna þeim í takt við framlagið,“ segir hún. „Annars kemur þetta bara niður á gæðunum og það fer ekki framhjá neinum.“
Hún tekur dæmi um netblaðamenn sem vinna undir kröfu um mikla framleiðslu á fréttum. Enda velgengni margra vefmiðla enn mæld í smellum.
„Það þarf allt að gerast svo hratt. Vinnulagsreglurnar geta orðið undir og það er kannski enginn ritstjóri að fylgjast almennilega með nýliðum á ritstjórn. Hraðinn verður mikilvægari en gæði framleiðslunnar og það gefst lítill tími til að vinna vel. Öll rannsóknarblaðamennska hér á landi, eða ítarleg heimildarvinnublaðamennska, á undir högg að sækja og þannig hefur það verið um nokkurt skeið en hún verður engu að síður að eiga sér stað enda hverju samfélagi nauðsynleg. Mig minnir reyndar að Katrín Jakobsdóttir hafi talað um að stofna sjóð sem fólk gæti sótt um styrki úr til að skrifa umfangsmiklar greinar sem byggja á rannsóknarblaðamennsku. Vonum að slíkur sjóður verði settur á laggirnar. Enda enginn munur á þessu og öðrum ritstörfum sem hljóta styrki.“
Hér áður fyrr höfðum við fyrst og fremst flokksblöðin þar sem aldrei fór á milli mála hvaða skoðunum var flaggað. Framsóknarmenn höfðu Tímann, Sjálfstæðismenn Moggann, Alþýðubandalagið Þjóðviljann og svo framvegis. Heldur þú að óskýrt eignarhald eða aðkoma viðskiptamógúla að eignarhaldi fjölmiðla hafi áhrif á trúverðugleika blaðamanna sem hjá þeim starfa?
„Það er ákveðin ábyrgð að eiga fjölmiðil og fjölmiðill litast alltaf af þeim sem eiga hann. Ef við sem samfélag byrjum á því að sýna framlagi blaðamanna meiri virðingu þá getum við gert skýrari kröfu á eigendur um að koma betur fram við þessa stétt. Við þurfum bæði gagnrýna umræðu og eftirfylgni með því að það sé rétt staðið að þessu. Að vinnulagsreglur alþjóðlegrar fjölmiðlunar séu virtar á þeim fjölmiðlum sem hér eru starfræktir. Form, eignarhald og tæknin mun alltaf breytast en við þurfum, og getum, bætt viðhorf samfélagsins til blaðamannastéttarinnar og hvatt til meðvitaðrar umræðu um þessi prinsipp. Sterkir fjölmiðlar hjálpa okkur sem þjóð að spegla okkur og setja okkur í samhengi við heiminn allan – en þegar fjölmiðlarnir okkar veikjast þá tapast þetta tækifæri,“ útskýrir Auður sem segir samanburðinn mjög skýran þegar horft er til fjölmiðla í Danmörku og Þýskalandi. „En þá er reyndar sanngjarnt að taka fram, að þrátt fyrir slæm vinnuskilyrði, tekst mörgum að gera ágæta hluti í þessu erfiða umhverfi.“
Við vendum kvæði okkar í kross og snúum aftur að uppvextinum og einkalífinu. Það má segja að rótleysi sé rithöfundinum og blaðamanninum svolítið í blóð borið. Hún bjó í Englandi sem barn og eftir að grunnskóla lauk hafði hún lítinn áhuga á menntaskólanámi.
„En ég myndi segja að ég hafi verið með mjög eirðarlaust sálarlíf sem unglingur. Var of eirðarlaus fyrir menntaskóla. Skráði mig í marga menntaskóla en „droppaði út“ úr þeim öllum. Mér fannst alltaf miklu skemmtilegra að flækjast um bæinn, sitja á kaffihúsum og skrifa. Taka viðtöl og ljósmyndir. Bakgrunnur minn úr alkóhólísku fjölskyldulífi gerði það að verkum að ég kom kannski svolítið snúin inn í þetta allt saman – eins og kannski flestir sem maður þekkir? Svo giftist ég fertugum sjómanni fyrir vestan þegar ég var um tvítugt og náði þar með einhvers konar botni. Algjört rugl! En upp úr því skrifaði ég fyrstu skáldsöguna mína,“ segir hún og hlær.
„Ég skildi við sjómanninn, flutti í bæinn og kláraði bókina heima hjá ömmu minni þar sem ég bjó um hríð áður en við Guðrún Eva Mínervudóttir fórum að leigja saman. Upp úr þessu hóf ég mitt fullorðinslíf í Reykjavík. Svo kynntist ég Þórarni Leifssyni, barnsföður mínum og fyrrverandi eiginmanni, þegar ég var um tuttugu og fimm ára. Sjálfur hafði hann alist að hluta til upp í öðru landi og því fannst okkur báðum ekkert eðlilegra en að flytja á milli landa. Vorum alltaf sammála um það. Það er nú fyrst þegar ég er orðin mamma að lífið horfir aðeins öðruvísi við mér,“ segir Auður sem, eins og fyrr segir, er nýflutt heim frá Þýskalandi en þar áður hafði fjölskyldan búið meðal annars í Barcelona og Kaupmannahöfn.
Auður er fædd þann 30. mars árið 1973 og verður því 45 ára á þessu ári. Hún varð móðir fyrir tæpum sjö árum en sonurinn Leifur Ottó byrjaði í Austurbæjarskóla nú um áramótin og unir hag sínum vel við nýjar aðstæður.
Í þau átján ár sem Auður og Þórarinn voru saman bjuggu þau samtals í níu ár erlendis. Síðast í Berlín. Nú er hún kát að vera komin heim og segist kunna vel að meta lífið hér á Íslandi. Og öfugt við marga lítur hún ekki á skilnaðinn sem misheppnað samband sem sigldi í strand heldur sé nú ákveðnu ferðalagi lokið og nýir og breyttir tímar fram undan.
„Mér finnst forréttindi að fá að upplifa þennan umbreytingarkraft í mínu fullorðinslífi. Nú snýst þetta allt um að ég fái að átta mig á því hvaða grunnafstöðu ég hef til lífsins, hvað vil ég? Hvernig vil ég hafa lífið? Ég ber algjöra ábyrgð á sjálfri mér og ég held að það séu forréttindi fyrir fullorðna manneskju að taka slíkt tímabil út. Þetta er nýr veruleiki sem maður þarf að normalísera en á sama tíma er þetta ótrúlega spennandi. Ég svaf fyrstu nóttina í nýrri íbúð á nýju ári og það eru alls konar skemmtileg plön fram undan,“ segir Auður sem er þegar búin að leggja drög að góðu og mjög viðburðaríku ári, aðallega í samfloti við góðar vinkonur.
„Ég á mikið af skemmtilegum vinkonum. Giftum, fráskildum eða eitthvað að reyna að ákveða sig. Þær eru í alls konar ástandi þessar vinkonur mínar en allar mjög góðar. Það kom mér svolítið á óvart hvernig fólk birtist manni í nýju ljósi þegar maður er fráskilinn. Það segir manni alls konar hluti sem það hefði annars ekki sagt. Stundum hefur mér liðið eins og ég hafi verið á vernduðum vinnustað í þessu átján ára hjónabandi. Fólk lifir miklu ævintýralegra lífi en mann hefði órað fyrir. Gifta fólkið heyrir bara aldrei af þessu,“ segir hún hlæjandi og bætir við að giftu vinkonurnar hafi sumar hverjar mikinn áhuga á einkalífi nýfráskildu vinkonunnar. „Og sumar vilja alveg ólmar hvetja mig út á lífið – aðallega til að þær geti komið með. Það leynist einhver skemmtilegur lífsfögnuður í miðaldrakrísunni.“
Auður hefur gaman af því að bera Íslendinga saman við aðrar þjóðir enda erum við og höfum alltaf verið svolítið sér á parti, hvort sem um er að ræða fjölmiðla, stjórnmál eða ástalíf þeirra sem eru miðaldra.
„Til dæmis er alveg rosalega mikil einstaklingshyggja í gangi í Berlín. Hjón búa oftar í sitthvoru lagi og fólk er óhrætt við að lifa eftir alls konar hugmyndum sem hér þættu mjög skrítnar. Til dæmis eru sumir sem vilja ekki eiga neitt, aðrir búa í tveimur löndum samtímis, aðhyllast og lifa eftir einhverri umdeildri skoðun eða þess háttar. Búa saman en vera í opnu hjónabandi. Til dæmis væri alveg í lagi að vera 56 ára tannlæknir og anarkisti á sama tíma. Berlínska mentalitetið er mjög skýrt hvað þetta varðar. Berlínarbúar eru með mjög sjálfstæða tilvistarstefnu: Svona er ég og svona vil ég hafa líf mitt. Það er helsti lærdómurinn sem ég tók með mér heim. Útlínur mínar urðu skarpari og ég varð meiri einstaklingshyggjumanneskja. Ekki í pólitískum skilningi heldur tilvistarlegum.“
Og með skarpari útlínur og þennan lærdóm í farteskinu segist fráskilda, miðaldra konan mjög glöð að vera flutt aftur heim til Íslands.
„Mér finnst rosalega gaman að vera hérna á Íslandi og þá sérstaklega eftir að ég eignaðist Leif Ottó. Það eru ótrúleg forréttindi að fá að ala upp barn í þessu frelsi og öryggi sem við búum við. Að barnið hafi andrými og pláss til að vera til. Maður finnur svo mikinn mun þegar maður er búin að vera með barn í fjögur ár inni í miðborg Berlínar. Þá verður mjög áberandi hvað það er gott að búa hérna en fólk á það samt til að vera svolítið svartsýnt. Við sjáum ekki alla kostina sem fylgja því að eiga heima hér á Íslandi.“