fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fókus

Snorri Sturluson: Sá Sovétríkin og Tvíburaturnana falla

Margrét Gústavsdóttir
Þriðjudaginn 20. febrúar 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hann var staddur í Leníngrad þegar Sovétríkin féllu árið 1991 og tíu árum síðar stóð hann og horfði á reykjarmökkinn stíga upp frá tvíburaturnum í New York. Þótt Snorri Sturluson sé rétt að verða 48 ára hefur þessi geðþekki auglýsingamaður upplifað fleiri örlagaviðburði en margir geta ímyndað sér.

Eftir sextán ára búsetu í New York er hann snúinn aftur til fósturjarðarinnar ásamt eiginkonu og tveimur sonum og starfar sem hugmyndasmiður og leikstjóri hjá auglýsingastofunni Pipar\TBWA. Margrét Gústavsdóttir hitti Snorra á Kringlukránni en þangað var hann mættur í fyrsta sinn á ævinni:
„Er þetta ekki eldgamall staður? Klassík í Reykjavík?“ spyr Snorri um leið og hann tekur af sér húfuna og fær sér sæti á móti blaðamanni. Við pöntum sódavatn, pepsí og hnetur og svo er kveikt á upptökutækinu.

Ottó og nashyrningarnir og örlagagreinin í Þjóðviljanum

Snorri er sonur þeirra Sturlu Þengilssonar forritara og Maríu Norðdahl, fyrrverandi kennara. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum, þeim Oddnýju og Kára, í Árbæ en bæði hafa verið áberandi í fjölmiðlum á síðustu árum. Oddný starfaði lengi sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og Kári sem tónleikahaldari. Síðar eignuðust þau bróðurinn Tómas, föðurmegin, en sá verður tvítugur á árinu og gæti því eins verið sonur systkina sinna … eða þannig.
Að grunnskólanámi loknu fór Snorri í Menntaskólann við Sund sem var mjög algengt meðal Árbæinga hér áður fyrr og ekki leið á löngu þar til hann stofnaði hljómsveit, – enda af þeirri kynslóð sem var undir áhrifum frá Rokki í Reykjavík, en þeim fannst það næstum skylda að gera eitthvað skapandi eins og Óttarr Proppé kom inn á í síðasta BIRTU-viðtali. Með Snorra í bandinu voru meðal annars þeir Ottó Tynes, Þórir Viðar Þorgeirsson og Kristinn Pétursson.

Hljómsveitin, sem fékk nafnið Ottó og nashyrningarnir, naut ágætis velgengni á þeim tíma sem hún starfaði en segja má að hápunktur ferilsins hafi verið tónleikar í Moskvu árið 1989.

Hvernig kom það til að þú flæktist þangað?

„Jú, þetta var svolítið fyndið og eiginlega hálfgerð tilviljun. Ég var eitthvað að fletta Þjóðviljanum við eldhúsborðið heima hjá mér og rak augun í viðtal við Sigríði Richards sem sagði frá því að einhver friðar- og umhverfisverndarsamtök í Danmörku óskuðu eftir tuttugu og fimm ungmennum frá Íslandi í vinaferð til Sovétríkjanna. Tilgangurinn var að brjóta niður múra milli ungs fólks og ég var alveg til í það,“ segir Snorri og hlær en hann var aðeins nítján ára þegar hann skellti sér út ásamt stórum hópi ungra Skandinava.

Þetta var samt mjög óraunverulegt svo ég ákvað að halda bara áfram og drífa mig í skólann. Þegar ég kom á lestarstöðina sá ég turnana tvo standa í ljósum logum.

„Þetta var skipulagt frá Kaupmannahöfn og hópurinn fékk fría vegabréfsáritun sem á þeim tíma var í raun og veru ólöglegt. Á þessum árum voru heimsóknir ferðamanna til Sovétríkjanna skipulagðar eins og þær eru í Norður-Kóreu í dag. Það var ákveðið fyrir fólk hvar það átti að gista, hvaða staði mátti skoða, hvernig maður færi þangað og svo framvegis. Ef þú fórst út af hótelinu og ætlaðir eitthvert á eigin vegum þá stóð einhver upp í lobbíinu og elti þig út. Önnur leið til að komast inn í ríkin var sú að sovéskur ríkisborgari þurfti að bjóða manni formlega með bréfi í gegnum sendiráð. Danirnir hugsuðu stórt og fóru í það að finna fimm þúsund sovéska ríkisborgara til að bjóða fimm þúsund manns í heimsókn. Þegar þeir voru komnir vel á veg þá strandaði allt hjá einhverju möppudýri í Moskvu sem rak augun í þetta og spurði hvernig stæði á því að fimm þúsund manns væru samtímis að bjóða fólki í heimsókn. Hann var ekki hrifinn og stoppaði ferlið en þegar Gorbatsjov komst að þessu þá gaf hann út persónulega tilskipun um að uppátækið skyldi leyft og það í miðri perestrojkunni!“ rifjar hann upp og hristir höfuðið.

Strákarnir í Ottó og nashyrningunum ungir að árum. Hljómsveitin var stofnuð í Menntaskólanum við Sund.
Ottó og nashyrningarnir Strákarnir í Ottó og nashyrningunum ungir að árum. Hljómsveitin var stofnuð í Menntaskólanum við Sund.

Skorturinn á frelsi áþreifanlegur í Sovétríkjunum

Hljómsveitin Ottó og nashyrningarnir hélt út ásamt E-X, Sniglabandinu og fleiri hressum ungmennum sem fóru bæði í hópum og sem einstaklingar. Krakkarnir fjármögnuðu ferðina sjálfir enda uppihaldið ekki svo dýrt og Snorri hvatti sína menn til að skella sér með.

„Til dæmis vildi ég ólmur fá einn besta vin minn, Gunnar Bjarna, son Ragnars skjálfta, og núverandi yfirlækni Krabbameinsdeildarinnar með. Hann hafði ekkert með tónlist að gera og langaði alls ekki til að fara en ég sannfærði hann um að koma enda væri hann af frægum vinstri ættum. Þetta væri jafnframt einstakt tækifæri og því ekki annað við hæfi en að hann kæmi með. Hann lét til leiðast og það var sannarlega örlagarík ákvörðun því í Sovétríkjunum kynntist hann konunni sem hann á tvö börn með og er enn kvæntur í dag,“ segir hann og af því má álykta að alla vega einn múr hafi brotnað þarna milli unga fólksins.

Hvernig var það fyrir strák af vinstri ættum sem las Þjóðviljann við eldhúsborðið að koma til Sovétríkjanna á þessum tíma. Leist þér á þetta eða snerirðu til baka sem hægrimaður?

„Það var reyndar alveg augljóst að kommúnisminn virkaði ekkert sérstaklega vel. Margt var í lagi en annað alls ekki. Fyrst og fremst var skorturinn á frelsi bæði áþreifanlegur og áberandi. Strákar á okkar aldri þurftu til dæmis að smygla inn tónlist frá Vesturlöndum. Ef einhver einn komst yfir plötu þá var hún látin ganga manna á milli sem voru saman í einhvers konar hljómplötuklúbbi, – og svo tóku allir plötuna upp á kassettur. Ríkið stjórnaði því jú hvaða tónlist fólk hlustaði á og þetta var allt saman kolólöglegt.“

Í miðri byltingu við Vetrarhöllina í Leníngrad

Ungmennin heimsóttu Leníngrad, Kænugarð og Moskvu en ferðin tók heilan mánuð. Snorri segir hápunktinn hafa verið tónleika, sem þeir reyndar spiluðu ekki á, í Maxin Gorki-garðinum í Moskvu en þeim lýsir hann sem stórkostlegri og jafnframt mjög súrrealískri upplifun.

Mynd: Einar Ragnar

„Ég hef aldrei á ævinni séð jafn mikið af lögreglumönnum. Þeir stóðu meðfram öllum götum, í þrefaldri röð fyrir framan sviðið og allt í kring. Áttu að sjá til þess að enginn myndi missa sig yfir þessari vestrænu rokktónlist og það gerðu þeir. Í eitt skipti þegar við spiluðum sáum við þá lúberja nokkra krakka með kylfum, bara af því þau dönsuðu „of mikið“. Þetta var gersamlega ótrúlegt.“

Strákurinn sem þeir félagarnir gistu hjá í Leníngrad varð góður vinur Snorra og tveimur árum síðar fór hann aftur að heimsækja hann. Í ágúst árið 1991 var hann staddur í auga stormsins dagana sem sovéska byltingin upphófst sem leiddi síðar til upplausnar kommúníska fjölþjóðaríkisins.

„Berlínarmúrinn féll daginn eftir að ég kom heim úr fyrri ferðinni til Sovétríkjanna og það fannst mér magnað enda nýkominn heim úr kommúnistaríki. Í sjálfu sér kom uppreisnin ekki mikið á óvart því allir höfðu verið að bíða eftir henni. Spennan lá í loftinu og spurningin var aldrei hvort heldur hvenær. Við Dimitri ætluðum til Moskvu þann 19. ágúst en komumst ekki þar sem allar lestarsamgöngur lágu niðri. Ég man að við stóðum á torginu fyrir framan Vetrarhöllina í Leníngrad þar sem fóru fram mótmælafundir og það voru hermenn alls staðar en við vorum samt ekki smeykir enda íbúar Leníngrad fremur friðsælir og frjálslyndir miðað við fólk annars staðar í landinu,“ segir Snorri sem komst klakklaust aftur til Íslands á þeim tíma sem hann ætlaði sér.

Skipulagði undanfara Iceland Airwaves í rótleysinu langa

„Þegar ég kom heim tók við frekar langt rótleysistímabil sem stóð eiginlega út megnið af tíunda áratugnum,“ segir Snorri og skellir upp úr. Hann segist hafa spilað með ýmsum hljómsveitum og unnið sem barþjónn og plötusnúður en undir lok áratugarins starfaði hann ásamt þeim Þorsteini Stephensen og Baldri Stefánssyni undir nafninu Herra Örlygur. Þeir skipulögðu meðal annars útgáfutónleika fyrir GusGus í flugskýli við Reykjavíkurflugvöll en þar landaði Sigur Rós alþjóðlegum plötusamningi og ári síðar fóru sambærilegir tónleikar fram, þá undir heitinu Iceland Airwaves.
„Ég var Herra Örlygur allt þar til ég afsalaði mér titlinum og leyfði þeim að nota hann áfram enda var ég byrjaður að snúa mér að öðru.“

Í kringum aldamótin 1900/2000 urðu miklar framfarir í stafrænni tækni og Snorri var fljótur að tileinka sér þær. Hann tók þetta svo skrefinu lengra þegar hann komst inn í skóla í New York þar sem stafræn miðlun var í forgangi (e. digital media) og þar lærði hann allt frá forritun og grafískri hönnun yfir í klippivinnu og kvikmyndagerð með aðstoð tölvutækninnar. Hann leigði íbúð ásamt nokkrum námsmönnum í Williamsburg í Brooklyn sem nú er eitt dýrasta fasteignasvæði heims og þykir með eindæmum „hipp og kúl“.

Sá tvíburaturnana hverfa í árásinni 11. september

„Nú er þetta hverfi orðið svo hipp að það er ekki hægt að ímynda sér það en árið 2001, þegar ég flutti út, var það ekki komið á þetta stig. Ég var hæstánægður með að vera kominn til New York enda hafði mig dreymt um það frá því ég kom þar fyrst sem unglingur,“ segir Snorri sem ákvað að búa áfram í borginni að náminu loknu, þrátt fyrir óöryggið sem fylgdi árásunum á tvíburaturnana í september.

„Ég held að sú upplifun hafi tengt mig bæði fólkinu og borginni alveg afskaplega sterkum böndum en hún breytti mér mjög mikið,“ segir Snorri sem fékk fréttirnar af árásinni fyrst í gegnum símtal frá Íslandi.

„Þetta var eldsnemma um morgun og ég var að taka mig til fyrir skólann þegar systir mín hringdi og spurði hvað væri eiginlega að gerast. Ég var heppinn að ná að svara, því örstuttu síðar myndaðist svo mikið álag á línurnar að símakerfið lá niðri í tvo daga,“ segir hann. Hann segist hafa litið út um eldhúsgluggann með systur sína á línunni og séð reykinn stíga til himins frá Manhattan en það hafi ekki verið fyrr en hann kveikti á sjónvarpinu að hann skildi betur hvað var að gerast.

„Þetta var samt mjög óraunverulegt svo ég ákvað að halda bara áfram og drífa mig í skólann. Þegar ég kom á lestarstöðina sá ég turnana tvo standa í ljósum logum. Fólk stóð og horfði á þetta en ákvað svo að halda áfram með daglegt amstur … fara í vinnuna og svo framvegis. Ég ætlaði sjálfur að halda áfram, fór niður að lestinni en allt í einu snerist mér hugur og ég fór til baka. Sem betur fer … því nokkrum mínútum síðar hættu allar lestir að ganga og ég hefði orðið fastur á Manhattan. Þegar ég kom aftur upp kallaði einhver að turnarnir væru fallnir. Ég trúði þessu ekki enda var ég nýbúinn að horfa á þá en þetta var rétt. Turnarnir höfðu verið jafnaðir við jörðu.“

Snorri ásamt eiginkonu sinni Lydiu og sonunum Andra og Nicholas á horninu þar sem Lydia og Snorri hittust fyrst.
Falleg fjölskylda Snorri ásamt eiginkonu sinni Lydiu og sonunum Andra og Nicholas á horninu þar sem Lydia og Snorri hittust fyrst.

Mynd: Snorri Sturluson

Ástin sigrar

Hann segir næstu vikur og mánuði hafa verið mjög óraunverulega. Sjálfur þekkti hann engan sem lést í árásinni en í kringum hann var fjöldi fólks sem gerði það enda borgin þakin handgerðum auglýsingum þar sem kallað var eftir týndu fólki. Hann segir samkenndina sem ríkti meðal borgarbúa í kjölfar árásanna hafa verið ólýsanlega og fallegast þótti honum hvernig allir voru staðráðnir í að láta ekki hatrið ná yfirhöndinni.

„Ég verð næstum því klökkur af því að tala um þetta. Það var eins og allir borgarbúar hefðu ákveðið að það væri hægt að komast í gegnum svona hörmungar og vinna svo í því saman að gera heiminn betri. Ég varð aldrei var við neitt múslímahatur eða þess háttar, þvert á móti var algjör samstaða um að kærleikurinn væri rétta leiðin og það var einstaklega magnað,“ rifjar hann upp.

Þegar náminu lauk, í desember 2001, ákvað Snorri að flytja ekki heim á klakann heldur láta á það reyna að búa og starfa í New York. Hann var líka kominn með augastað á stelpu sem hann kynntist á stefnumótasíðu á netinu og var mjög spenntur að hitta að loknu jólafríi á Íslandi.

Þau mæltu sér mót á götuhorni á Manhattan og fóru þaðan á veitingastað en Snorri segir að þarna hafi hann upplifað ást við fyrstu sýn. Sú heppna heitir Lydia Holt og er sagnfræðingur og rithöfundur af afrísk-amerískum uppruna, fædd og uppalin í Texas. Þau Snorri hafa nú verið gift í rúman áratug og eiga tvo syni, þá Andra Luke og Nicholas Jaka.

Dagurinn sem Trump tók við embætti verri en 11. september

Hann segist lítið hafa fundið fyrir fordómum í garð þeirra hjóna sérstaklega en engu að síður hafi það komið honum mjög á óvart hversu mikið kynþáttahatur sé enn ríkjandi í Bandaríkjunum.

„Á yfirborðinu eru allir vinir í New York þótt fólk sé af ólíkum uppruna en við það að búa þarna í nokkra mánuði byrjar maður að sjá í gegnum þessa falsmynd. Öll lægst launuðu störfin í þjóðfélaginu eru unnin af svörtum Bandaríkjamönnum, meira að segja innflytjendur, sama af hvaða uppruna þeir eru, fá betri tækifæri en blökkumenn. Það var mikið áfall að átta sig á þessu og þess vegna finnst mér svo merkilegt hvað er að gerast núna. Black Lives Matter og MeToo eru á vissan hátt hluti af sömu byltingunni, það er að segja hópar sem hafa verið undirokaðir og beittir misrétti árum saman sem rísa nú upp gegn hvíta karlmanninum, feðraveldinu, sem berst þó um á hæl og hnakka,“ segir hann.
Hann segir stemninguna í New York hafa breyst gríðarlega eftir að Trump var kjörinn forseti. Daginn eftir að Obama tók við völdum hafi birt yfir öllu og fólk horfði bjartsýnt fram á veginn en um leið og Trump tók við embætti hafi svartnættið hellst yfir.

„Þótt ótrúlegt megi virðast eru flestir íbúar New York sammála um að 7. nóvember 2017, dagurinn sem Trump tók við embætti, hafi verið verri en 11. september. Eftir árásirnar fundum við samkennd, samstöðu og styrk hvert í öðru en þegar Trump tók við myndaðist sundrung og vonleysi helltist yfir. Vinahópar splundruðust af því einhver í hópnum gaf Trump atkvæði sitt. Þetta varð persónulegt. Samkynhneigðir, svartir, konur … bara allir sem ekki tilheyrðu einhverjum forréttindahópum tóku því sem persónulegri árás að vinir skyldu kjósa Trump. Það var verið að kjósa gegn þeim og með kvenfyrirlitningu og kynþáttahatri. Margir kjósenda hans létu sem ástæðan væri önnur, en undir niðri vita allir um hvað valið snerist og það var óhugnanlegt að sjá þetta koma svona upp á yfirborðið.“

Með hornskrifstofu á hæð 63 í Empire State-byggingunni

Snorri starfaði sem listrænn stjórnandi hjá fatamerkinu FUBU í fjögur ár og var með hornskrifstofu á 63. hæð í Empire State-byggingunnni.
FUBU Snorri starfaði sem listrænn stjórnandi hjá fatamerkinu FUBU í fjögur ár og var með hornskrifstofu á 63. hæð í Empire State-byggingunnni.

Mynd: Snorri Sturluson

Snorri átti mjög farsælan starfsferil í þau sextán ár sem hann bjó í heimsborginni. Fyrsta „alvöru“ starfið hans var hjá hip-hop fatamerkinu FUBU og fyrsta skrifstofan, – hornskrifstofa á 63. hæð í Empire State-byggingunni. Þar vann hann í fjögur ár sem listrænn stjórnandi og fórst það vel úr hendi.

„FUBU, sem þýðir For Us By US, var stofnað af fjórum svörtum strákum sem byrjuðu á að selja húfur upp úr skottinu á bílnum sínum. Svo fóru þeir að selja fleiri flíkur í svona hálfgerðum sjoppum sem eru við flestar lestarstöðvarnar en það er yfirleitt í þessum búðum sem „trendin“ verða til í New York. Þetta sprakk svo alveg út og á ótrúlega skömmum tíma urðu þeir að heimsveldi sem velti fleiri milljörðum á ári.“

Eftir að hann sagði skilið við FUBU vann hann á auglýsingastofu um skeið en daginn sem eldri sonurinn kom í heiminn gerði hann það sem allir ráðlögðu honum að gera ekki – sagði upp vinnunni og fór að vinna sjálfstætt. Það tókst þó vonum framar en í tólf ár starfaði hann sem auglýsingaleikstjóri og ljósmyndari um allan heim. Hápunktur ferilsins var Superbowl-auglýsing fyrir tölvurisann Dell, en ásamt þáverandi samstarfsfélaga sínum, Eiði, starfaði Snorri fyrir Nokia, Benz og fleiri stórfyrirtæki og stórstjörnur á borð við Tom Brady, Dennis Hopper og Eric Roberts svo fátt eitt sé nefnt.

„Þetta var rosalega góður tími en svo skildi leiðir okkar Eiðs árið 2013. Hann flutti til Los Angeles og ég hélt áfram að vinna við auglýsingar og kvikmyndagerð í New York og víðar. Síðasta verkefnið mitt var að leikstýra skemmtilegri gamanmynd sem heitir Love in Kilnerry. Hún segir frá litlum bæ þar sem íbúarnir, flestir eldri borgarar, verða skyndilega gripnir miklum losta með tilheyrandi gleði fyrir suma og sálarstríði fyrir aðra,“ segir hann og brosir kíminn.

Þetta hljómar eins og það hafi verið talsvert stuð á þér í stórborginni. Hvað réð úrslitum um þá ákvörðun að flytja aftur til Íslands?

„Það var sitt lítið af hverju. Til dæmis hafa stjórnmálin haft mjög leiðinleg áhrif á stemninguna í New York og svo vorum við að hugsa um strákana okkar. Ef þeir áttu að öðlast íslenska sjálfsmynd þá var þetta svolítið svona „now or never“. Nú stunda þeir nám við Austurbæjarskóla og líkar mjög vel enda eru margir krakkar þar sem hafa ekki íslensku sem fyrsta tungumál og komin ákveðin reynsla hjá kennurunum. Svo kunnum við öll vel að meta frelsið hérna. Þegar við fjölskyldan lentum þá fundum við strax að það þurfti ekki einu sinni að ræða það. Við þurftum ekkert að setjast niður og útskýra reglurnar á Íslandi fyrir þeim. Ef þá langar að fara eitthvert út að leika sér þá þarf maður ekki að stressa sig á því. Hér er mikið öryggi. Í Bandaríkjunum líta foreldrar ekki af börnunum sínum og sér í lagi ekki í stórborgunum. Ísland er sem betur fer ekki þannig og verður það vonandi aldrei,“ segir Snorri að lokum.

Snorri gerði þessa auglýsingaherferð fyrir geymslu-leigu í New York.
Ég elska geymsluna mína Snorri gerði þessa auglýsingaherferð fyrir geymslu-leigu í New York.

Mynd: Snorri Sturluson

Mynd: Snorri Sturluson

Mynd: Snorri Sturluson

Mynd: Snorri Sturluson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ólafur Ingi bað konuna sína um skilning – „Hún sagði nei og vildi skilnað“

Ólafur Ingi bað konuna sína um skilning – „Hún sagði nei og vildi skilnað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Valentína sannar að það er ljós við enda ganganna – Sigraðist á átröskun og fíknivanda

Valentína sannar að það er ljós við enda ganganna – Sigraðist á átröskun og fíknivanda