Hljómsveitin Sycamore Tree treður upp á Kexinu laugardaginn 10. febrúar
Hljómsveitina Sycamore Tree ættu landsmenn að vera farnir að þekkja eftir mikla spilun á öldum ljósvakans. Sveitin sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu þann 24. september á síðasta ári en á morgun, laugardag, mun hún halda sína þriðju tónleika í höfuðborginni.
Sycamore Tree skipa þau Ágústa Eva Erlendsdóttir og Gunni Hilmarsson sem bæði eru landsþekkt af fyrri verkum. Á tónleikum njóta þau liðsinnis þeirra Arnars Guðjónssonar, sem leikur á bassa, og Unnar Birnu Bassadóttur, sem spilar á fiðlu og slagverk ásamt því að syngja bakraddir.
„Það er svakaleg stemning að byggjast upp fyrir þessum tónleikum og hún hefur stigmagnast alla vikuna,“ segir Ágústa Eva roggin í símtali við blaðamann og hefur ærið tilefni til enda var hún valin söngkona ársins 2017 á Hlustendaverðlaunahátíð FM á dögunum.
„Við höfum verið með sjö lög í röð á vinsældalistum útvarpsstöðvanna og svo fengum við fjölmargar tilnefningar á hlustendaverðlaunum og mikla athygli, bæði hér heima og úti í heimi,“ segir Ágústa og bætir við að þau séu alltaf að semja ný lög sem öll hafi fengið góðar undirtektir.
„Við höfum frumflutt nýtt lag á hverjum einustu tónleikum hingað til sem hefur fallið vel í kramið. Á síðustu tónleikum, sem fóru fram í Skyrgerðinni í Hveragerði, tókum við líka óskalög úr sal og fengum lánaða síma hjá áheyrendum til að tékka á lögum og fletta upp textum en þetta vakti mikla kátínu,“ segir hún og hlær um leið og hún bætir því við að alla hljómsveitarmeðlimina hlakki mikið til að spila á Kexinu um helgina.
„Við höfum spilað fyrir fullu húsi í hvert sinn sem við höfum komið fram og erum mjög spennt fyrir tónleikunum á Kexinu enda höfum við ekki spilað saman í Reykjavík síðan fyrir jól,“ segir söngkonan ástsæla að lokum.
Tónleikarnir á KEX Hostel hefjast klukkan 21 en miðar fást m.a. hjá TIX.is og við anddyri.