fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fókus

„Það er enginn skortur á karlmennsku að vera ljúfur“

Margrét Gústavsdóttir
Fimmtudaginn 8. febrúar 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matti Ósvald Stefánsson, markþjálfi og heilsuráðgjafi, hefur tæplega þrjátíu ára reynslu af því að hjálpa öðrum að nýta hæfileika sína, setja sér markmið og láta drauma sína rætast. Sem ungur maður átti hann sér þann draum heitastan að gerast atvinnumaður í körfubolta en örlögin leiddu hann á aðra braut og Matti gerðist atvinnumaður í því að hjálpa fólki – en fyrst þurfti hann að byrja á sjálfum sér.

Margrét H. Gústavsdóttir heimsótti Matta í Hafnarfjörðinn þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni og tveimur fyndnum köttum í gömlu krúttlegu timburhúsi sem minnir á senu úr sögu eftir Astrid Lindgren.

Matti er fæddur á sumarsólstöðum, eða þann 21. júní, árið 1966. Sumarsólstöður eru lengsti sólarhringur ársins og hjátrúarfullir myndu líklega ekki hika við að rekja óbilandi bjartsýni Matta til fæðingardagsins. Hann hefur einstaka trú á því að hver og einn búi yfir ómældri getu til að verða eigin gæfusmiður.

Sem ungur maður var Matti á kafi í körfubolta. Spilaði með Keflavík og drengja- og unglingalandsliðinu frá þrettán ára aldri og sá ekkert annað fyrir sér í framtíðinni en að leggja íþróttina fyrir sig, en nítján ára varð hann fyrir alvarlegum meiðslum og afleiðingarnar gerbreyttu framtíðarsýn hans.

Hann lá rúmfastur í heilan mánuð og næstu tíu mánuði á eftir var hann svo máttlítill að fæturnir báru hann varla. Skiljanlega voru vonbrigðin gífurleg en fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Matti ákvað að gera eitthvað róttækt í málunum. Læra á sjálfan sig og gera sitt allra besta til að ná sér aftur á strik, bæði andlega og líkamlega.

„Mér var sagt að það væri ekkert hægt að gera fyrir mig. Taugalæknar og aðrir sögðu mér að ég myndi jafnvel aldrei spila körfubolta aftur. Þetta var alveg gríðarlegt áfall en eftir að hafa verið máttlaus í marga mánuði fór ég að þjálfa mig markvisst upp. Ég byrjaði á að ganga inn í bílskúr, þar gerði ég jógaæfingar og náði að stilla mig einhvern veginn af. Smátt og smátt fór ég svo að æfa mig í að skokka á staðnum og síðan náði ég að skokka út í móa. Í víðfeðmu þúfnabarði milli Keflavíkur og Garðsins þjálfaði ég mig svo á hverjum degi með því að stökkva á milli þúfnanna og fljótlega var ég orðinn allt annar maður. Engu að síður tók þetta ferli tæpt ár og auðvitað breytti þetta mér.“

„Það er enginn skortur á karlmennsku að vera ljúfur“

Sumarið eftir heimsótti Matti félaga sinn til San Diego í Kaliforníu en þar rakst hann á auglýsingu frá skóla sem vakti athygli hans. Í skólanum, Institute Of Psycho-Structural Balancing, var áhersla lögð á heildræn heilsufræði og þetta var eitthvað sem höfðaði til Matta enda sjálfur búinn að læra það á eigin skinni að sál og líkami eru órjúfanleg heild. Hann skráði sig í skólann og stundaði námið í fjögur ár, eða frá 1988 til 1992.

Íslendingar voru mun íhaldssamari í viðhorfum sínum til heilsumála á þessum árum og því er óhætt að álykta að það hafi vakið furðu að ungur körfuboltakappi frá Keflavík skyldi velja að fara suður til hippanna í Kaliforníu að mennta sig í heildrænum heilsufræðum. Einhverju sem var ekki einu sinni til í orðaforða landans fyrir þrjátíu árum.
Matti segir að áhrif úr uppeldinu hafi líklega gert það að verkum að foreldrar hans höfðu ekkert út á þetta námsval að setja. Móðir hans, Oddný J.B. Mattadóttir, hafi til dæmis verið langt á undan sínu samtímafólki í áhuga sínum á óhefðbundnum lækningaraðferðum og þrátt fyrir að hafa unnið mjög karlmannlega vinnu, sem verkstjóri hjá Esso, hafi faðir hans, Stefán Kristjánsson, verið mjög blíður og ljúfur maður sem hikaði aldrei við að sýna mjúku hliðarnar á sjálfum sér.

„Pabbi var hávaxinn, grannur og ilmandi af bensínlykt í minningunni. Af honum lærði ég samt að það er enginn skortur á karlmennsku að vera ljúfur, sem mér fannst mjög gott því það eru margir haldnir þessum misskilningi að karlmennska gangi út á einhverja hörku. Mamma var svo alveg ótrúlega klár í grasafræðum. Hún kunni að nota alls konar jurtir og plöntur til að bæta heilsuna, auk þess sem hún eldaði mjög góðan mat úr baunum og öðru grænmeti. Ég lærði alveg helling af henni í þessum málum og ég held að þau, sem foreldrar mínir, hafi verið mjög góðar fyrirmyndir,“ útskýrir Matti og bætir við að hann hafi í raun lært margt annað gott af móður sinni. Meðal annars hvernig maður á að nálgast fólk sem er að takast á við mikla erfiðleika.

„Þegar mamma var nítján ára fæddi hún andvana son. Þessi reynsla hafði djúpstæð áhrif á foreldra mína, og að takast á við sorgina sem fylgdi gaf þeim mikla samkennd með öðrum. Þegar áföll hafa dunið yfir, til dæmis sjálfsvíg, ástvinamissir eða alvarleg veikindi, þá verða vinir og kunningjar oft vandræðalegir. Sumir forðast jafnvel syrgjandann – en það er einmitt það sem maður á ekki að gera. Þegar mamma var að takast á við þennan missi þá voru það gömlu konurnar sem komu til hennar, tóku utan um hana og sýndu henni hlýju. Hún sagði að þessar konur hefðu bjargað andlegri heilsu sinni með því að veita henni athygli og sýna henni samúð og samkennd og þetta kenndi hún mér.“

Mynd: Brynja

Hjálpar fólki að heyra í sjálfu sér

Eins og fyrr segir þurfti Matti virkilega að takast á við sjálfan sig eftir meiðslin. Hann þurfti að endurmeta eigin getu og hugarfar, læra á sjálfan sig upp á nýtt, eins og hann segir. Af þessu lærði hann líka að setja sig betur í spor annarra en segja má að starf hans gangi einmitt út á að skilja það sem Matti kallar „innra svæði“ þeirra sem til hans koma til að geta mótað stefnu fyrir framtíðina.

„Stundum hefur fólk allt til alls, þekkingu, færni, menntun og svo framvegis en kann samt ekki almennilega á sjálft sig. Starf mitt gengur að mörgu leyti út á að hjálpa fólki að heyra í sjálfu sér. Ég spyr spurninga sem leiða á endanum til þess að fólk heyrir svörin mjög skýrt. Heyrir hvert það vill fara og hvað það langar raunverulega til að gera og hvernig það vill sjá líf sitt þróast til hins betra,“ útskýrir hann en nú eru liðin þrjátíu ár frá því hann hóf námið í Bandaríkjunum.

„Ef ég gæti farið aftur í tímann, verandi sá sem ég er í dag, vitandi það sem ég veit núna, þá er ég ekki viss um að ég hefði endilega valið mér þetta nám og þennan starfsvettvang. Ég hugsa nefnilega að ungi ég hefði getað byrjað að stunda íþróttir aftur ef ég hefði vitað allt sem ég veit núna. En svo má aftur segja að ef ég hefði aldrei farið á þessa braut þá hefði ég auðvitað aldrei komist að þessu öllu,“ segir hann og hlær. „Ég ætlaði alltaf að verða atvinnumaður í körfubolta en þess í stað varð ég atvinnumaður í að hjálpa fólki. Það sem hefur haldið mér í starfinu í öll þessi ár er einlægur áhugi minn á fólki og hann verður bara meiri og meiri með árunum. Mig langar að vita yfir hvaða eiginleikum fólk býr og hvað það getur gert við þá. Ef ekki væri fyrir þennan einlæga áhuga þá væri ég örugglega fyrir löngu búinn að gefast upp og farinn að snúa mér að einhverju öðru.“

Hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera sálfræðingur

Árið 1993, þegar Matti kom heim frá Bandaríkjunum, beið hans það verkefni að plægja það sem þá var algjörlega óplægður starfsakur, enda höfðu fáir heyrt um heildræna heilsumeðferð, og enn voru áratugir í að fólk vissi hvað markþjálfun var enda birtist það orð ekki á prenti fyrr en eftir síðustu aldamót, þegar orðið „coaching“ var þýtt sem markþjálfun í grein sem birtist í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í desember 2005.

Fyrstu árin gekk starf hans aðallega út á hefðbundnar nudd- og líkamsmeðferðir en fljótlega kom í ljós að undirbúningssamtöl við viðskiptavinina skiluðu meiri árangri. Hann kom því fyrir hægindastólum á stofunni og byrjaði á samtali, áður en fólk lagðist á nuddbekkinn.

„Heildræn heilsumeðferð felur í sér að andlegt og líkamlegt jafnvægi fer hönd í hönd. Maður þarf að skoða líkamlega partinn, eins og til dæmis mataræði, sem getur oft verið grunnurinn að streitunni, en svo þarf einnig að skoða önnur persónulegri mál eins og til dæmis sambönd, fjármál, vinnuna og hvort fólk sé almennt sátt við þann stað sem það er á í lífinu og hvert það stefnir. Eftir að ég byrjaði að leggja aukna áherslu á samtöl tók ég eftir því að líkamsmeðferðirnar voru fljótari að skila árangri.“

Samtalsmeðferðir Matta gáfu svo góða raun að sumir báðu jafnvel um að setjast bara í stólinn og sleppa nuddinu en eðli starfs síns vegna mætti hann áskorun þar.

„Ég er jú ekki sálfræðingur og hef aldrei gefið mig út fyrir að vera það þótt sumir hafi haldið mig slíkan. Starf sálfræðinga gengur að mörgu leyti út á að greina uppeldi og æsku og setja í samhengi við líðan einstaklingsins en það sem ég var að gera snerist um annað. Þó að viðskiptavinir mínir hafi verið mjög ánægðir þá fannst mér eins og mig vantaði betra kerfi til að fara eftir. Samtalstækni og aðferðir sem gætu sýnt mælanlegan árangur, enda er ég mjög árangursmiðaður sjálfur. Með því að gerast markþjálfi fékk ég nákvæmlega það sem mig vantaði til að ramma inn og fullkomna það sem ég hafði verið að gera í mörg ár.“

Mynd: Brynja

##Ákvað að láta óttann ekki hafa yfirhöndina

Veistu hvað það er í sjálfum þér sem veldur þessum áhuga á öðru fólki og því sem það er að fást við?
„Líklegast er hann sprottinn af þeirri upplifun minni að hafa óstöðvandi sjálfstraust og finnast ég ósigrandi, fara svo í gegnum meiðslin, missa sjálfstraustið og finnast ég ekki geta neitt. Ákveða svo upp úr því að láta aldrei óttann koma í veg fyrir að ég gæti haldið áfram. Láta aldrei óttann taka frá mér lífið sem ég vildi lifa.“

Hvað óttaðist þú þá mest?

„Það sama og allir aðrir. Að standa mig ekki. Að vera ekki nóg og verða fyrir höfnun. Allir, sem hafa upplifað það að verða fyrir alvarlegum veikindum og komast ekki áfram, fara í gegnum sorgarferli sem tengist því að geta ekki verið maður sjálfur eins og áður. Maður þarf að greina og skilja hvað það var sem gerðist og svo þarf maður að læra á sjálfan sig upp á nýtt. Á endanum þarf maður alltaf að geta umbreytt erfiðri lífsreynslu í eitthvað sem nýtist. Eða eins og Óli Stef orðaði þetta svo skemmtilega: „Reynsla er eitthvað sem maður fær oftast rétt eftir að maður þarf á henni að halda.“

##Karlar hlaða batteríin með þögn

Undanfarinn áratug hefur Matti haft umsjón með námskeiðum, fyrirlestrum og fræðslufundum í Ljósinu, endurhæfingarstöð fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein. Þar stýrir hann jafnframt sérstökum markþjálfunarfundum fyrir karlmenn sem hafa notið mikilla vinsælda og í raun orðið til þess að krabbameinsveikir karlmenn hika síður við að sækja sér styrk og stuðning í Ljósinu.

„Konur eru mikið fljótari að sækja sér aðstoð en karlar þegar eitthvað bjátar á. Við Erna Magnúsdóttir hjá Ljósinu vildum gera eitthvað sem höfðaði til karlmanna og fórum því að skoða hvert karlar sækja styrk. Almennt séð eru konur duglegri en við karlarnir að hittast og spjalla og eru því með meira stuðningsnet en karlar. Karlarnir leggja ekki jafn mikið upp úr því að sinna vinum sínum og þess vegna er konan þeirra stundum eini vinurinn sem er eftir,“ útskýrir hann og bætir við að margir karlar sæki styrk sinn annars vegar í einveru og hins vegar í einveru með öðrum körlum.

„Auðvitað eru karlmenn ekki allir eins, og kynin eru bæði lík og ólík á sama tíma, en það er vissulega algengara að karlmenn séu lengur að tengjast tilfinningum sínum og átta sig á hvað er að gerast innra með þeim. Svo velja þeir flestir þögnina til að hlaða batteríin og þá halda konur oft að það sé eitthvað að. Vilja toga orðin upp úr þeim og við það skapast stundum erfitt andrúmsloft. Þegar karlar koma saman þá ríkir gagnkvæm virðing og skilningur fyrir því hversu nærandi þögnin getur verið og þetta hefur reynst mörgum alveg ótrúlega vel. Svo vel að nú eru stundum fleiri karlar en konur í Ljósinu, sem var alveg óþekkt áður en við hófum þetta starf.“

„Þegar maður er með konunni sinni þá er maður ekki alltaf í lagi“

Hann segir muninn á samtölum karla og kvenna stundum áberandi. Karlar greini frekar frá atburðum og upplýsingum og reyni að létta lund hver annars. Þeir tali til dæmis ekki eins mikið um annað fólk og konur gera.
„Þeir eru ekkert að spá í hjónaböndin hjá öðrum eða hvernig einhverjum kunningjum kann að líða. Þeir tala kannski um þetta en það er ekki alltaf á yfirborðinu. Stundum erum við allt að tuttugu manns samankomnir í Ljósinu á föstudögum og þetta er mjög gefandi samvera fyrir alla. Þeim finnst mjög mikill styrkur í því að hitta aðra karlmenn sem eru að ganga í gegnum það sama en það gefur bæði von og styrk,“ segir hann.

„Það er eitthvað rosalega gott sem gerist þegar karlmenn koma saman og það er mjög mikilvægt að þeir rækti vináttu við aðra karlmenn sem þeir treysta og tengjast af einfaldri ástæðu, og hún er þessi: Þegar maður hittir strákavini sína þá er maður alltaf í lagi en þegar maður er með konunni sinni þá er maður ekki alltaf í lagi,“ segir Matti og hlær.
„Konur halda vanalega utan um allt sem tengist heimilinu og fjölskyldunni og vita hvað það er sem þarf að laga. Karlmenn fá þannig oft að heyra hvað sé að og hvað þurfi að verða betra en meðan þeir koma saman þá er bara Siggi góður, Nonni góður og Gummi góður. Þeir upplifa sig eins og allt sé bara í himnalagi og koma svo betri inn í hjónabandið aftur,“ útskýrir hann.

„Þegar konan fer, þá fer allt þetta góða með henni“

„Rannsóknir úr Háskólanum hafa sýnt fram á að mikið fleiri ekklar sækja í félagsskap nýrra kvenna innan tveggja ára. Öfugt við það sem margir halda þá þurfa þeir samt ekki endilega meira á konum að halda en þær á karlmönnum. Vandinn er sá að karlmenn láta yfirleitt konurnar sínar um að viðhalda stuðningsnetinu í lífinu og þegar konan fer þá fer allt þetta góða með henni: Heimilið, brosið, jólin, gjafirnar, fjölskyldan, kynlífið … allt sem er gott tengist einni manneskju og þegar hún fer þá hverfur það. Þegar konur verða ekkjur þá gerist þetta mikið sjaldnar af því þær hafa skapað þetta stuðningsnet og haldið því við,“ útskýrir Matti.

Hann segir að það sé meðal annars vegna þessa sem það sé mjög mikilvægt að konur séu ánægðar í hjónabandinu. Ef konan sé ekki ánægð verði hún reið og pirruð og í kjölfarið fari eiginmaðurinn oft að forðast að eiga samskipti við hana. Eigi maðurinn athvarf í góðum vinahópi annarra karla gefst honum tækifæri til að hlaða batteríin, meta stöðuna og koma svo heim, hressari og orkumeiri.

Mynd: Brynja

Karlar fara fjær konum sínum þegar þeir ættu að fara nær

„Þegar ég held fyrirlestra fyrir bæði konur og karla þá varpa ég stundum fram þessari spurningu; hvort það sé einhver munur á kynjunum. Yfirleitt fara allir að hlæja en á endanum eru flestir mjög sammála því að karlar og konur eru ekki eins. Auðvitað geta einstaklingar verið líkir hver öðrum og það er líklegast meira líkt með okkur en hitt, en það er hins vegar mismunur á konum og körlum í sambandi við margt og hann er bæði fallegur, góður og á rétt á sér, enda oft ástæða þess að kynin laðast hvort að öðru. Svo höfum við orðið mismunun, sem er næstum því alveg eins en það er hvorki fallegt né rétt og hefur engan rétt á sér. Þessi tvö orð, mismunur og mismunun … oft finnst mér eins og hluti af umræðunni um jafnrétti kynjanna gangi út á að eyða mismuninum til að eyða mismunun. Sjálfum finnst mér að karlar og konur eigi að fá meira svigrúm til að vera bara eins og þau eru – en þá þarf skilningurinn að koma fyrst. Til dæmis bara í sambandi við þessa þögn sem ég var að tala um,“ segir hann. Hann segir að konur þegi oft þegar það er eitthvað að trufla þær en karlar velji þögnina til að hlaða sig andlega. Þá fari konur oft að ýta á menn sína, spyrja hvað þeir séu að hugsa og halda að það sé eitthvað að angra þá.

„Í samskiptum við konur erum við karlar reyndar stundum of gjarnir á að bakka frá okkar meiningu og segja ekki hvað við viljum og hvað við þurfum. Þeim finnst mörgum betra að koma þessum hlutum að í lokuðum karlahópum þar sem þeim finnst þeir geta sagt sína meiningu og talað út á óþvingaðri hátt ef þeim finnst þeir þurfa þess með. Um leið ná þeir að skilja sjálfa sig betur og það skilar sér svo aftur í bættu hjónabandi og betri tilveru. Ég held að alltof margir karlar geri þau mistök að fara fjær konum sínum þegar þeir ættu í raun að fara nær þeim. Hitt virkar aldrei vel,“ segir Matti að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“
Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín