fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fókus

Uppskrift: Löðrandi lekker kleinuhringur frá Le Kock

Í bransanum er þetta kallað „cake doughnut“, eða kökukleinuhringur.

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 4. febrúar 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Óskar Smárason, einn af þremenningunum sem standa að hamborgara- og kleinuhringjastaðnum Le Kock í Ármúla, gefur lesendum uppskrift að löðrandi girnilegum kleinuhring og segir að hver sem er ætti að geta steikt þetta gómsæti í eldhúsinu heima.

Sjálfur segist hann hafa fengið hálfgerðan leiða á því sem var á boðstólum hjá veitingahúsum borgarinnar og því hafi þeir félagarnir reynt að brydda upp á einhverjum nýjungum.

„Ég get ekki sagt að ég hafi smakkað einhverja stórkostlega kleinuhringi sem urðu til þess að við ákváðum að bjóða upp á þá á Le Kock. Hafði bara smakkað þessa íslensku kleinurhingi sem eru eins í öllum bakaríum. Við fengum bara leiða á því sem gengur á veitingastöðum. Það eru flestir að gera það sama en við vildum gera eitthvað öðruvísi,“ segir Karl Óskar og bætir við að þeir hafi horft til bandarískrar matarmenningar til að fá innblástur.

„Hér á Íslandi er enginn að búa til kleinuhringi eins og við. Enginn veitingastaður eða bakarí hefur sérhæft sig í góðum kleinuhringjum,“ segir Karl sem hyggst fljótlega opna sérstakt bakkelsisbakarí ásamt félögum sínum.

Kallað kökukleinuhringur í bransanum

Markús Ingi Guðnason, Karl Óskar Smárason og Knútur Hreiðarsson.
Tres amigos Markús Ingi Guðnason, Karl Óskar Smárason og Knútur Hreiðarsson.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvað uppskriftina sem hann gefur hér varðar segir hann lítið mál að gera þetta heima hjá sér.

„Það þarf bara smá lagni þegar maður er að útbúa kleinuhringi og þá sérstaklega ef maður notar gerdeig. Þessi uppskrift er reyndar mikið auðveldari enda ekkert ger í henni svo maður þarf ekkert að bíða eftir því að deigið lyfti sér. Í bransanum er þetta kallað „cake doughnut“, eða kökukleinuhringur, enda deigið í þessu meira í ætt við kökudeig en brauðdeig. Við notum svo kardimommur í uppskriftina sem gerir hann meira í ætt við gömlu góðu íslensku kleinuna.“

Hægt að nota alls konar krem

„Í þessari uppskrift setjum við glassúr ofan á kleinuhringinn og bætum smá sítrónuberki við en auðvitað getur hver og einn valið hvað er sett ofan á kleinuhringinn. Til dæmis er hægt að bæta kakódufti í glassúrinn, lakkrís eða einhverju nammi og þá er upplifunin allt öðruvísi,“ segir kleinuhringjaunnandinn Karl Óskar að lokum.

UPPSKRIFT

Deig

240 g sykur
5 eggjarauður
40 g smjör
380 g sýrður rjómi 18%
600 g AP hveiti
15 g lyftiduft
12 g salt
2 l matarolía til steikingar

Aðferð: Setjið saman í hrærivélaskál sykurinn, eggjarauður og smjör. Þeytið upp með spaðanum, ekki þeytaranum. Þegar blandan er orðin ljós á litinn er sýrðum rjóma bætt út í og hrært í 2 mínútur til viðbótar. Sigtið þurrefnin saman í skál og bætið rólega útí blönduna í hrærivélaskálinni á lágri stillingu. Þegar allt er komið í skálina og deigið vel hrært saman þarf að geyma það í ísskápnum í a.m.k. klukkutíma til að það kólni. Gott er að færa deigið yfir í aðra skál sem hefur verið smurð með einhvers konar fitu til að það festist síður við skálina. Næsta skref er að fletja deigið út og gott er að sáldra smá hveiti á borðið til að auðvelda fyrir. Deigið er flatt jafnt út með kökukefli og ætti að vera ríflegur sentímetri að þykkt, eða svipað þykkt og lengd naglar á þumalfingri. Kleinuhringirnir eru svo stungnir út, best er að eiga í skúffunni þar til gerð hringform í mismunandi stærðum, en það er vel hægt að redda sér með glösum, skálum og skotglösum fyrir gatið í miðjunni. Á þessum tímapunkti er hægt að geyma kleinuhringina í ísskáp ef þeir eiga að vera nýsteiktir þegar þeir eru bornir fram, eða bara að steikja þá strax. Til að steikja kleinuhringina þarf að hita olíuna upp í 170–180°C í potti. Djúpsteikingarpottur hentar vel ef hann er til á heimilinu. Kleinuhringnum er svo sleppt í olíuna. Þegar hann flýtur upp á yfirborðið þarf að steikja hann í um 40 sekúndur til viðbótar, áður en honum er snúið við og steiktur á hinni hliðinni í u.þ.b. mínútu. Þá er hann tekinn upp úr og lagður á eldhúspappír til að grípa olíuna sem lekur úr honum. Kleinuhringurinn þarf að kólna áður en honum er dýft í glassúrinn.

Glassúr

100 ml nýmjólk
400 g flórsykur
Klípa af salti
1 tsk. muldar kardimommur
1 stk. sítróna

Aðferð: Mjólk og flórsykri hrært saman og kardimommum bætt út í. Kleinuhringnum er dýft í glassúrinn og látinn sitja á ofngrind þannig að glassúr geti lekið af honum. Börkurinn af sítrónunni rifinn yfir áður en hjúpurinn storknar og þá er kleinuhringurinn tilbúinn. Það er mjög auðvelt að breyta glassúrnum á hvaða hátt sem er, það eina sem þarf að hafa í huga er hversu þykkur hann er.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 21 klukkutímum

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín